Sjóðir

Sjóðir kirkjunnar

Tilgangur sjóða sem settir hafa verið á stofn er að bæta kirkjunni að hluta tekjumissi sem kirkjan varð fyrir þegar ríkið tók yfir kirkjueignirnar og arð af þeim árið 1907.
Helstu sjóðirnir eru , Jöfnunarsjóður sókna, Kirkjumálasjóður og Kristnisjóður.

Jöfnunarsjóður sókna 

Umsóknir í Jöfnunarsjóð eru á Þjónustuvef kirkjunnar

Árið 1987 er Jöfnunarsjóður sókna settur á stofn með lögum nr. 91/1987. Þessi sjóður er einnig grundvallaður á kirkjujörðum þjóðkirkjunnar.

Í lok 19. aldar færðist umsjón með viðhaldi og byggingu kirkna frá prestinum til safnaðarins – en án þess að tekjur vegna jarða eða skattar fylgdu með. Eignir kirkjunnar voru afhentar ríkinu árið 1907 eins og áður segir en tekjur af þeim höfðu ávallt staðið undir viðhaldi eignanna og þjónustu við söfnuðina. Sóknirnar fengu því leyfi til að leggja á sóknarbörnin sérstakt aukagjald til viðbótar við sóknargjöld. Þetta aukagjald er grunnurinn að Jöfnunarsjóði sókna.

Við undirbúning nýrra laga um sóknargjöld árið 1987 þótti óeðlilegt að sóknir væru að ákvarða gjöld, sem Alþingi eitt hefði vald til. Var þessi heimild því numin úr gildi og ákvæði um Jöfnunarsjóð sókna sett inn í lögin um sóknargjöld.

Tekjustofn hans miðast við 18,5% til viðbótar heildarsóknargjöldum til þjóðkirkjusafnaða. Jöfnunarsjóður er styrkjasjóður og Kirkjuráð úthlutar úr honum til kirkna með sérstöðu, til að jafna aðstöðu sókna ef tekjur nægja ekki fyrir útgjöldum og til að auðvelda stofnun nýrra sókna. 15% af tekjum sjóðsins renna árlega í Kirkjumálasjóð þar sem úthlutað er til kirkjulegs félags- og menningarstarfs.

Kirkjumálasjóður

Árið 1993 er Kirkjumálasjóður stofnaður með lögum nr. 138/1993. Hann kostar rekstur prestssetra, tónlistarfræðslu kirkjunnar, Kirkjuráðs, Kirkjuþings, prestastefnu, þjálfun prestsefna, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar o.fl. Þessi verkefni færðust af beinum fjárlögum yfir í sjóðinn og eru nú á ábyrgð kirkjunnar sjálfrar. Tekjur hans eru 14,3% ofan á sóknargjöld.

Kristnisjóður

Greiðslur í Kristnisjóð grundvallast á lögum nr. 35/1970 og samningi ríkis og kirkju og samsvarar 15 prestslaunum í fámennustu prestaköllunum.

Stofnfé Kristnisjóðs var inneign í prestakallasjóði og kirkjujarðasjóði. Kirkjujarðasjóðurinn var peningalítill því hann hafði verið óvarinn og óverðtryggður frá 1907. Prestakallasjóðurinn var stofnaður 1933 og hafði tekjur af launum sem spöruðust vegna óveittra prestakalla.

Kristnisjóður er undir stjórn Kirkjuráðs en tekjur sjóðsins renna í Kirkjumálasjóð þar sem veitt eru framlög til starfsemi kirkjunnar til eflingar kristinnar trúar og siðgæðis meðal þjóðarinnar. Þetta fyrirkomulag er liður í einföldun umsýslu Kirkjuráðs.

Sóknargjöld

Sjá á vefsíðunni, https://kirkjan.is/kirkjan/fjarmal-og-sjodir/soknargjold/

Kirkjugarðsgjöld
Kirkjugarðar landsins fá fjárveitingu á grundvelli reiknilíkans. Greiðslur til kirkjugarða miðast við fjölda greftrana næstliðins árs og stærð kirkjugarða.

Hver kirkjugarður er sjálfseignastofnun í umsjón og ábyrgð safnaðar, sem kýs kirkjugarðsstjórn, og er jafnframt undir yfirstjórn prófasts og biskups. Þannig er kirkjunni trúað fyrir því að hafa yfirumsjón með kirkjugörðum og greftrunum.

Hluti af kirkjugarðsgjöldum rennur í Kirkjugarðasjóð. Meginmarkmið sjóðsins er að jafna aðstöðu kirkjugarða og veita aðstoð þar sem tekjur kirkjugarða hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Kirkjugarðaráð stýrir Kirkjugarðasjóði og veitir árlega styrki úr honum til viðhalds kirkjugarða.

Þjóðkirkjan
Með lögum sem tóku gildi 1. janúar 1998 um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar var stjórnsýsla Þjóðkirkjunnar aukin og styrkt til muna. Þessu fylgir aukin fjármálaleg ábyrgð þannig að nú gefur Alþingi ekki kirkjustjórninni fyrirmæli um ráðstöfun fjármuna samkvæmt fjárlögum heldur ber Þjóðkirkjan sjálf ábyrgð á ráðstöfun þess fjár. Þjóðkirkjan ræður að mestu starfi sínu og mótar eigin starfshætti innan þess ramma sem löggjafinn hefur markað.

Þjóðkirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar með margvíslegri þjónustu og gerir ekki greinarmun á sóknarbörnum og þeim sem standa utan Þjóðkirkjunnar. Greiðslur ríkisins til Þjóðkirkjunnar utan sóknargjalda byggjast á afhendingu kirkjujarðanna fyrst og fremst, en einnig ríkri skyldu sem hvílir á Þjóðkirkjunni til almennrar þjónustu um land allt.