Erlend frétt: Kirkjum bjargað

4. janúar 2022

Erlend frétt: Kirkjum bjargað

St Denis-kirkja gróðri vaxin - mynd: The Daily Telegraph

Kirkjuhús eru menningarverðmæti sem almennt er vel hirt um. Víða erlendis er að finna kirkjur sem hafa verið afhelgaðar og yfirgefnar. Veður og vindar hafa blásið um þær, gróður sótt að þeim og mannfólkið gengið illa um þær, rúður brotnar og ýmis skemmdarverk unnin.

Sumar þessara kirkna eru ævagamlar og geyma listaverk sem liggja undir skemmdum.

Kirkjan.is las í gær um eina slíka kirkju í blaðútgáfu The Daliy Telegraph.

Maður nokkur viðraði hund sinn á hverjum og fór iðulega fram hjá yfirgefinni kirkju í Cambridgeskíri á Englandi í þorpinu East-Hatley. Þessi kirkja var helguð heilögum Denis (d. 250) og reist 1217. Hún var tekin úr notkun sem safnaðarkirkja árið 1961 en söfnuðurinn reisti kirkju nær þorpi sínu - miklu skipti auðvitað að hana var hægt að hita upp en sú gamla bauð ekki upp á það. Í gömlu kirkjunni var og er hvorki rafmagn né vatn. Eftir að hún var yfirgefin drabbaðist hún skjótt niður. Gólfflísum var til dæmis stolið úr henni, gluggar brotnir, timbur hirt, og leðurblökur og önnur dýr tóku sér bólfestu í henni. Kirkjan varð hálfgert draugahús á kafi í illgresi eins og myndir sýna.

Þegar þessi ágæti maður rölti fram hjá kirkjunni tók hann eftir glerbrotum sem glitti í hér og þar upp úr grasinu. Hann tók að safna þessum brotum saman þegar hann sá þau og svo gekk í heil þrjátíu ár. Árið 2016 hafði hann samband við samtök sem kallast Vinir vinalausra kirkna  (Friends of Friendless Churches) og sagði þeim frá þessum steindu glerbrotum sínum og vildi að samtökin tækju þau til umsjónar og skoðuðu málið.

Þegar brotunum var raðað saman kom í ljós steindur gluggi, furðu heill. Þessi gluggi hafði verið settur upp í kirkjunni 1870 og listamaðurinn var Alexander Gibbs. Ekki fundust öll brotin en nægilega mörg til að sjá hvernig myndin hafði verið – og auk þess voru til myndir af verkinu.

En afleiðingar þessara gönguferða hundeigandans urðu til heilla því að samtökin Vinir vinalausa kirkna tók kirkjuna upp á sína arma og með aðstoð fjölda fólks var henni komið í gott stand á nokkrum árum og henni þar verðugur sómi sýndur. Endurbætur eru komnar langt á veg. 

Þessi kirkja stendur ekki lengur auð og yfirgefin. Hún verður notuð sem jógamiðstöð og fyrir ýmsa aðra viðburði.

Hér á landi er fjöldi gamalla kirkna og sem betur fer vel hirtar. En það kostar fé og söfnuðir margir eiga í fullu tré með viðhald. Þá er og fjöldi kirkna friðaður og nýtur þess. Margur hefur hins vegar áhyggjur af því í framtíðinni þegar sóknir sameinast sem og prestaköll hvað verði um allar hinar gömlu kirkjur. Sumar eiga vissa hauka í horni sem eru brottfluttir heimamenn, um aðrar eru til hollvinafélög. Kannski er kominn tími til að stofna samtök á borð við þau ensku, Vinir vinalausra kirkna? Það eru almenningssamtök sem láta sér annt um menningarverðmæti og í þessu tilviki kirkjur. Almenningssamtök sem treysta á stuðning fólks og einkaframtaks. Gott íslenskt dæmi í þessum dúr má finna hér en fermingarbörn sneru bökum saman og studdu við endurbætur á Innra-Hólmskirkju.

The Daily Telegraph, blaðútgáfa/hsh

 


St Denis-kirkja fyrir og eftir 


Brot steinda gluggans komin á sinn stað - hugað að verkinu 


Inni í kirkjunni 

  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Sjálfboðaliðar

  • Erlend frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut