Ráðstefna Alkirkjuráðsins um umhverfismál haldin á Íslandi

1. september 2017

Ráðstefna Alkirkjuráðsins um umhverfismál haldin á Íslandi

Alkirkjuráðið mun halda ráðstefnu um frið við jörðina í samvinnu við þjóðkirkjuna 11.-13. október nk. en þetta er í fyrsta sinn sem slík umhverfisráðstefna er haldin á Íslandi. Jafnframt munu Alkirkjuráðið og þjóðkirkjan taka virkan þátt í Norðurslóðaþinginu (Arctic Cirle Assembly) dagana 13.-15. okt. í Hörpu og víðar.

Íslenska kirkjan beinir sjónum sínum að umhverfismálum og nú er tímaskeiðið frá 1. sept. til 4. okt. helgað sköpunarverkinu í fyrsta sinn eins og fyrirmyndir eru til um annars staðar. Markmiðið er að umhverfisstarfið tvinnist inn í daglega starfsemi og er gert ráð fyrir að umhverfisstefna kirkjunnar verði uppfærð á kirkjuþingi síðar í haust. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hvetur til athafna í hverjum söfnuði og telur æskilegt að söfnuðir kirkjunnar sækist eftir vottun Umhverfisstofnunar á starfsemi sinni. Jafnframt eru aðgerðir á borð við endurheimt votlendis og skógrækt á kirkjujörðum til umfjöllunar.

Agnes M. Sigurðardóttir: „Gríska orðið kairos, sem er þekkt úr biblíulegu samhengi, hefur verið notað í samtímanum um farsælan viðsnúning í hugsunarhætti og veigamikil framfaraskref. Ég tel að stund sannleikans sé runnin upp í umhverfismálum. Heimsbyggðin skynjar nú sem aldrei fyrr nauðsyn þess að hlúa að jörðinni og sérstaklega því að snúa við og draga úr ofhlýnun jarðarinnar. Næstu 5-10 ár munu skipta sköpum um það hvort mannkyn nái markmiðum Parísarsamkomulagsins, svo að hlýnunin fari ekki yfir 2°C. Gerist það ekki, verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir mannkyn og lífríkið allt. Nú þurfa orð að verða að verkum og þar getur kirkjan skipt sköpum.“

Tímaskeiðið frá 1. sept. til 4. okt. 2017 verður nefnt Tímabil sköpunarverksins og verða m.a. haldnar málstofur og ráðstefnur allt til 15. okt. Meðal atriða sem falla innan þessa ramma eru:

  • Aðsteðjandi umhverfisógn og þörfin fyrir siðbót. Ráðstefna Guðfræðistofnunar, guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ og nefndar á vegum þjóðkirkjunnar vegna 500 ára afmælis siðbótarinnar, 8. sept.
  • Umhverfisréttlæti – siðferðileg kvöð til aðgerða. Málstofa Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar, haldin í tengslum við Norðurslóðaþingið laugardaginn 14. okt.
  • Ráðstefna Alkirkjuráðsins í Digraneskirkju, 11. -13. okt.
  • Norðurslóðaþingið í Hörpu, 13.-15. okt.
  • Uppfærsla á  umhverfisstefnu kirkjunnar.

Þess má geta að útvarpsmessan á Rás 1, 17. sept. nk., verður helguð tímabili sköpunarverksins. Þá munu þátttakendur á Norðurslóðaráðstefnunni prédika í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu sunnudaginn 15. okt.


  • Kvöldskemmtun

  • Tónlist

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut