Aldargamall

5. mars 2021

Aldargamall

Fallegur engill á gömlu leiði í Hafnarfjarðarkirkjugarði

Í fyrradag var öld liðin frá því að jarðsett var fyrst í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Þegar kirkjan.is kom þar 3. mars var veður stillt og bjart. Já, hlýtt. Svona var það ekki upp á dag fyrir einni öld heldur: „Hríðarveður og bylslitringur var á, dimmviðri og norðvestangarri,“ segir í bókinni Helgistaðir við Hafnarfjörð, 2. bindi, bls. 890. Samt fylgdu um þrjú hundruð manns hinum látna til grafar en sá var Einar Jóhannesson Hansen (1843-1921). Hann er vökumaður garðsins, eins og sagt er. Þjóðtrúin segir að hann eigi að taka á móti öllum sem þar eru greftraðir og vaki yfir garðinum. 

Kirkjan.is spurði Arnór Sigurðsson, kirkjugarðsvörð, hvort það væri engin afmælisveisla.

„Hún var blásin af,“ sagði hann og brosti. „Kóvidið sá um það.“ Arnór hefur verið starfsmaður kirkjugarðsins í um þrjátíu ár. Hann hefur gegnt starfi kirkjugarðasvarðar frá 1997. „Það eru þrjár jarðarfarir hér að meðaltali í hverri viku,“ sagði hann þegar kirkjan.is spurði út í málin. „Já, svona 160 á ári.“

Kirkjan.is spurði hvar vökumaður garðsins væri grafinn því ekki væri hjá því komist að taka mynd af leiði hans fyrst á annað borð var komið í Fjörðinn. Arnór vatt sér út fyrir dyr að kirkjugarðskortinu og kirkjan.is í humátt á eftir honum. Hann sýndi hvernig væri best að komast að leiði vökumannsins. „Stígurinn að leiði hans er þrengstur allra stíga í garðinum,“ sagði hann og bætti svo við: „Já, svo er fyrsta konan sem var jörðuð hérna, rétt hjá vökumanninum.“

Kyrrð var í garðinum eins og vera ber. Allt umhverfi hans er hið fegursta og vel skipulagt. Fyrir utan kapelluna er stór steinn sem Arnór sagði að væri úr Hvaleyrarholtinu. Steinsmiðja S. Helgason sá um að saga steininn eftir fyrirmælum listamannsins Leifs Breiðfjörðs. Steinninn er áhrifamikið listaverk eins og  sést á myndinni sem er hér fyrir neðan.

Það stóð heima. Steinn vökumannsins er allhár varði á stöpli – kirkjan.is stóð fyrir framan hann einni öld eftir að sá mæti maður sem undir honum hvílir var jarðsettur. Svona er tíminn. Og þar til hliðar var legsteinn konunnar sem fyrst kvenna hlaut þar sína hinstu hvílu - einni viku á eftir vökumanninum. Hún hét Kristin Þorleifsdóttir (1827-1921). Miðað við fæðingarár er hún elst þeirra er í garðinum hvíla. Á legsteini hennar stendur neðst: „Fyrsta konan sem jarðsett er hjer.“

Í tilefni aldarafmælisins hefur verið gefið út myndarlegt blað sem borið verður út á öll heimili í Hafnarfirði í dag.

hsh


Leiði Einars J. Hansen lengst til vinstri. Hann var fyrstur jarðsettur í garðinum og er því vökumaður hans. Hægra megin, hvítur rómanskur púltsteinn, yfir Kristínu Þorleifsdóttur, er fyrst kvenna var jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði


Listarverk eftir Leif Breiðfjörð - steinninn var sóttur í Hvaleyrarholt í Hafnarfirði


Svona var útfararauglýsingin í Morgunblaðinu 1. mars 1921




  • Menning

  • Samfélag

  • Frétt

  • Trúin

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra