Sálmaveisla á Egilsstöðum

11. nóvember 2022

Sálmaveisla á Egilsstöðum

Fjölmenni var í sálmaveislunni

Austurland tók forskot á sæluna þegar nýrri sálmabók var fagnað í sérstakri sálmaveislu í Egilsstaðakirkju um síðustu helgi.

Þátttakendur í veislunni voru prestar, organistar, kórfélagar og sóknarnefndarfólk frá öllu Austurlandi, Héraði og Austfjörðum, og sem dæmi var myndarlegur hópur sem kom alla leið frá Höfn í Hornafirði.

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir var veislustjóri í sálmaveislunni.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Kristínu Þórunni og bað hana um að segja sér frá sálmaveislunni.

Sr. Kristín sagði:

„Áherslan í veislunni var á söng og meiri söng!

Margrét Bóasdóttir söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar leiddi almenna kynningu á sálmabókinni og síðan einbeittum við okkur að tveimur þáttum sálmabókarinnar.

Það voru annars vegar sálmar sem notaðir eru sem messuliðir og aðventu- og jólasálmar hins vegar.“

En það var líka talað orð eða hvað?

„Jú, sr. Þorgeir Arason sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli talaði um messuna sem samkomu safnaðarins og óf inn í það sálma úr nýju sálmabókinni sem nýtast sem t.d. miskunnarbæn, dýrðarsöngur, bænasvör, heilagur, lamb Guðs og blessun.“

Nú eruð þið nýbúin að fá nýjan organista við Egilstaðakirkju, hver er það?


„Nýráðinn organisti við Egilsstaðakirkju er Sándor Kerekes og leiddi hann söng og undirleik sálmanna ásamt Margréti Bóasdóttur.

Hvernig tóku þáttakendur þessu öllu saman?

„Að nálgast messuna og messuliðina út frá sálmum fannst fólki skapandi og öflug nálgun í helgihaldinu.

Í aðventu- og jólasálmum nýju sálmabókarinnar eru margir konfektmolar sem veislugestir gæddu sér á undir styrkri stjórn Margrétar og Sándors.

Það var sérstök ánægja sem hríslaðist um hópinn að fá að dýfa hendi í jólasálmafjársjóð sálmabókarinnar og syngja í röddum eldri og nýrri sálma.“

Og sr. Kristín Þórunn bætti við:

„Í sálmaveislunni var tækifærið notað til að heiðra Jón Ólaf Sigurðsson organista, sem hefur þjónað af mikilli trúmennsku kóra- og tónlistarstarfi á Austurlandi.

Jón Ólafur er alls ekki hættur en er að líta til þess að draga örlítið saman seglin.

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir prófastur Austurlandsprófastsdæmis þakkaði honum fyrir alla hans þjónustu með hlýjum orðum.

Og sr. Kristín sagði að lokum:

„Þetta VAR alvöru veisla“, sagði einn þátttakandi af fjörðunum, og annar bætti við:

„Þetta var eins og að vera á æðislegum tónleikum nema við fengum að syngja með!“

Það er óhætt að segja að nýju sálmabókinni sé vel tekið á Austurlandi, flestar sóknir hafa þegar fengið bækurnar í hendur og hlakka til að taka þær formlega í notkun á sunnudaginn.“


slg



Myndir með frétt

Margrét Bóasdóttir
  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Tónlist

  • Fræðsla

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra