Sálmur 21
- Minn Guð og Herra' er hirðir minn,
- mér hjálpararm hann réttir sinn.
- Ég veit hann æ mér vill hið besta,
- ég veit hann ei mig lætur bresta
- það neitt, er getur gagnað mér,
- því góður hirðir Drottinn er.
- Um blómum stráða, græna grund
- mig Guðs míns leiðir föðurmund
- að svalalindum silfurskærum
- og svalar mér úr lækjum tærum.
- Hans líknarhöndin hressir mig
- og hjálpar mér á réttan stig.
- Og þótt ég gangi' um dauðans dal,
- hans dimma mér ei ógna skal.
- Ef geng ég trúr á Guðs míns vegi,
- mér grandar dauðinn sjálfur eigi.
- Þín hrísla' og stafur hugga mig,
- minn hirðir, Guð, ég vona' á þig.
Sl 23 - Sb. 1886 - Valdimar Briem