Hundar sem sálgæsluliðar

2. júní 2021

Hundar sem sálgæsluliðar

Öflugur hópur í Digranes- og Hjallaprestakalli. Frá vinstri: Sr. Karen Lind og Freyja, sr. Helga og Sakya, sr. Sunna Dóra, Halla Marie, æskulýðsfulltrúi, með þær Birtu og Sóleyju, og Leó, þá sr. Gunnar og Perla - mynd: Ólöf Indíana Jónsdóttir

Digraneskirkja rís upp úr hlíðinni í Kópavogi eins og örkin hans Nóa. Þegar hún flaut um heimsins höf með allar skepnur jarðar innanborðs hefur eflaust ekki vantað neitt upp á fjörið og lífið í örkinni þá daga og nætur sem regn barði hana að utan. En dýr og menn höfðu líka samfélag hvert við annað. Þó fara ekki miklar sögur af heimilislífinu á þeim bænum þessa fjörutíu daga og fjörutíu nætur. Það er hins vegar önnur saga sem aldrei verður sögð.

En ómur af hundgá berst frá Digranesörkinni á björtum en svölum morgni þegar kirkjan.is kemur þar við.

Flestir vita að erfitt getur verið að skilja eftir hunda eina heima. Öðru máli gegnir með ketti því þeir fara sínar eigin leiðir eins og sagt er. En hundurinn er háður eiganda sínum með öðrum hætti og þykir miður þegar hann er skilinn eftir meðan húsráðendur eru fjarri í vinnu eða skóla.

Starfsfólk í Digranes- og Hjallaprestakalli hefur í alllangan tíma komið með heimilishunda sína í vinnuna. Þau eru öll hundafólk.

Sóknarpresturinn, sr. Gunnar Sigurjónsson, er með elsta hundinn, hana Perlu sem er þrettán ára. Síðan er það presturinn og hundaræktunarkonan sr. Helga Kolbeinsdóttir, með Sakyu. Sr. Karen Lind Ólafsdóttir er með Freyju og sr. Sunna Dóra Möller er með Leó, sem enn er hvolpur. Húsmóðirin í Digraneskirkju er Ólöf Indíana Jónsdóttir og hundurinn hennar heitir Tímon. Svo er það æskulýðsfulltrúinn, Halla Marie Smith, með þær Birtu og Sóleyju. 

Hundunum kemur vel saman og eiga þeir sína góðu leik- og geltstundir. Öldungurinn Perla lætur ekkert trufla sig en stundum þarf að hafa hemil á hvolpinum Leó. Freyja og Sakya eru miklar hundadömur og virtust stundum allhneykslaðar á vini sínum Leó.

Það eru ekki margir vinnustaðir sem geta státað sig af því að vera svo hundavænir. En þetta eru vissulega þægindi fyrir starfsfólkið en það eru líka fleiri sem njóta.

Börnin laðast að dýrum og læra fljótt inn á þau. Hundar eru í sérstöku dálæti hjá þeim.

Á sumum dvalar- og hjúkrunarheimilum hafa dýr starfsmanna og þá einkum hundar komið að góðum notum og þá sérstaklega þegar heimilisfólkið bjó við meiri einangrun en ella vegna kórónuveirufaraldursins. Þeim var tekið fagnandi af fólkinu og léttu því lundina.

Dýr hafa iðulega verið notuð í sálgæslu. Þau mætti kalla sálgæsluliða.

Kirkjan.is ræddi við prestana í Digranes- og Hjallaprestakalli og þeir höfðu sögur að segja frá því hvernig hundar þeirra höfðu reynst í sálgæslu. Þau sögðust að sjálfsögðu spyrja fólk hvort því væri sama ef hundurinn væri í námunda við það. Iðulega er það svo að fólk fer ósjálfrátt að strjúka hundinum og láta vel að honum. Prestarnir sögðu að það skapaði kyrrð í umhverfinu og hefði sálarróandi áhrif á fólk. Það skynjar traust hjá dýrinu. Sumir hafa átt gæludýr og rifja upp eftirminnilegar sögur af þeim. Og dýrið finnur líka fyrir því ef viðkomandi líður illa og vill gera sitt til að draga úr þeirri vanlíðan, sýnir vinsemd og samhug með sínum hætti sem hefur afar góð áhrif á fólk.

Eitt er víst að það var ekki neinn hundur í starfsfólkinu í Digranes- og Hjallaprestakalli þegar kirkjan.is kvaddi það eftir ánægjulega heimsókn til þeirra og ferfætlinganna, bestu vina mannsins, eins og einhver spakur maður sagði að hundar væru.

hsh


Digraneskirkja - kannski ekki svo ólík örkinni hans Nóa? - mynd: hsh

  • Menning

  • Nýjung

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta