Kirkja og samfélag á sjómannadeginum

4. júní 2021

Kirkja og samfélag á sjómannadeginum

Vonin, minnisvarði um drukknaða menn í Grindavík. Þessi áletrinun er á honum: „Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ (Jes. 30.15).- Mynd: hsh

Á sunnudaginn verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um allt land að vanda. Dagurinn hefur skotið djúpu rótum og þá einkum í sjávarbyggðum hringinn í kringum landið. Víða er dagskrá viðamikil og hver menningar- og afþreyingarviðburðurinn rekur annan. Sjómenn heiðraðir og blómsveigir lagðir við minnismerki um drukknaða og týnda. 

Sérstakar sjómannamessur verða víða um land og eru ómissandi hluti af hátíðahöldum dagsins. Annars staðar verður sjómannadagsins minnst í guðsþjónustum í borg og bæ, til sjávar og sveita. 

Í Grindavík er dagsins minnst með margvíslegum hætti. Sjómannamessa hefst kl. 14.00 í Grindavíkurkirkju en sóknarpresturinn, sr. Elínborg Gísladóttir, þjónar fyrir altari og ræðu flytur Fannar Jónasson, bæjarstjóri. Í þetta sinn er það sjómannsfjölskylda sem les bænirnar. Kór Grindavíkurkirkju leiðir sönginn undir stjórn Erlu Rutar Káradóttur organista.

Sjómenn verða heiðraðir eftir messuna og síðan flytur forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, ávarp.

Björgunarbáturinn Árni frá Tungu verður blessaður á hlaðinu fyrir utan kirkjuna. Þegar sú athöfn er yfirstaðin verður farið að minnismerkinu um drukknaða sjómenn, sem heitir Vonin, og lagður þar blómsveigur. Kvennakór Grindavíkur syngur undir stjórn Bertu Drafnar Ómarsdóttur.

Hægt verður að horfa á beint streymi frá messunni á heimasíðu Grindavíkur og Feisbókarsíðu bæjarins.

Kirkjan.is fór í smáleiðangur um heimasíður og Feisbókarsíður nokkurra kirkna. Ekki var alls staðar búið að setja inn auglýsingar á þessi vefsvæði. En þetta var sem bar fyrir augu - og er bara sýnishorn - ekki tæmandi upptalning:

Sjómannadagurinn 6. júní

Í Dómkirkjunni í Reykjavík prédikar sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í hátíðarmessu sem hefst kl. 11.00. Sr. Sveinn Valgeirsson þjónar fyrir altari. Magnús Már Björnsson syngur einsöng. Við orgelið er Kári Þormar, dómorganisti, sem jafnframt stjórnar Dómkórnum. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar sér um ritningarlestra.

Keflvíkingar verða með guðsþjónustu í bíósal Duus- safnhúsa kl. 11.00 á sjómannadaginn. Það er sóknarpresturinn sr. Erla Guðmundsdóttir sem þjónar og kór Keflavíkurkirkju syngur undir stjórn Arnórs Vilbergssonar sem jafnframt leikur undir. Kynnt verður sýningin Fast þeir sóttu sjóinn - bátasafn Gríms Karlssonar. Að lokinni dagskrá verður lagður blómsveigur við minnismerki sj´manna á Bakkalág við Hafnargötu.

Í Garðakirkju verður sumarmessa á sjómannadag í umsjón sr. Hennings Emils Magnússonar og organisti er Jóhann Baldvinsson. Félagar úr kór Vídalínskirkju leiða almennan safnaðarsöng. Sunnudagaskóli verður í Króki, í vinnustofunni á safninu. Það eru þær Matthildur Bjarnadóttir og Helga Magnúsdóttir sem sjá um það. Messukaffi verður svo í hlöðunni á Króki og þar munu vinsæl sjómannalög duna.

Guðsþjónusta verður á sjómannadaginn í Akraneskirkju kl. 11. 00. Að henni lokinni verður haldið út á Akratorg og blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna. Fyrr um morguninn verður lagður blómsveigur að minnisvarða um horfna sjómenn í kirkjugarði Akraness - sú stund hefst kl. 10.00.

Í Grundarfjarðarkirkju verður sjómannamessa og hefst hún kl. 14.00. Karlakórinn Kári syngur og prestur er sr. Aðalsteinn Þorvaldsson.

Sjómannaguðsþjónusta verður í Hólaneskirkju í Skagastrandarprestakalli 6. júní kl. 11.00. Þar verða sjómannalög sungin sem og sálmar undir stjórn Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur, organista. Sóknarpresturinn, sr. Bryndís Valbjarnardóttir, þjónar fyrir altari. Ræðumaður dagsins er Guðmundur Finnbogason. Þegar athöfninni er lokið í kirkjunni verður gengið að minnisvarðanum um drukknaða sjómenn og lagður blómsveigur við hann.

Á sjómannadaginn, 6. júní kl. 11. 00 verður messa í Ísafjarðarkirkju. Prestur er sr. Magnús Erlingsson og organisti er Tuuli Rähni. Kór Ísafjarðarkirkju syngur. Tvær stúlkur fermast í messunni. Þá verða sjómenn heiðraðir. Að messu lokinni verður blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna og minnst látinna sjómanna.

Sjómannamessa verður í Flateyrarkirkju kl. 14.00. Sjómannalög syngur Steingrímur Rúnar Guðmundsson (Denni). Athöfninni lýkur í kirkjugarðinum við leiði óþekkta sjómannsins. Prestur er sr. Fjölnir Ásbjörnsson.                                                                                       

Helgistund verður í Sauðárkrókskirkju á sjómannadaginn kl. 11.00. Agnar H. Gunnarsson, guðfræðingur, prédikar. Lög verða flutt úr leikritinu Á frívaktinni. Kirkjukórinn syngur og undirleikari er Rögnvaldur Valbergsson. Prestur er sr. Sigríður Gunnarsdóttir.                                                                                           
Í Ólafsfjarðarkirkju verður sjómannaguðsþjónusta kl.. 10.30. Hún hefst á því að gengið verður frá hafnarvoginni kl. 10.15 og til kirkju. Þar verða tveir sjómenn heiðraðir og lagður blómsveigur að minnisvarða sjómanna. Prestur er sr. Guðrún Þóru Eggertsdóttir.

Helgistund verður í Húsavíkurkirkju á sjómannadaginn klukkan 11.00. Kirkjukórinn syngur sálma og lög sem hæfa tilefni dagsins, undir stjórn Szebik Attila. Helgistundinni lýkur með því að lögð verða blóm að minnisvarða sjómanna. Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir flytur ljóð og kórinn syngur eitt lag. Sóknarnefnd býður kirkjugestum upp á hressingu í Bjarnahúsi.                                                                             

Á Djúpavogi verður guðsþjónusta við Faktorshúsið kl. 11.00. Prestur er sr. Alfreð Örn Finnsson og Kristján Ingimarsson leikur á gítar. Í tilefni dagsins er hægt að leigja kajaka, taka þátt í dorgveiðikeppni, styrkja björgunarsveitina Báru með því að kaupa grillaða hamborgara. 

Sjómannamessa verður í Hafnarkirkju kl. 14.00. Hugvekju flytur Eyrún Axelsdóttir og prestur er sr. Stígur Reynisson. Síðan verður blómsveigur lagður í minningarreit horfinna sjómanna.

hsh


Björgunarbáturinn Árni frá Tungu verður blessaður á sjómannadaginn fyrir utan Grindavíkurkirkju. Báturinn er kenndur við Árna Magnússon (1914-1987) sem var lengstum vélstjóri í Hraðfrystihúsi Grindavíkur. Hann var einn af stofnendum björgunarsveitarinnar og aðalskytta sveitarinnar þegar að fluglínutækin voru helsta bjargræði skipsbrotmanna.

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut