Glaðir Suðurnesjamenn í Vatnaskógi

19. september 2019

Glaðir Suðurnesjamenn í Vatnaskógi

Kátir klerkar, sr. Erla, sr. Sigurður Grétar og sr. Fritz Már

Um þessar mundir fer mikill fjöldi fermingarbarna með prestum sínum og fræðurum í Vatnaskóg. Það er hluti af fermingarfræðslunni og börnunum finnst þetta vera spennandi. Sum hafa komið í Vatnaskóg áður en önnur ekki.

Kirkjan.is fór dagstund í Vatnaskóg til að fylgjast með fermingarnámskeiði.

Allur trjágróður í Vatnaskógi hefur tekið á sig fallegan haustblæ og er farinn að sölna. En það var æskuljómi með roða í kinnum sem tók á móti tíðindamanni að morgni dags þegar rigningin lamdi matsalinn að utan og hafði greinilega hertekið Skóginn með hressilegu áhlaupi.

Flott fræðsla 

Þetta voru strákar úr Keflavík sem voru þar með prestum sínum, þeim sr. Erlu Guðmundsdóttur og sr. Fritz Má Jörgenssyni. „Þeir komu á hádegi á mánudaginn og fara síðdegis í dag,“ sagði sr. Erla. „Okkur finnst betra að kynjaskipta þeim. Stelpurnar koma svo í dag þegar strákarnir verða farnir.“

Á staðnum var og sr. Sigurður Grétar Sigurðsson, prestur á Útskálum, og stýrði fermingarnámskeiðinu enda alvanur fræðari og Skógarmaður.

Strákahópurinn skaust í gegnum dynjandi rigninguna úr matsalnum og yfir í Gamla skála. Þar beið sr. Sigurður Grétar. Hann ætlaði að fræða strákana um boðorðin og trúarjátninguna.

Stundin hjá sr. Sigurðir Grétari hófst á því að strákarnir sungu af hjartans lyst ýmsa söngva úr æskulýðssöngbókinni. Margir höfðu óskir um lög eins og Daginn í dag og Hallelúja – hið fræga lag Leonard Cohen við kristilegan texta eftir konu eina sem mátti margt reyna. Miklar umræður fóru fram um boðorðin og sérstaklega fimmta boðorðið: „Þú skalt ekki mann deyða.“ Þar nefndu strákarnir einelti og illt umtal sem dæmi um að deyða.

 „Bræður góðir...“

Í fermingarfræðslunni er börnunum meðal annars kennt að fletta upp í Nýja testamentinu. Nú reyndi á það því sr. Sigurður Grétar stýrði keppni um hver væri fljótastur að fletta upp. Þetta var eins og glímukeppni því sr. Sigurður Grétar sagði hátt og skýrt við strákahópinn í hvert sinn sem átti að fletta upp: „Takið ykkur stöðu með Nýja testamentið!“ Í verðlaun voru sjö gosflöskur, ein flaska fyrir hvern ritningarstað. Strákarnir fylltust miklu kappi og voru ótrúlega snöggir að fletta upp og gosflöskurnar runnu út.

Sr. Sigurður Grétar ávarpaði strákana sem bræður og kunnu þeir svo vel við það að þeir voru farnir að gera það sama þegar ávörpuðu hvern annan.

Sr. Fritz ræddi við strákana um baráttu góðs og ills og gerði það með miklum tilþrifum, sterkum og áhrifaríkum glærum sem náðu vel til strákanna. „Þeir eru mjög spenntir fyrir þessu,“ sagði sr. Fritz, „og næmir fyrir sérstöðu Jesú þegar ég sýni þeim myndir af súpermann og öðrum slíkum hetjum.“

Sr. Erla ræddi við strákana um bænina sem samtal við Guð. Það væri dýrmætt tækifæri að geta tjáð hugsanir, vonir og trú við Guð. 

„Þeir skrifuðu bænavers sem þeir kunnu og það kom skemmtilega á óvart hvað þeir kunnu mörg vers“, sagði sr. Erla. Svo bað hún strákana um að skrifa eigin bænarefni og þau voru fjölbreytileg og ólík.

Fótbolti, bogfimi og sund

Kirkjan.is ræddi við nokkra stráka og sögðu þeir þetta vera frábæran stað. Fræðslan hefði verið fín og allt gengið vel. Maturinn góður. Þegar þeir annars spurðir um uppáhaldsmatinn heima komu mörg svör: indverskur matur, læri eða kótilettur, kjúklingasalat, spagetti og lasagne. Pottréttir og slátur. Augljóst að þarna voru engir matargikkir á ferð af Suðurnesjum.

Sumir strákanna sögðust æfa fótbolta með Keflavík. Einn hélt með Liverpool og annar með Arsenal. En ekki æfa allir fótbolta. „Ég æfi bogfimi,“ sagði snaggaralegur strákur og annar sagðist hafa æft sund frá því að hann var smástrákur. „Ég æfi ekki neitt sérstakt,“ sagðir svo einn strákur upp úr eins manns hljóði og bætti við þó nokkuð spekingslegur á svip: „Þessi sparkar í markið, þessi skýtur ör í markið – og þessi syndir í mark.“

Strákarnir sögðu að kvöldvökurnar hefðu verið frábærar. Ljósamessan í Gamla skála fín og sumir höfðu aldrei séð ljósakross en það er stór trékross sem er lagður á gólfið og sprittkerti sett á hann. Þeim fannst gaman í íþróttahúsinu og bátarnir „æði“.

Lokastund í Hallgrímskirkju á Hvalfjarðarströnd 

Í Keflavík eru fermingarbörnin hátt í hundrað. Í bæjarfélaginu eru um 25% útlendingar. Sr. Erla sagði að í sveitarfélaginu væri dæmi um fjórtán þjóðerni í einum skólabekk.

Í lok hvers námskeiðs er farið í Hallgrímskirkju á Hvalfjarðarströnd. Þar eru hóparnir fræddir um sr. Hallgrím Pétursson og höfð um hönd helgistund áður en farið er heim.

Það voru glaðir ungir Suðurnesjamenn sem héldu heim úr Vatnaskógi í dag með þó nokkra reynslu í farteskinu.


Grjónagrautur og brauð með áleggi í hádegismat


Skór drengjanna eru ólíkir eins og þeir sjálfir

  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta