Fólkið í kirkjunni: Kirkja við ysta haf

24. júní 2021

Fólkið í kirkjunni: Kirkja við ysta haf

Bakkagerðiskirkja er myndarlegt guðshús innarlega í þorpinu og til mikillar prýði - mynd: hsh

Kirkjan lætur lítið yfir sér innarlega í þorpinu þegar þangað er komið. Það sést móta fyrir lágum og hógværum kirkjuturni. Þegar komið er nær sést að rými i kringum kirkjuna er gott og augljóslega stendur til að girða í kringum hana.

„Við fengum styrk frá Húsafriðunarsjóði til að mála þakið,“ segir Björn Aðalsteinsson, gjaldkeri sóknarnefndar Bakkagerðiskirkju í Borgarfirði eystri, „og við fengum málningu á góðu verði.“

„Svo fauk grindverkið í kringum kirkjuna og efnið í nýtt er komið,“ segir Björn og bætir því við að sóknarnefndin sé sammála um það að skuldsetja sig ekki. „Við viljum eiga fyrir öllu því sem við gerum.“ Björn segir að þeir hafi hins vegar fengið veglega minningargjöf til að gera við grindverkið.

Sóknin er lítil, gjaldendur eru tæplega sjötíu.

Kirkjan var byggð 1901 og í tilefni aldarafmælis hennar var henni tekið tak. Máluð að innan. Allt ytra byrðið var endurnýjað á sama tíma. Hún var upphaflega timburkirkja og svo var steypt utan um hana. „Við brutum steypuna utan af henni og endurnýjuðum allt bindingsverkið og fleira,“ segir Björn og bætir því við að ný breiðari forkirkja hafi verið byggð. Síðan var kirkjan klædd járni.

Bakkagerðiskirkja er fallegt guðshús við ysta haf. Það hefur verið vel hugsað um hana enda margt kirkjufólk sem ann henni.

Kirkjan á einstaklega fallega altaristöflu eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval en hann ólst upp í Borgarfirði eystra frá fimm ára aldri til sextán ára aldurs. Meðan hann málaði altaristöfluna árið 1914 skiptust konurnar í þorpinu á að hafa hann í fæði en þær áttu frumkvæði að því að fá hann til að mála töfluna. Þetta samstarf varð kveikjan að því að konurnar stofnuðu kvenfélag á staðnum.

Einstök altaristafla
Altaristaflan sýnir frelsarann standa við Dyrfjöll, útverði Austfjarða í norðri, flytja Fjallræðuna. Fjöldi fólks er umhverfis hann og hlýðir á. Sagt var að margur á Bakkagerði í Borgarfirði eystra hefði talið sig þekkja sveitunga sína í hópi áheyrenda. Á stöpli altaristöflunnar stendur: Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.

„Söfnuðurinn er líka að fást við við kirkjugarðinn,“ segir Björn, „við erum byrjuð að gera hann upp og fengum góða ráðgjöf frá Guðmundi Rafni Sigurðssyni, landslagsarkitekt.“ Hann segir að ákveðið hafi verið að hlaða grjóti úr líparíti í kringum garðinn og sé lokið við eina hlið en þetta sé langtímaverkefni enda dýrt.

Kirkjan.is lýsir ánægju sinni við Björn með það að kirkjan skuli hafa verið opin. Hann segir það vera reglu hjá þeim að hafa kirkjuna opna og henni hafi aðeins verið læst í undantekningartilvikum. „Eins og þegar Bræðslan er haldin hér og mikill fjöldi fólks á staðnum,“ segir Björn kíminn á svip, og bætir því við að eitt sinn hafi erlendur gönguhópur hengt föt sín til þerris í kirkjunni og hann þá læst henni. „Síðan lét ég fólkið bara hafa upp á mér í þorpinu,“ segir Björn með bros á vör, „kannski varð það þessu fólki góð lexía um það hvernig umgangast skyldi guðshús.“

Björn segir að guðsþjónustur séu fjórar til sex á ári. „En sóknargjöldin gera ekki mikið meira en að standa undir almennum rekstri,“ segir hann.

Björn hefur verið í sóknarnefnd í um aldarfjórðung og í dag verður aðalsafnaðarfundur og þá kemur í ljós hvort hann heldur áfram. Hann er fæddur og uppalinn í Borgarfirði eystra, starfar að bankamálum og bókhaldi. Leggur líka kirkjustarfinu lið. Björn segist muna fjóra presta þar. Sr. Vigfús Ingvar Sigurðsson sem skírði hann, sr. Sverri Haraldsson sem var prestur lengi í Borgarfirði eystra og bjó þar. Sr. Sverrir fermdi hann og gifti. Síðan sr. Þóreyju Guðmundsdóttur sem bjó einnig þar í Bakkagerði. Þegar prestakallið var sameinað Eiðaprestakalli varð sr. Jóhanna Sigmarsdóttir sóknarprestur og þegar hún hætti var prestakallið sameinað Egilsstaðaprestakalli.

„Við höfum verið einstaklega heppin með prestana okkar,“ segir Björn.

Björn Aðalsteinsson sóknarnefndarmaður í Borgarfirði eystra er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Bakkagerðiskirkja er afar fallegt guðshús


Alataristaflan er eftir Jóhannes S. Kjarval og er höfuðprýði kirkjunnar


Prédikunarstóllinn er látlaus


Bakkagerðiskirkja á ljósprentaða Guðbrandsbiblíu sem sómir sér vel í kirkjunni


Bekkir kirkjunnar 


Kirkjan vakir yfir fólkinu í Bakkagerði í Borgarfirði eystra


  • Heimsókn

  • Leikmenn

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra