Hressilegar sumarbúðir

25. júní 2021

Hressilegar sumarbúðir

Öflugur leiðtogahópur sem heldur traustum höndum utan um vandasamt ábyrgðarstarf í sumarbúðunum. Fremri röð frá vinstri: Gabriella Sif Bjarnadóttir, Linda Rós Danielsdóttir Vest, Berglind Hönnudóttir (Bella), Dagbjört Lilja Björnsdóttir. Aftari röð frá vinstri: Atli Mar Baldursson, Magnhildur Marín Erlingsdóttir, Hólmfríður Ósk Þórisdóttir, Bóas Kár Garski Ketilsson, Ásmundur Máni Þorsteinsson, Unnar Aðalsteinsson. Mynd: hsh.

Fjallasýn var fögur á Héraði og hiti fimmtán gráður. Sumar.

Kirkjan.is renndi í gærkvöldi að sumarbúðum kirkjunnar við Eiðavatn sem eru í um átján kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum. Þar hafa verið reknar sumarbúðir í um áratugaskeið við góðan orðstír. Fyrstu voru það fermingarbarnamót frá því um 1960 og frá 1968 hafa þar verið kirkjulegar sumarbúðir. Húsið sem sumarbúðirnar eru nú í var tekið í notkun 25. ágúst 1991 eða fyrir nær 30 árum. Þess verður minnst með viðeigandi hætti í haust.

Það var hressilegur hópur barna sem fagnaði komumanni er hann sté út úr bílnum við sumarbúðirnar á Eiðum og spurði hvað hann væri að gera. Sum þeirra gerðu hlé í eltingaleiknum, önnur voru að sparka bolta og enn önnur voru í leik undir stjórn eins leiðtogans, Atla Mars Baldurssonar en þetta er fyrsta sumarið hans á Eiðum. Atli Mar er nýstúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og hyggst læra jarðeðlisfræði í vetur. Hann sagði sumarbúðirnar ganga vel og það væru um fjörutíu börn í þessum flokki. Síðan vísaði hann gestinum á sumarbúðastjórann, Berglindi S. Hönnudóttur, fræðslufulltrúa Austurlandsprófastsdæmis.

„Það eru tíu leiðtogar hér að störfum eftir ákveðnu vaktaplani,“ sagði Berglind sem kölluð er jafnan Bella. Hún sagði þá flesta koma af Austurlandi og tveir þeirra kæmu að sunnan. Allt starf gengi mjög vel.

Sumarbúðirnar við Eiðavatn bjóða upp á flokka fyrir 7 – 10 ára börn og 8 – 12 ára börn. Þá er svokallaður ævintýraflokkur fyrir 12 – 14 ára unglinga sem vilja upplifa öðruvísi og spennandi sumarbúðaævintýri. Í sumar verður einnig boðið upp á listaflokk fyrir 8-12 ára.Hver barnahópur er frá mánudegi til föstudags. Oftast eru jafn margir strákar og stelpur.

Bella sýndi gestinum aðalsalinn en þar er lítil kapella. Prestarnir í nágrenninu skipta með sér helgihaldinu í hveri viku. Inni í salnum sátu nokkur börn og unnu að litlum listaverkum undir stjórn eins leiðtogans, Gabriellu Sifjar Bjarnadóttur, sem er nýr starfsmaður. Aðstoðarsumarbúðarstjórinn, Ásmundur Máni Þorsteinssson, eða bara hann Máni, eins og hann er kallaður, var á fullu að undirbúa kvöldvöku með hinum leiðtogunum. Máni hefur starfað lengi við sumarbúðirnar og er sálfræðinemi við Háskóla Íslands. Hann hefur unnið lengi að kirkjulegu starfi og er frá Egilsstöðum.

Margt er gert í sumarbúðunum fyrir utan leiki og alls konar sprell. Og vatnið býður auðvitað upp á ótal mörguleika og þar er líka gætt fyllstu varúðar. Þá er sungið með börnunum, þeim sagðar sögur og beðið með þeim. Á kvöldin eru kvöldvökur sem eru með ýmsu móti.

Fjögur börn sofa saman í hverju herbergi í kojum. Herbergin eru tíu, vistleg og rúmgóð. Öll húsakynni eru hin myndarlegustu og til stendur að stækka þau.

Auðséð var að börnunum fannst mjög gaman og voru glöð. Nóg var að gera og ánægjan skein úr andlitum þeirra.

Sumarbúðablandan
Síðan fór kirkjan.is í eldhúsið en það er náttúrlega hjarta hússins. Tvær eldhúskonur úr Borgarfirði eystra voru að ganga frá. Það er auðvitað mikilvægt starf að elda ofan í barnahópinn. Þau eru öll ánægð með matinn. Kirkjan.is spurði hvað væri vinsælast í morgunmat. Bella dró fram stóran dall með seríosi og kókópuffsi. „Þetta þykir þeim öllum gott,“ sagði Bella og útskýrði leyndardómsfull á svip hvernig hún hefði krækt í kókópuffsið sem liggur ekki á lausu þessa dagana. „Þetta er sumarbúðablandan,“ sagði Bella stolt a svipinn.

Sumarbúðir á Eiðum hafa verið reknar í áratugi og hafa gengið vel. Kristilegt starf þjóðkirkjunnar hefur verið eftirsótt enda vandað og vel að því staðið. Mikil eftirspurn er í sumarbúðirnar við Eiðavatn.

Sumarbúðadvöl hefur góð og holl áhrif á börn. Þau eignast góðar minningar og bindast oft ævilöngum tryggðarböndum. Flest þeirra vilja koma ár eftir ár og það segir sína sögu. Meira en það. Segir allt.

Þegar kirkjan.is gekk út og kvaddi börnin veifuðu þau glaðlega og þökkuðu fyrir komuna. Kurteis börn og myndarleg enda í góðum höndum.

Austurlandsprófastsdæmi.

Sumarbúðirnar við Eiðavatn.

hsh


Kirkjumiðstöðin er sjálfseignarstofnun á vegum safnaðanna á Austurlandi


Góð aðstaða til helgihalds og fræðslu er á Eiðum


Stundum þarf að hringj bjöllu til að kalla saman barnahópinn


Gítarinn ekki langt undan - og lítið harmóníum í kassa svo það verði ekki fyrir hnjaski


Snyrtilegt herbergi en í hverju þeirra eru fjórar kojur


Í sumarbúðum þarf allt að vera í röð og reglu annars finnst ekki neitt


Engar sumarbúðir eru án góðs matar


Aðstaða er mjög góð við Eiðavatn og börnin njóta sín vel - blörruð mynd

  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Heimsókn

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut