Sálmur 37
- Hvað er það ljós, sem lýsir fyrir mér
- þá leið, hvar sjón mín enga birtu sér?
- Hvað er það ljós, sem ljósið gjörir bjart
- og lífgar þessu tákni rúmið svart?
- Hvað málar "ást" á æsku brosin smá
- og "eilíft líf" í feiga skörungs brá?
- Hvað er þitt ljós, þú varma hjartans von,
- sem vefur faðmi sérhvern tímans son?
- Guð er það ljós.
- Hver er sú rödd, er býr í brjósti mér
- og bergmálar frá öllum lífsins her,
- sú föðurrödd, sem metur öll vor mál,
- sú móðurrödd, er vermir líf og sál,
- sú rödd, sem ein er eilíflega stillt,
- þó allar heimsins raddir syngi villt,
- sú rödd, sem breytir daufri nótt í dag
- og dauðans ópi snýr í vonarlag?
- Guð er sú rödd.
- Hver er sú hönd, er heldur þessum reyr
- um hæstan vetur, svo hann ekki deyr,
- sú hönd, sem fann, hvar frumkorn lífs míns svaf,
- sem fokstrá tók það upp og líf því gaf,
- sú hönd, er skín á heilagt sólarhvel
- og hverrar skuggi kallast feikn og hel,
- sú hönd, er skrifar lífsins lagamál
- á liljublað sem ódauðlega sál?
- Guð er sú hönd.
Sb. 1945 - Matthías Jochumsson
Sálmur 38
- Á hendur fel þú honum,
- sem himna stýrir borg,
- það allt, er áttu' í vonum,
- og allt, er veldur sorg.
- Hann bylgjur getur bundið
- og bugað storma her,
- hann fótstig getur fundið,
- sem fær sé handa þér.
- Ef vel þú vilt þér líði,
- þín von á Guð sé fest.
- Hann styrkir þig í stríði
- og stjórnar öllu best.
- Að sýta sárt og kvíða
- á sjálfan þig er hrís.
- Nei, þú skalt biðja' og bíða,
- þá blessun Guðs er vís.
- Ó, þú, minn faðir, þekkir
- og það í miskunn sér,
- sem hagsæld minni hnekkir,
- og hvað mér gagnlegt er,
- og ráð þitt hæsta hlýtur
- að hafa framgang sinn,
- því allt þér einum lýtur
- og eflir vilja þinn.
- Þig vantar hvergi vegi,
- þig vantar aldrei mátt,
- þín bjargráð bregðast eigi
- til bóta' á einhvern hátt.
- Þitt starf ei nemur staðar,
- þín stöðvar engin spor,
- af himni' er þú þér hraðar
- með hjálp og líkn til vor.
- Mín sál, því örugg sértu,
- og set á Guð þitt traust.
- Hann man þig, vís þess vertu,
- og verndar efalaust.
- Hann mun þig miskunn krýna.
- Þú mæðist litla hríð.
- Þér innan skamms mun skína
- úr skýjum sólin blíð.
Gerhardt - Sb. 1886 - Björn Halldórsson
Sálmur 39
- Drottinn Guð, þig göfgum vér.
- Drottinn Guð, þig dýrkum vér.
- Þig, faðir eilífi, vegsamar öll veröldin.
- Þig lofar engla helgur her,
- allt heimsins veldi lýtur þér.
- Þig lofa sælir serafar,
- þér syngja vegsemd kerúbar:
- Heilagur, heilagur, heilagur ert þú,
- Guð, Drottinn allsherjar.
- Þín heilög vera, hátign þín
- um himna, jörð og geima skín.
- Þig prísa spámenn, postular
- og píslarvotta fylkingar,
- og heilög kirkjan hér á jörð
- þér helgar lof og þakkargjörð.
- Ó, faðir vor, vér þökkum þér,
- ó, Kristur Drottinn, dýrð sé þér,
- ó, lífsins andi, lof sé þér,
- þig, heilög þrenning, heiðrum vér.
- Guðs sonur, Kristur, kóngur hár,
- sem komst að græða mein og sár,
- þú gerðist hold til hjálpar oss
- og háðung leiðst og dóm og kross.
- Þú hefur dauðans afli eytt
- og oss til lífsins veginn greitt.
- Þú situr Guðs á hægri hönd
- og hefur alheims ríkisvönd.
- Þú birtist enn á efstu tíð
- og allan dæmir heimsins lýð.
- Vér biðjum: Þjóna þína styð,
- sem þú með blóði keyptir frið.
- Veit þú vér öðlumst arfleifð þá,
- sem ávann náð þín, rík og há.
- Þinn söfnuð, Herra, hólpinn ger,
- gef honum eilíft líf með þér.
- Veit honum styrk og vörn og skjól
- og vegsemd við þinn konungsstól.
- Nafn þitt sé blessað nær og fjær
- og náð þín trú og dýrðarskær.
- Við synd og háska hverja stund
- oss hlífi, Guð, þín sterka mund.
- Miskunna oss, í líkn oss leið,
- ver ljós og stoð í allri neyð.
- Hjá einum þér er athvarf, hlíf,
- vor eina hjálp og sanna líf.
- Guð allrar vonar, ver oss hjá
- og veit oss þína dýrð að sjá.
- Fornkirkjulegur sálmur - Lúther
Sb. 1589 - Sigurbjörn Einarsson
Sálmur 40
- Almáttugur Guð, allra stétta
- yfirbjóðandi engla og þjóða,
- ei þurfandi stað né stundir,
- stað haldandi í kyrrleiks valdi,
- senn verandi úti og inni,
- uppi og niðri og þar í miðju,
- lof sé þér um aldur og ævi,
- eining sönn í þrennum greinum.
- Fyrir Maríu frumburð dýran,
- fyrir Maríu barnið sára,
- láttu mig þinnar líknar njóta,
- lifandi Guð, með syni og anda.
- Ævinlega með luktum lófum,
- lof ræðandi á kné sín bæði,
- skepnan öll er skyld að falla,
- skapari minn, fyrir ásjón þinni.
Eysteinn Ásgrímsson
Sálmur 41
- Víst ertu, Jesús, kóngur klár,
- kóngur dýrðar um eilíf ár,
- kóngur englanna, kóngur vor,
- kóngur almættis tignarstór.
- Ó, Jesús, það er játning mín,
- ég mun um síðir njóta þín,
- þegar þú, dýrðar Drottinn minn,
- dómstól í skýjum setur þinn.
- Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm,
- fagnaðarsælan heyri' eg róm.
- Í þínu nafni útvaldir
- útvalinn kalla mig hjá sér.
- Kóng minn, Jesús, ég kalla þig,
- kalla þú þræl þinn aftur mig.
- Herratign enga' að heimsins sið
- held ég þar mega jafnast við.
- Jesús, þín kristni kýs þig nú,
- kóngur hennar einn heitir þú.
- Stjórn þín henni svo haldi við,
- himneskum nái dýrðar frið.
Hallgrímur Pétursson (Ps. 27)
Sálmur 42
- Vér stöndum á bjargi, sem bifast ei má,
- hinn blessaði frelsari lifir oss hjá,
- hans orð eru líf vort og athvarf í neyð,
- hans ást er vor kraftur í lífi' og í deyð.
- Þótt himinninn farist og hrynji vor storð
- og hrapi hver stjarna, þá varir hans orð,
- þótt eygló hver slokkni við aldanna hrun,
- hans eilífa loforð ei bregðast þó mun.
- Hann sagði: "Minn þjónn verður þar, sem ég er,
- og þeir, sem mig elska, fá vegsemd hjá mér.
- Ég lifi' æ, og þér munuð lifa, og sá,
- sem lifir og trúir, skal dauðann ei sjá."
- Vér treystum þeim orðum og trúum þig á,
- með titrandi hjörtum þig væntum að sjá,
- þú, frelsarinn ástkæri, föðurins son,
- vér fylgjum þér glaðir, vor lifandi von.
Sb. 1945 - Friðrik Friðriksson
Sálmur 43
- Ó, þá náð að eiga Jesú
- einkavin í hverri þraut.
- Ó, þá heill að halla mega
- höfði sínu' í Drottins skaut.
- Ó, það slys því hnossi' að hafna,
- hvílíkt fár á þinni braut,
- ef þú blindur vilt ei varpa
- von og sorg í Drottins skaut.
- Eigir þú við böl að búa,
- bíðir freistni, sorg og þraut,
- óttast ekki, bænin ber oss
- beina leið í Drottins skaut.
- Hver á betri hjálp í nauðum?
- Hver á slíkan vin á braut,
- hjartans vin, sem hjartað þekkir?
- Höllum oss í Drottins skaut.
- Ef vér berum harm í hjarta,
- hryggilega dauðans þraut,
- þá hvað helst er Herrann Jesús
- hjartans fró og líknar skaut.
- Vilji bregðast vinir þínir,
- verðirðu' einn á kaldri braut,
- flýt þér þá að halla' og hneigja
- höfuð þreytt í Drottins skaut.
Scriven - Sb. 1886 - Matthías Jochumsson
Sálmur 44
- Með Jesú byrja ég,
- með Jesú vil ég enda,
- og æ um æviveg
- hvert andvarp honum senda.
- Hann er það mark og mið,
- er mæni' eg sífellt á.
- Með blessun, bót og frið
- hann býr mér ætíð hjá.
- Ef Jesú ég æ hef,
- um jörð eg minna hirði,
- um heimsins glys ei gef
- og glaum hans einskis virði.
- Mitt bætir Jesús böl,
- mér byrðar léttir hann.
- Ef hann á hjá mér dvöl,
- mig hrella neitt ei kann.
- Af allri sál og önd
- mig allan þér ég færi,
- mitt hjarta, tungu' og hönd
- þér helga' eg, Jesús kæri.
- Ó, tak það, Guð minn, gilt,
- og gef ég æ sé þinn.
- Gjör við mig sem þú vilt,
- þinn vilji æ sé minn.
Ziegler - Sb. 1886 - Valdimar Briem
Sálmur 45
- Þú, Jesús, ert vegur til himinsins heim,
- í heimkynnið sælunnar þreyða.
- Æ, lát oss ei villast frá veginum þeim
- á veginn til glötunar breiða.
- Þú, Jesús, ert sannleikur, lát oss fá lært
- ei lyginnar röddum að hlýða,
- en veit, að oss öllum sé indælt og kært
- af alhug þitt sannleiksorð blíða.
- Þú, Jesús, ert lífið, sem dauðann fær deytt,
- lát dauðann úr sálunum víkja,
- en lífið, sem eilífan unað fær veitt,
- með almættiskrafti þar ríkja.
Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson
Sálmur 46
- Vor Drottinn Jesús, dýrð sé þér,
- þig, Drottinn Jesús, lofum vér.
- Til hjálpar oss í heim komst þú,
- til hjálpar oss þú ríkir nú,
- þú styrkir oss í stríði' og neyð,
- þú styður oss á sorgarleið,
- þú leiðir oss til lífs í deyð.
- Með lotning sérhvað lýtur þér,
- sem lífs á himni' og jörðu er.
- Þótt veröld kalli vald sitt hátt,
- það veikt er æ og þrýtur brátt,
- en ríkið þitt ei raskast má,
- það rétti' og sannleik byggt er á,
- og aðeins þar er frelsi' að fá.
- Vorn óstyrk, Drottinn, þekkir þú
- og það, hve oft vor dofnar trú.
- Æ, veit oss styrk, svo veröld flá
- ei villt oss geti sannleik frá,
- lát hjörtu vor svo helgast þér,
- að heilags friðar njótum vér
- og hreppum arf, sem aldrei þver.
Kampmann - Sb. 1801 - Helgi Hálfdánarson
Sálmur 48
- Ég gleðst af því ég Guðs son á,
- hann gaf mér sig og allt um leið,
- er bæta fátækt mína má
- og minni létta sálarneyð.
- Ég gleðst af því ég Guðs son á.
- Hvað gjört fær mér nú heimurinn?
- Minn ástvin Jesús er mér hjá
- með allan mátt og kærleik sinn.
- Ég gleðst af því ég Guðs son á,
- nú grandað fær ei dauðinn mér,
- því brodd hans hefur brotið sá,
- sem bróðir minn og vinur er.
- Ég gleðst af því ég Guðs son á,
- hann gefa vill mér himin sinn
- og þangað leiða þrautum frá
- í þreyða friðinn anda minn.
- Ég gleðst af því ég Guðs son á,
- ég gleðst, ó, Jesús minn, í þér,
- og vil þér aldrei víkja frá,
- en vak þú, Drottinn, yfir mér.
Ægedius - Þorvaldur Böðvarsson
Sb. 1801 - Helgi Hálfdánarson
Sigurbjörn Einarsson 5. v. endurkveðið 1969