Pílagrímaganga að útialtarinu

3. júní 2021

Pílagrímaganga að útialtarinu

Keltneskur kross prýðir útialtarið á Esjubergi - mynd: hsh

Hafist var handa um að reisa útialtari á Esjubergi fyrir um sjö árum. Altarið er reist til minningar um að á Esjubergi hafi staðið fyrsta kirkja á Íslandi fyrir landnám eftir því sem sagnir herma.

Það er Sögufélagið Steini á Kjalarnesi sem hefur haft forgöngu um að reisa hið veglega altarið sem er nú nánast fullfrágengið og verður vígt að öllu óbreyttu í júnímánuði. Formaður félagsins er Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, þjóðfræðingur.

Altarið er þegar farið að draga að sér fólk. Það stendur skammt hjá aðalgönguleiðinni á Kerhólakamb í Esju. Margur göngumaðurinn skoðar altarið áður en hann heldur upp á kambinn.

Nú hefur félagið Göngu-Hrólfur  boðað til pílagrímsgöngu að útialtarinu á Esjubergi sunnudaginn 6. júní. Í forsvari fyrir Göngu-Hrólf er hin kunna útvarpskona Steinunn Harðardóttir sem hefur og starfað sem leiðsögumaður og fararstjóri heima sem heiman.

Kirkjan.is ræddi við Steinunni Harðardóttur og spurði hana fyrst hvaðan þessi áhugi á pílagrímagöngum væri kominn.

„Það var ítalskur leiðsögumaður í Toscana sem sagði mér frá Nikulási ábóta og leiðarlýsingu hans á pílagrímagöngunni til Rómar,“ segir Steinunn, „Síðan 2013 hafa hópar á mínum vegum gengið valda kafla þessarar leiðar og hefur áherslan verið á þá Íslendinga sem vitað er að gengu til Rómar á miðöldum.“

Pílagrímagangan að Esjubergsaltarinu er á vegum Göngu-Hrólfs sem Steinunn er potturinn og pannan í og skipuleggur meðal annars ferðir í útlöndum í samvinnu við vita.is.

„Í kófinu fór ég að skipuleggja styttri göngur hér heima,“ segir Steinunn, „til dæmis tvær pílagrímagöngur, önnur kringum Mosfell í Grímsnesi og var hún helguð tveimur fyrstu biskupunum sem báðir gengu til Rómar. Hin var tveggja daga ganga frá Munkaþverá að Gásum en Nikulás var ábóti á Munkaþverá.“

Steinunn segir að í sumar sé tveggja daga ganga á dagskrá í tengslum við Bæ í Borgarfirði því þar hafi fyrsta klaustrið verið.

„Í framhaldi af því datt mér í hug Esjuberg þar sem þar var fyrsta kirkjan eftir því sem sagnir herma,“ segir hún og vonast til góðrar þátttöku. Hún segist leggja mikla áherslu á fræðslu í göngunum sem tengd sé sögu og jarðfræði.

Lagt verður í pílagrímagönguna frá skeiðvelli Hestamannafélagsins Harðar á Kjalarnesi sem er skammt frá merktu viktarplani við Blikdalsá og verður svæðið vel merkt. Gangan hefst kl. 10.30 og leiðin er um 8 km. Gert er ráð fyrir 3-4 tíma göngu með hléum. Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, þjóðfræðingur, mun taka á móti hópnum við altarið og segja frá sögunni í kringum Esjuberg og tilurð altarisins.

Þau sem vilja taka þátt í göngunni geta fengið nánari upplýsingar um hana í gegnum netfangið: steinunnf50@gmail.com

Sagan
Sagnir eru um kirkju á Esjubergi á Kjalarnesi fyrir kristnitöku, um árið 900. Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi „kirkjuvið ok járnklukku ok plenárium ok mold vígða“ til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. Örlygur reisti kirkju á Esjubergi á Kjalarnesi. („Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.“) (Íslensk fornrit, Íslendingabók Landnámabók, R. 1986, bls. 52 og 54). Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 13. öld. „Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.“ (Íslensk fornrit XIV, Kjalnesingasaga, R. 1959, bls. 43).

hsh


  • Menning

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Frétt

Sr. Guðmundur og sr. Guðrún.jpg - mynd

Fyrri umferð biskupskosninga lokið

16. apr. 2024
...kosið verður á milli sr. Guðmundar Karls og sr. Guðrúnar
Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi