Flott námskeið

2. október 2020

Flott námskeið

Seljakirkja í Breiðholti

Safnaðarstarf felst meðal annars í fræðslu.

Víða er boðið upp á margvíslega fræðslu í söfnuðum og lesa má um það á heimasíðum kirknanna eða Facebókar-síðum þeirra. Það er enda frumskylda sóknar að bjóða upp á helgihald, kærleiksþjónustu og fræðslu um kristna trú.

Seljakirkja í Breiholti býður upp á námskeið um Faðir vorið, bæn Drottins í daglegu lífi. Það stendur yfir frá 7. október til 4. nóvember. Námskeiðið ber heitið: Mitt faðir vor...

Kirkjan.is spurði sr. Bryndísi Möllu Elídóttur, prest í Seljakirkju, nánar út í námskeiðið, en hún hefur umsjón með því.

Sr. Bryndís Malla segist hafa boðið upp á ýmis námskeið í gegnum tíðina t.d. bænanámskeið, námskeið um Biblíuna, Emmaus-námskeið og fræðslukvöld um Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Námskeiðin hafi verið vel sótt.

„Hver átti hugmyndina að þessu námskeiði?“ spyr kirkjan.is.

„Ég á hugmyndina enda sé ég um fullorðinsfræðsluna í Seljakirkju,” svarar sr. Bryndís Malla, „en það skiptir kannski ekki öllu máli, en þetta er ein af mörgum hugmyndum sem ég var að skoða fyrir þetta haust og fannst að nú væri einmitt rétti tíminn til að koma saman og fjalla um Faðir vorið. “

Hún segir heiti námskeiðsins Mitt faðir vor hafa margvíslega skírskotun og eflaust ýmsir sem þekkja ljóð Kristjáns frá Djúpalæk sem endar á þessum orðum.

Sr. Bryndís Malla segir að skráning sé í fullum gangi og vonast hún til þess að námskeiðið veki áhuga fólks enda sé Faðir vorið dýrmæt bæn sem gaman sé að fræðast meira um og sjá tengingar inn í daglegt líf okkar.

„Seljakirkja er rúmgóð og því auðvelt að bjóða upp á námskeið þar sem öllum sóttvarnarreglum er fylgt.“ Hún bendir á að kvikmyndahús og leikhús séu opin og þá sé mikilvægt að kirkjan haldi einnig sínu striki eins og mögulegt er á hverjum stað.

Seljakirkja mun halda áfram að bjóða upp á námskeið eða fræðslukvöld að sögn sr. Bryndísar Möllu en ef til vill sé ekki rétt að skipuleggja slíkt of langt fram í tímann að þessu sinni í ljósi aðstæðna í samfélaginu sem geti breyst skjótt. „En það er enginn skortur á hugmyndum eða umræðuefnum sem gaman væri að fjalla um í kirkjunni, “ segir sr. Bryndís Malla í lokin.

Fyrsti tími námskeiðsins er í umsjón sr. Bryndísar Möllu hinn 7. október. Þar talar hún um bænina.

Síðan kemur hver gesturinn á fætur öðrum og miðlar af þekkingu sinni og reynslu.

Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni, fjallar viku síðar um það að takast á við viljann þegar árin færast yfir. Þórey Dögg er margreynd í kirkjulegri þjónustu við eldriborgara. Hún er framkvæmdastjóri Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma. Þórey Dögg verður þann 14. október með sitt innlegg.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, ræðir um hlutverk kristins fólks þegar kemur að neyð náungans. Hann er gjörkunnugur aðstæðum fólks sem býr við bágar aðstæður heima sem heiman.

Fyrirgefningin er orð sem skýtur oft upp kolli í fangelsum. Það er fangaprestur þjóðkirkjunnar, sr. Sigrún Óskarsdóttir, sem fjallar um hana undir fyrirsögninni: Að fyrirgefa og vera fyrirgefið. Hún verður með sitt framlag 28. október.

Sóknarpresturinn í Seljakirkju bindur svo lokahnútinn á námskeiðið 4. nóvember og fjallar um það að finna styrk trúarinnar í erfiðleikum. 

Námskeiðið er á miðvikudögum í Seljakirkju frá 19.30-21.00. Enginn aðgangseyrir og allir að sjálfsögðu velkomnnir.

Og auðvitað er farið eftir sóttvarnareglum, kirkjan er stór og auðvelt að halda tveggja metra nálægðar – fjarlægðarregluna.

Í nokkrum kirkjum hefur verið boðið upp á metnaðarfullt fræðsluefni það sem af er hausdögum. Nefna má sem dæmi Vídalínskirkju. Dagskráin: Stefnumót í hádegi fór af stað fyrir nokkru og þar í boði eru margir athyglisverðir fyrirlestrar. 

hsh

 

Mitt faðirvor

Ef öndvert allt þér gengur
og undan halla fer,
skal sókn í huga hafin
og hún mun bjarga þér.
Við getum eigin ævi
í óskafarveg leitt
og vaxið hverjum vanda,
sé vilja beitt.

Þar einn leit naktar auðnir
sér annar blómaskrúð.
Það verður sem þú væntir.
Það vex sem að er hlúð.
Þú rækta rósir vona
í reit þíns hjarta skalt
og búast við því besta
þó blási kalt.

Þó örlög öllum væru
á ókunn bókfell skráð,
það næst úr nornahöndum
sem nógu heitt er þráð.
Ég endurtek í anda
þrjú orð við hvert mitt spor:
Fegurð, gleði, friður –
mitt faðirvor.

    Kristján frá Djúpalæk (1916-1994)

  • Menning

  • Námskeið

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra