Samstaða og samhugur með Úkraínu

Sendinefnd biskupa frá Norðurlöndum heimsótti í síðustu viku Úkraínu. Fyrir hönd íslensku Þjóðkirkjunnar voru Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, og sr. Eva Björk Valdimarsdóttir biskupsritari. Í sendinefndinni voru jafnframt höfuðbiskupar Lúthersku kirknanna í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Noregi auk erkibiskups Rétttrúnaðarkirkjunnar í Finnlandi.
Að sögn Evu Bjarkar var tilgangur ferðarinnar að styrkja tengsl kirkna á Norðurlöndunum og í Úkraínu, að sýna samstöðu með Úkraínu og fólkinu þar og að efla kirkjusamstarf milli þessara kirkna.
Sendinefndin tók m.a. þátt í minningarathöfn um þá sem fallið hafa í baráttunni fyrir frelsi Úkraínu og lögðu kirkjuleiðtogarnir rósir við minnisvarða. Sendinefndin heimsótti jafnframt kirkjur og áfallamiðstöð sem kirkjurnar á Norðurlöndum hafa stutt við.
Þjóðkirkjan er aðili að Lútherska heimssambandinu sem hefur umsjón með sameiginlegu hjálparstarfi aðildakirkna um allan heim og hefur m.a. einbeitt sér að Úkraínu eftir að stríðið þar hófst. Hjálparstarfið hefur m.a. beitt sér fyrir auknu aðgengi að hreinu vatni, matvælum, hreinlætisvörum, vetrarfatnaði, kostað uppbyggingu húsaskjóls og stutt við uppbyggingu á skólarýmum í neðanjarðarbyrgjum.
Sendinefndin samþykkti þá jafnframt ályktanir annars vegar um að börn sem flutt voru nauðug til Rússlands frá Úkraínu fái að snúa aftur til síns heims og hins vegar um nýliðna heimsókn biskupana til Úkraínu. Í ályktuninni segir að hið minnsta 19.500 úkraínsk börn séu nú í haldi rússneskra stjórnvalda, en að raunverulegur fjöldi þeirra kunni þó að vera mun meiri ef marka má rannsókn Yale háskóla. Flutningur rússneskra hermanna á úkraínskum börnum til Rússlands stangast á við alþjóðalög. Það að tryggja að þessi börn geti snúið heim er hluti af skuldbindingu kirkjunnar til að standa með hinum varnarlausu.
Hlekkir á ályktanirnar má finna hér að neðan.
Yfirlýsing norrænna biskupa vegna heimsóknar þeirra til Úkraínu í september og október 2025.


