Lúther í Eyrarbakkakirkju

30. júlí 2019

Lúther í Eyrarbakkakirkju

Lúther lætur lítið yfir sér á hillunni

Eyrarbakkakirkja tekur vinalega á móti þeim sem kemur inn, panill hennar ómálaður en hlýr, og altaristaflan dregur fljótt að sér athyglina. Hún er líka einn mesti dýrgripur kirkjunnar, og sögufræg. Höfundur hennar er Louise, Danadrottning, kona Kristjáns IX, konungs, og er gjöf hennar til kirkjunnar. Á altaristöflunni má sjá nafn drottningar og ártal 1891. Drottning hefur málað töfluna út frá samtali Jesú við samversku konuna.

En það er líka annar sérstakur gripur í kirkjunni sem lítið fer fyrir en á 16. öld hreif viðkomandi marga með sér og var stjarna. Hann er sunnanmegin i kirkjunni, aftast og úti í horni, og situr þar á hillu. Þetta er brjóststytta af siðbótarmanninum Marteini Lúther. Líklegast er þetta eina kirkjan á Íslandi sem hefur geyma styttu af honum, kirkjan.is hefur ekki spurnir af öðru og þætti þá gott að fá línu um það ef ekki rétt er.

En hvernig stendur á þessari styttu hér? Eru Eyrbekkingar lútherskari en aðrir Íslendingar?

Tíðindamaður kirkjan.is leitaði til fyrrum sóknarprests á Eyrarbakka, sr. Úlfars Guðmundssonar, en þar gegndi hann þjónustu hátt í þrjá áratugi. Og ekki stóð á svari hjá fyrrverandi prófastinum.

Brjóststyttan er minningargjöf um hjón nokkur, Hansínu Ástu Jóhannsdóttur, og Jón Björgvin Stefánsson, frá börnum þeirra. Hún var gefin á 100 ára afmæli Eyrarbakkakirkju árið 1990. Styttan var keypt í Póllandi. Gefendum hefur þótt bjartur svipur yfir siðbótarmanninum og hann ætti heima á Bakkanum. En engin skýring er á því hvers vegna stytta af Lúther var valin að gjöf frekar en eitthvað annað – hún var hins vegar vegleg og kannski frumleg ef svo m á segja. Þetta er eftirmynd úr gifsi eftir kunnri brjóstmynd af Lúther frá 1883 og gerð af R. Möller.

Þegar fólk sýnir kirkju góðan hug með ýmsum gjöfum koma stundum upp viðkvæm álitmál. Hvar á minningargjöfin að vera í kirkjuhúsinu? Stundum hafa deilur komið upp í sambandi við minningargjafir en oftast nær tekst að leysa málin í samvinnu og sátt.

Sr. Úlfar sagði að nokkrar umræður hefðu farið fram á sínum tíma hvar brjóstmyndin ætti að vera. Gefendur höfðu ákveðna skoðun á því, vildu hafa hana í kór eða á austurgafli svo allir sæju. „Ég var því mótfallinn,“ sagði sr. Úlfar, „og taldi að styttan ætti ekki að vera fyrir framan söfnuðinn. Það færi best á því að hún væri aftast í kirkjunni.“

Brjóstmyndina af Marteini Lúther er að finna sem áður sagði á hillu úti í horni að sunnanverðu í kirkjunni. „Mér fannst að það hefði nú ekki verið hans stíll að tróna fyrir framan söfnuðinn,“ segir sr. Úlfar, og bætir við: „Hann gat vel fylgst með prédikun prests úr sínu horni.“

Altaristafla Eyrarbakkakirkju. 


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Menning

  • Samfélag

Frá Egilsstöðum - Egilsstaðakirkja
07
des.

Líf og fjör

Söngur er ómissandi...
Vasklegur aðventuhlaupa- og gönguhópur - Steinþóra tekur sjálfu
07
des.

Hlaupið á aðventu

... vel heppnað samspil kirkju og samfélags
Hér heldur formaður sóknarnefndar á fjólubláa höklinum, Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir. Frá vinstri: Hjónin Gert Madsen og Elín, sr. Erla og sr. Fritz
06
des.

Stutta viðtalið: Veflistakona og kirkjan

„Ég hanna allt sjálf og teikna,“ segir Elín hress í bragði