Sálmaskáldið góða á Stóra-Núpi

9. febrúar 2023

Sálmaskáldið góða á Stóra-Núpi

Sr. Óskar Hafsteinn og sr. Kristján Valur

Um síðustu helgi var mikil hátíð á Stóra- Núpi í tilefni af því að 175 ár voru liðin frá fæðingu sr. Valdimars Briem og hundrað ár frá því að hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Óskar Hafstein Óskarsson sóknarprest í Hruna, en hann þjónar einnig kirkjunni á Stóra-Núpi og spurði hann um hátíðina.

Sr. Óskar sagði:

„Kirkjan var þéttsetin og sömuleiðis var góð þátttaka á málþingi sem haldið var í kjölfarið í félagsheimilinu Árnesi.

Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna söng sálma sr. Valdimars í messunni undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.

Ég minntist minntist prestsins og skáldsins í prédikuninni, en sr. Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti þjónaði með mér fyrir altari.

Á málþinginu fluttu stutt erindi dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor emeritus, Halla Guðmundsdóttir bóndi og leikona í Ásum, sr. Sigfinnur Þorleifsson fyrrum sjúkrahúsprestur og sóknarprestur í Stóra-Núpsprestakalli og sr. Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti.“


Um hvað fjölluðu þessi erindi?

„Dr. Gunnlaugur kom víða við í erindi sínu og fjallaði meðal annars um það hvernig sr.Valdimar heimfærði gjarnan kveðskap sinn upp á íslenskar aðstæður og einnig má glöggt sjá í sumum kvæða hans hvernig lífsreynsla hans sjálfs kemur við sögu.

Sérstaklega tók dr. Gunnlaugur fyrir kveðskap sr. Valdimars út af Davíðssálmum en hann er einn fárra sem ort hefur út af öllum 150 sálmum Saltarans.

Halla Guðmundsóttir, sem alin er upp í Ásum í Gnúpverjahreppi sagði í erindi sínu frá því hve sterk arfleifð sr. Valdimars hefði verið í öllum hennar uppvexti og væri raunar enn í sveitinni.

Hún sagði að margir minntust sr. Valdimars fyrir það hve einarður hann hefði verið í því að taka upp hanskann fyrir þau sem minna máttu sín og hvernig hann hafi beinlínis breytt hugsanagangi sóknarbarnanna sinna í þeim efnum.

Hún sagði að á bernskuheimili hennar hafi hangið stór mynd af sr. Valdimar og sagðist Halla hafa haldið lengi vel sem barn að þetta væri mynd af Guði almáttugum.

Einnig las Halla upp sálminn Þú Guð sem stýrir stjarnaher af einstakri næmni og sagði hún sálminn geyma allt það mikilvægasta sem fólk þyrfti að tileinka sér í lífinu.

Sr. Sigfinnur Þorleifsson ræddi í erindi sínu einnig um arfleifð sr. Valdimars þegar hann kom í sveitina sem ungur prestur en þá hafi hann fundið sterkt fyrir því hve sálmaskáldið átti ríkan sess í hugum sveitunganna.

,,Sálmarnir hans ilma eins og besta taða" sagði sr. Sigfinnur.

Þá ræddi hann einnig um sr. Valdimar sem sálusorgara og tók dæmi úr sálmum skáldsins.

 

Sr. Kristján Valur sagði meðal annars:

„Valdimar talar enn eins og fyrr skýrt og skiljanlega um trúaratriði og ber vandaðri guðfræði vitni.

Hann talar einnig skýrt og skiljanlega inn í aðstæður nútímans þar sem virðingin og umhyggjan fyrir sköpunarverkinu öllu, náttúrunni, vistkerfunum og móður jörð skipar æ hærri sess.

Valdimar er mjög tengdur náttúrunni, árstíðunum og hrynjanda lífsins."

"Fleiri tóku einnig til máls" segir sr. Óskar  "þegar orðið var gefið laust, meðal annars Helgi Gíslason myndhöggvari, en eftir hann er minnisvarðinn um sr. Valdimar Briem sem stendur við Stóra-Núpskirkju og var afhjúpaður árið 1988.

Helgi sagði um minnisvarðann:

"Verkið er í minningu Valdimars.

Það stendur í heimreiðinni að kirkjunni, hátt og ber við ásinn líkt og kirkjan og bæjarhúsin, verkið er kennileiti staðarins og vísar til og staðfestir sögu hans.

Efnisvalið er stuðlaberg úr Hólahnjúkum sem eitt sinn var glóandi hraun úr iðrum jarðar, svart og jarðbundið þar sem náttúran sjálf ríkir í tímaleysi.

Með því stendur ljóst stálið sem ber hringform sem mótað er af huga mannsins jafn fallvaltur í tímanum sem hann er."

Að lokum segir sr. Óskar Hafsteinn:

"Stóra-Núpssókn hélt utan um hátíðardagskrána og bauð til myndarlegs kaffisamsætis í Árnesi á meðan á málþinginu stóð.

En auk sóknarinnar stóðu að málþinginu Stofnun Sigurbjöns Einarssonar, Suðurprófastsdæmi og embætti vígslubiskupsins í Skálholti.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Ráðstefna

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Viðburður

  • Vígslubiskup

  • Guðfræði

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta