Biskup fær friðartrefil

31. júlí 2019

Biskup fær friðartrefil

Fra vinstri: dr. María Ágústsdóttir, Þórunn Ísfeld Þorsteinsdóttir, biskup Íslands, Þórdís Ásgeirsdótti og Fríða Bjarnadóttir

Það er margt sem konur hafa fyrir stafni í kirkjum landsins. Þær eru öflugar í hvers kyns grasrótarstarfi innan safnaðanna og hafa iðulega forgöngu um mál sem koma kirkju og söfnuði til góða. Víða er sjálfboðaliðastarf kirkna borið upp af konum hvort heldur í bæjum, kauptúnum eða til sveita. Þær eru óþreytandi að finna upp á einhverju nýju. Einhvernveginn vita þær með sjálfum sér að verkin skila sér að lokum á sama hátt og þegar fitjað er upp á fyrstu lykkju í prjónaskapnum.

Á dögunum kom hópur kvenna færandi hendi á fund biskups Íslands. Var frú Agnesi M. Sigurðardóttur, afhentur fjólurauður friðartrefill sem einnig má kalla Jesú- eða bænatrefil. Treflana hannar og prjónar Þórdís Ásgeirsdóttir, djákni, og bæn fylgir hverri lykkju sem eru um 22 þúsund í hverjum trefli. Þá hefur Þórdís einnig hannað og prjónað stólur í sama stíl og fékk biskup ljósbláa stólu að gjöf.

Með í för voru konur úr fyrirbænahópi Lágafellssóknar, friðarsysturnar Fríða Bjarnadóttir og Þórunn Ísfeld Þorsteinsdóttir, ásamt systurdóttur Þórdísar, dr. Maríu Ágústsdóttur.

Forsagan er sú að haustið 2001 varð til bænahópur í Mosfellsbæ að frumkvæði Þórdísar, sem þá starfaði sem djákni í Lágafellssókn, og þátttakenda í foreldramorgnum safnaðarins. Hópurinn hefur starfað óslitið síðan, þó samsetning hans hafi breyst, og kemur saman til fyrirbænastundar í Lágafellskirkju á mánudögum kl. 16.15. Þá hafa Þórdís og bænasysturnar gengið friðargöngu í tengslum við Kærleiksviku í Mosfellsbæ sem haldin er í febrúar ár hvert og tendrað friðarljós á tjörninni á Stekkjarflöt.

Í byrjun árs 2015 kom sú hugmynd til Þórdísar, sem þá hafði látið af störfum sem djákni vegna veikinda, að nýta tíma sinn og sköpunarkraft til að prjóna trefla með íprjónuðu rósamynstri og merki krossins í miðjunni. Hvort tveggja táknar Jesú og frið Guðs í lífi okkar. Einnig prýða treflana línur sitt hvoru megin sem merkja jarðarbúa og sköpunarverkið allt sem okkur ber að umfaðma með útréttum friðarhöndum. Treflarnir eru alfarið hönnun Þórdísar og strax fyrsta árið lauk hún við 54 trefla sem nú prýða og hlýja eigendum sínum, en alls eru treflarnir orðnir ríflega hálft annað hundrað og hver trefill númeraður.

Hægt er að panta trefla hjá Þórdísi sem prjónar þá úr léttlopa í ýmsum litasamsetningum og fylgir hverjum trefli friðarkveðja. Fyrirbænarefni sem borin eru fram á vikulegum friðar- og fyrirbænastundum má senda inn í gegn um heimasíðu Lágafellskirkju:

https://www.lagafellskirkja.is/fullordnir/fyrirbaenastundir/

 

Hver friðartrefill hefur sitt númer