Kirkjan varð miðstöð

11. mars 2021

Kirkjan varð miðstöð

Grensáskirkja - steindir gluggar setja sterkan svip á hana

Ísland er eldfjallaland. Það eru fleiri lönd. Eins og Japan en þar geta jarðskjálftar orðið miklu harðari en þeir sem við finnum fyrir hér á landi um þessar mundir.

Í dag er 11. mars.

Áratugur er liðinn frá því að gífurlega harður jarðskjálfti skók norðausturströnd Japan, 9.0 á Richter. Svo harður skjálfti hafði aldrei áður gengið yfir Japan. Skjálftar af þessum styrkleika verða aldrei hér á landi.

Þessa viðburðar er minnst víða um heim í dag.

Skjálftinn kallaði fram gífurlega flóðbylgju sem æddi á land og sópaði burt bæjum og þorpum. Þá urðu miklar skemmdir á Fukushima kjarnorkuverinu.

Tæplega tuttugu þúsund manns fórust í þessum hamförum, á þriðja þúsund týndust. Og rúmlega sex þúsund manns slösuðust.

Fréttin barst fljótt um allan heim. Og fólk brást við.

Þetta er sá árstími sem mjög kalt er í Japan. Fólkið á hamfararsvæðinu fékk inni í íþróttahúsum. Þau voru stór og mikil lofthæð – og þau voru köld.

Og margt fólk tók strax við sér hér á landi. Alls staðar voru hjálparhendur á lofti. Hjálparstarf kirkjunnar sendi fé til lúthersku kirkjunnar í Japan, og ÆSKÞ safnaði líka fé handa fólki á hamfarasvæðinu og hér má sjá frétt  um það á sínum tíma. 

Japanskar konur sem búsettar hafa verið á Íslandi svo áratugum skiptir tóku sig saman og ýttu af stað átakinu: Hjálpum Japan.

Kærleiksvinna

Nokkrar íslenskar konur tóku að prjóna sokka, vettlinga og einnig trefla, handa fólki á jarðskjálftasvæðinu. Það fréttist og fleiri vildu leggja málinu lið. „Við viljum líka prjóna handa fólki á hamfarasvæðunum,“ sögðu gamlar konur á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þær hófust handa. Íslenskar lopapeysur streymdu frá prjónum kvenna í stríðum straumi, líka húfur, sokkar og treflar. Í hóp þeirra bættust svo starfsfólk heimilanna, og konur í kvenfélögum kirkna vítt og breitt um landið. Saumaklúbbar hér og þar út um allt land – og fjöldi einstaklinga.

Grensáskirkja varð miðstöð þessa kærleiksríka starfs. Allar prjónasendingar fóru þangað og það var í ýmsu að snúast. Hópur sjálfboðaliða kom að verki. Bæði úr kirkjunni og annars staðar frá. Samhugurinn var aðdáunarverður.

Pósturinn bauðst svo til að senda allar handprjónuðu flíkurnar til Japans endurgjaldslaust. Líka innanlands frá útibúum úti á landsbyggðinni, sendingarnar fóru í Grensáskirkju.

Fólk sem búsett var í Reykjavík og nágrenni kom í Grensáskirkju með stóra kassa og poka fulla af prjónuðum flíkum. Prjónahópar Rauða krossins, umboðsmaður japanskra bíla, og margir aðrir komu í Grensáskirkju til að gefa það sem hlýjað gat sál og líkama. Ullarflíkur sem komu utan af landi komu með póstbíl í Grensáskirkju og vaskur bílstjóri bar það allt inn í kirkju með miklum fúsleika. Allir vildu rétta fram hjálparhönd.

Japanir búsettir hér á landi og fjölskyldur þeirra og starfsfólk japanska sendiráðsins byrjuðu strax að pakka flíkunum niður í kassa sem Pósturinn lagði til.

Allt skilaði sér. Hlýjan frá landinu í norðri. Íslandi.

Það söfnuðust 5.958 hlutir sem fóru í 140 kassa og vógu 500kg.

Þessar hlýju flíkur voru sendar til tveggja hamfarasvæða, Kesennuma og Miyako.

Í þakklætisskyni sendu íbúar á hamfarasvæðunum tvo japanska fána með nöfnum sínum sem þakklætisvott til Íslendinga.

Þá héldu japanskir nemendur í Háskóla Íslands basar, og líka nemendur í Menntaskólanum á Akureyri. Háskólinn í Reykjavík lét heldur ekki sitt eftir liggja. Þar voru sýndar myndir frá Kesennuma, og sýnikennsla í júdó og kendó.

Japanir á hamfarasvæðunum og Japanir búsettir hér munu ekki gleyma vinsemd og hlýjum hjörtum Íslendinga, segir þeir Japanir sem kirkjan.is heyrði í og minnast Grensáskirku sérstaklega sem kærleiksmiðstöðvar sem stóð öllum opin. 

Þegar ár var liðið frá hamförunum var bænastund haldin í Grensáskirkju sem bæði Japanir og Íslendingar tóku þátt í. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, tók einnig þátt í þeirri stund. Yfirskrift stundarinnar var: Eitt ár er liðið.

En þrjár konur hættu ekki að prjóna fyrir hamfarasvæðið heldur héldu þær áfram. Nú fyrst eftir tíu ára stuðningsprjónaskap leggja þær prjónana frá sér fyrir þetta málefni en snúa sér örugglega að öðru góðu málefni. Japanska samfélagið er þeim innilega þakklátt fyrir þeirra mikla framlag og gleymir þeim ekki, eftir því sem nokkrir félagar í Íslensk-japanska félaginu sögðu kirkjunni.is, en í félaginu eru á annað hundrað manns.

Í japanska sjónvarpinu var þjóðarminningarathöfn  kl. 5.46 að íslenskum tíma í morgun en þá minntust þeir þessa atburðar. Það var áhrifamikil athöfn en hamfaranna var víða minnst í landinu með ýmsum hætti.

hsh


Frá minningarathöfn í Grensáskirkju þegar eitt ár var liðið frá hörmungunum


Rauði hringurnn sýnir hvar upptök skjálftans voru - norðausturströnd Japans


Frá einum af mörgum viðburðum Íslensk - japanska félagsins í Háskólanum í Reykjavík fyrir ellefu árum

Eitt af merkjum lúthersku kirkjunnar í Japan


Hönd snertir minnismerki um þau sem fórust í hamförunum


Prjónabækur eru enn á borðum í Grensáskirkju - konurnar eru sífellt að störfum!


  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Trúin

  • Frétt

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta