Á ferð og flugi

18. mars 2021

Á ferð og flugi

Fjórða bindi æviminninga Guðrúnar er nýkomin út

Það er ekki oft sem nýyrði blasir við í minningabókum. Orðið lífsforvitni kemur fyrir í formálsorðum í fjórða bindi minninga Guðrúnar L. Ásgeirsdóttur, Á meðan ég man – atburðir ævi minnar, sem kom út fyrir nokkru. Lífsforvitni er gott orð og lýsir höfundinum vel og kallar á annað orð kunnara sem á einkar vel við hana og allan frásagnarhátt hennar og það er lífsgleði. Hér er kona á ferð sem smitar gleði og bjartsýni út frá sér. Vilji til verka er mikill og ekkert fær stöðvað hana.

Guðrún er rithöfundur, prestsekkja, félagsmálajarðýta, og þannig mætti lengi telja. Sveitakona, borgardama og heimsborgari. Allt vefst þetta listavel í einni og sömu persónunni.

Í fjórða bindi minninga sinna  dvelst hún við ferðalög sín og ýmsa stórviðburði í fjölskyldu sinni. Hún er víðförul kona og nær að fanga athygli lesenda með skemmtilegri athyglisgáfu sinni og hispursleysi í skoðunum. Dæmi um það er skjaldbökuuppeldisgarður (bls. 13) og: „Ekkert skil ég í Skotunum að drífa ekki í að verða sjálfstæð þjóð.“ (Bls. 17). Og ekki meira um það – væri Guðrún hins vegar Skoti er ekki ólíklegt að þeir Skotar væru þá þegar orðnir sjálfstæðir!

Vissulega er þetta mikil persónusaga – og fjölskyldusaga. Guðrún er oftast á ferðalögum með vinum og vandamönnum, að heimsækja ættmenni og vini eða á ferð með fyrrum starfsfélögum eða samstúdentum eiginmannsins, sr. Ágústs heitins Sigurðssonar, síðast prests á Prestsbakka í Hrútafirði. Þá segir hún frá ferðum Félags fyrrum þjónandi presta og þar fylgja með skemmtilegar myndir af öldnum prestum og frúm þeirra. Margar hverdagslegar minningar fylgja sömuleiðis þessum frásögnum, hlýjar og elskulegar svo að lesandi fær nánast á tilfinninguna að hann kannist við þetta fólk eða eigi eitthvað í því. Einnig frásagnir af börnum hennar og barnabörnum. Þetta er kærleiksrík frásagnarlist.

Mikill fjöldi ljósmynda er lykill að vel heppnaðri bók sem þessari. Þær koma ótrúlega vel út þótt ekki séu þær allar stórar. Skýrar og vel greint frá hver er hver. Fyrir vikið lifnar frásögnin enn meira en ella og kallar á lesandann til að renna yfir síður, grípa ofan í skýran og læsilegan textann og skoða myndir til að sjá hvort hann eða hún kannist nú ekki við einhvern. Íslenskt samfélag er þéttriðið af kunningsskap, ættar- og vinatengslum. Alltaf rekst lesandi á einhvern sem hann eða hún kannast við.

Stutt veikindi banka upp á hjá sögukonunni þegar hún er á ferðalagi í Kanada. Reynist vera með blóðatappa í lungum. Allt fer vel. Athugul augu hennar komast ekki hjá því að sjá aðstæður samsjúklings síns á sjúkrastofunni sem endurspeglar ólíka menningu. Ung kona er lögð inn og henni fylgdu fimm karlmenn sem vildu tala fyrir hana vegna trúar sinnar og menningar.

Lesendur fá að taka þátt í doktorsgleði Guðrúnar þegar dóttir hennar, sr. María, ver doktorsritgerð við Háskóla Íslands. Þar sem annars staðar eru skemmtilegar myndir, þar er gleði sem feginleiki við völd; einnig við fjöldaútskriftarveislu í Danmörku en sonur höfundar er þar búsettur með fjölskyldu sinni.

Ferð til Asíu var spennandi, Singapúr og Kambódíu. Myndir af höfundi þar sem hún horfir yfir dulúðgum augum yfir Mekongfljót, kröftug mynd og margmál (bls. 58) og ekki síður myndin þar sem höfundur lýsir hnattstöðu Íslands fyrir ungri þarlendri stúlku án þess að vera með hnattlíkan. Frábær mynd (bls. 60).

Hún segir frá ævisögu móðurömmu sinnar sem kom út árið 2020 og fjallað var um hér  á kirkjan.is. Guðrún Lárusdóttir (1880-1938) var stórmerk kona, rithöfundur, bæjarfulltrúi og alþingismaður, og maður hennar sr. Sigurbjörn Á. Gíslason (1876-1969) merkur maður - fyrir utan það að skrifa lengsta ástarbréf Íslandssögunnar! Minningarsteinn um ömmu hennar var afhjúpaður við Tungufljót í Biskupstungum árið 2018 en þar drukknaði hún í hörmulegu bílslysi ásamt tveimur dætrum sínum.

Drýgstur hluti bókarinnar segir frá tveimur heimsreisum höfundar. Sú fyrri var ferð þvert yfir Atlantshafið og farkosturinn glæsilegt skemmtiferðaskip, nær frásögnin frá blaðsíðu 82-146. Ferðin vel skipulögð eins og sést á ferðaplaninu á bls. 83-84. Tíminn vel nýttur og þó alltaf rými fyrir eitthvað óvænt og óskipulagt – eins og þarf að gera ráð fyrir á öllum ferðalögum. Frá seinni heimsreisunni segir á blaðsíðum 164-218. Nú var farið yfir Kyrrahafið. Farkosturinn var að sjálfsögðu skemmtiferðaskip. Hin skemmtilega og lýsandi mynd á bókarkápu er tekin í þeirri seinni, Hou Lu, í Víetnam. Seinni reisan var sjötta ferð höfundar með skemmtiferðaskipi. Segir hún frá því að hún hafi þóst nokkuð góð með að hafa siglt svo oft en svo hitti hún fólk sem hafði farið hátt í fimmtíu siglingar og önnur hjón sem farið höfðu sjötíu sinnum og þremur skiptum meira. Þetta sýnir náttúrlega hve vinsæll þessi ferðamáti er, eða eins og Guðrún segir sjálf um kosti hans sem eru meðal annars „áhyggjuleysið og huggulegheitin.“ Kosturinn er líka sá að fara um sjóveg og sjá svo margt sem ekki sést frá jafn athyglisverðu og skemmtilegu sjónarhorni.

Ekki verður farið ofan í þessar heimsreisur nánar heldur áhugasömum aðeins bent á bókina – hún svíkur ekki.

Guðrún er kona meðvituð um umhverfi sitt og fólk. Í lok bókar minnist hún á kolefnisbætingu með því að moka ofan í skurði sem grafnir voru fyrr á árum í grandaleysi og hafi þau sr. Ágúst átt „hlut í þeirri þróun, því miður.“ (Bls. 246). Hún var frumkvöðull í sinni sveit í hirðusemi í umhverfinu og varð kunn kona fyrir það. Ekki höfðu allir skilning á því þá. Hún nefnir – reynd konan – að umgengni við náttúruna beri hæst í huga hennar þegar hún skyggnist um æviárin sín áttatíu og segir: „Hugsa sér að loks skuli vera farið að amast við plastinu sem við mörg, höfum tínt upp af götu okkar og úr fjörum áratugum saman...“ (Bls. 223).

Á meðan ég man – atburðir ævi minnar, fjórða bindi, 248 bls., er prentuð á vandaðan og umhverfisvænan pappír. Hún er forvitnileg bók, kemur svo sannarlega á óvart. Frásögnin er hröð og lipurlega samin þó í dagsbókastíl sé, höfundur er einlæg í hverju verki, hrein og bein í öllu sínu, hjálpfús og vinsamleg. Lífsforvitin og er í sambandi við ótrúlega stóran hóp fólks sem sýnir mikla félagsfærni. Myndir – hátt í fjögur hundruð – eru sem lífæð bókarinnar sem áður segir – sérstaklega skal bent á hina fallegu mynd af móður og börnum á blaðsíðu 222 – allar myndir njóta sín vel á þessum góða pappír. Kirkjan.is mælir með þessari hlýlegu bók kennarans, prestsekkjunnar, prestsmóðurinnar, ferðalangsins og rithöfundarins. En umfram allt manneskjunnar, Guðrúnar L. Ásgeirsdóttur.

hsh



  • Menning

  • Samfélag

  • Útgáfa

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut