HÍB á Twitter, Instagram og Facebook

7. ágúst 2020

HÍB á Twitter, Instagram og Facebook

Lundinn er víða vinsæll enda fallegur og virðulegur

Allir kannast við biblíutilvitnanir sem kallast mannakorn og aðra svipaða miðlun á tilvitnunum í Biblíuna. Slíkar tilvitnanir geta reynst fólki hjálplegar í margvíslegum aðstæðum – talað beint inn líf þess og opnað ýmsar nýjar leiðir – vakið fólk til umhugsunar.

Það hefur vakið athygli að elsta félag landsins, Hið íslenska biblíufélag, er mjög virkt á Twitter, Instagram og Facebook. Félagið birtir mjög kraftmiklar myndir og vel valda biblíutexta á samfélagsmiðlunum.

Þessi virkni sýnir ein og sér að HÍB er býsna öflugt þó gamalt sé og það áttar sig á mikilvægi samfélagsmiðlanna fyrir miðlun á efni hinnar sígildu bókar, Biblíunnar, og fagnaðarerindisins.

Kirkjan.is spurðist fyrir um þetta hjá Biblíufélaginu og fékk þau svör að þeir Halldór Elías Guðmundsson, djákni, og Einar Aron Fjalarsson, nemi í félagsráðgjöf, hefðu haft veg og vanda af þessu.

Félagarnir Halldór Elías og Einar Aron eru mjög ánægðir með viðbrögðin en biblíuvers eru birt daglega á Instagram, Facebook og Twitter. Einar Aron sá um útvegun á ritningarstöðum en Halldór Elías fór í myndaöflun og tæknimálin.

Halldór Elías og Einar Aron „Ég fór í ljósmyndabanka og fékk myndir frá Íslandi, jafnframt því sem ég leitaði í mitt persónulega myndasafn,“ segir Halldór Elías. „Ég notaði síðan hönnunarstaðal Sameinuðu biblíufélaganna til að útbúa þær.“ Halldór Elías segir að þeir hafi fengið myndagrunn fyrir Photoshop frá Sameinuðu biblíufélögunum, staðfært efni og sett inn biblíuvers á íslensku í stað enskra versa.

„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð,“ segir Einar Aron, „fólk tekur vel í þetta, lækar, kommentar og deilir þessu áfram.“ Hann segir að þúsundir notenda sjái myndirnar og textann í hverjum mánuði og það fjölfaldist að sjálfsögðu þegar myndum er deilt.

Halldór Elías segir að notast sé við birtingakerfi sem birtir versin sjálfvirkt á Facebook, Twitter og Instagram. „Viðbrögðin eru langmest á Facebook þar sem við erum að fá milli 70-150 viðbrögð á dag,“ segir hann. „Við sjáum að Instagram-hópurinn okkar vex smátt og smátt,“ en bætir því við að fylgjendahópurinn á Twitter sé ekki mjög stór enn sem komið er hvað sem síðar verði.

Ekki má skilja svo að þeir félagar Halldór Elías og Einar Aron vakni upp fyrir allar aldir og setji versin inn í svefnrofunum (þó skal tekið fram að kirkjan.is er aldeilis ókunnug fótaferðatíma þeirra félaganna!) Nei, birtingakerfið er nánast sjálfvirkt þegar búið er að fóðra það á gæðafóðrinu (Biblíunni!), og mun kerfið birta biblíuvers næstu 538 daga eða út næsta ár. Þó þurfa þeir endrum og sinnum að grípa inn í eins og gengur með allt sem snýr að tæknimálum.

Dropinn holar steininn í þessu eins og öðru. Kirkjan.is hvetur fólk til að deila þessum tilvitnunum Hins íslenska biblíufélags á samfélagsmiðlunum, og ganga til liðs við það með þeim hætti. Svo er að sjálfsögðu alltaf hægt að ganga í hið aldna félag!

 

hsh

 


Falleg og kröftug mynd sem og tilvitnun


Táknræn mynd og sterk


  • Frétt

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut