stefna

Stefna og starfsáherslur þjóðkirkjunnar 2004-2010

Íslenska þjóðkirkjan hefur í umboði Kirkjuþings og fyrir tilstilli Kirkjuráðs og Biskups Íslands einbeitt sér að stefnumótunarvinnu síðastliðið ár. Þessi vinna hefur miðað að því að draga fram grunngildi þjóðkirkjunnar og varpa ljósi á grundvöllinn fyrir starfi hennar, hvernig hún geti á sem bestan hátt komið boðskap sínum á framfæri í orði og verki.

Stefnumörkunin sem hér er til umræðu og afgreiðslu er jafnframt niðurstaða um það hvað þjóðkirkjan vill gera og hvernig hún ætlar að verja kröftum sínum fyrir tímabilið 2004 – 2010.

Skjalið fylgir hér með í heild sinni. Þar er ætlunarverkinu lýst í framtíðarsýn þjóðkirkjunnar, meginstefnu hennar og lykiláherslum í starfinu. Kveðið er nánar á um helstu verkefni þjóðkirkjunnar og markmið bæði í meginverkefni og stoðþjónustu. Að endingu er fjallað um skipulag á starfsemi þjóðkirkjunnar og vikið að nauðsynlegum breytingum.

Fremst í skjalinu er framtíðarsýn kirkjunnar og einkunnarorð. Í fyrsta hluta skjalsins er sett fram lýsing á hlutverki þjóðkirkjunnar og stefnu. Í öðrum hluta er vikið að starfseminni, helstu markmiðum, áherslum í starfinu og verkefnum sem vinna skal. Starfseminni er skipti í tvo höfuðflokka, meginverkefni og stoðþjónustu. Þriðji hlutinn snýst um skipulagið. Í viðauka er stutt greinargerð um vinnulagið og verkþættina í stefnumótunarvinnunni.

Tillaga Kirkjuráðs er að skipta stefnu þjóðkirkjunnar á tímabilinu 2004-2010 niður í fimm aðalverkefni eða áherslur sem byggð eru á meginstefnunni. Hvert verkefni nær yfir tvö ár og hefur þrjár meginþætti, þ.e. undirbúning, framkvæmd og mat. Þessi verkefni eru eftirfarandi og skiptast niður á árin sem hér segir:

2004-2005 Samfélag – í trú og gleði
2005-2006 Heimili – vettvangur trúaruppeldis
2006-2007 Fjölþætt þjónusta – opin, virk og gefandi
2007-2008 Aukið samstarf – inn á við og út á við
2008-2009 Umgjörð þjónustunnar – stjórnun og starfseiningar

Síðasta árið, þ.e. árið 2010, hafi nokkra sérstöðu, þá fari fram heildarmat á stefnunni.

Enda þótt megináherslan verði á eitt verkefni í senn, verður þegar í byrjun stefnuátaksins hafist handa við að ýta úr vör öðrum verkefnum og undirbúa í samræmi við þá leið sem valin verður til að hrinda stefnunni í framkvæmd, undir yfirstjórn biskups og Kirkjuráðs.

Auk sérframlags til hvers verkefnis mun Kirkjuráð sérstaklega líta til ofangreindra meginverkefna við gerð fjárhagsáætlana Kristnisjóðs og annarra sjóða og fjárveitinga til stofnana og starfseininga sem leita ásjár Kirkjuráðs.

Mikilvægt er að hver starfseining tileinki sér stefnuna, áherslur og einstaka verkefni, ígrundi grundvöllinn og markmið þjóðkirkjunnar og sjái þar tækifæri til að eflast og bæta þjónustuna m.a. með því að gera hana markvissari. Starfseiningar, sóknir og stofnanir aðlagi meginstefnu og verkefnin að þeim aðstæðum sem hver og ein starfseining býr við.

Hér er í fyrsta sinn lögð fram tillaga að stefnu fyrir þjóðkirkjuna þar sem sameinast er um heildstæða áætlun og áherslur sem ber að leggja sérstaka rækt við á tilteknu árabili og meta að því loknu hvernig til hafi tekist. Stefnan er byggð á grunni álits og mats hundruða manna og kvenna innan kirkjunnar.

Stefnur hafa verið til innan kirkju okkar í annarri mynd. Biskupar hafa ritað hirðisbréf sem vissulega má skoða sem stefnur þeirra. En þau bréf hafa ekki hlotið þá umfjöllun sem stefnur stofnana og fyrirtækja gera, og skipa þannig ekki sama sess. Samþykktir prestastefnu, leikmannastefnu, safnaðarfunda, héraðsfunda, samþykktir kirkjuráðs og kirkjuþinga uppfylla heldur ekki þessa kröfu um heildarstefnu sem hér er til umræðu.

Kirkjuþing hefur samþykkt mörg góð stefnumál í einstaka málaflokkum og er það vel. Má þar nefna fjölskyldustefnu, vímuvarnarstefnu, jafnréttisstefnu, starfsmannstefnu og stefnumörkun um framtíðarskipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Framundan er vinna við að marka stefnu í samskiptum kirkju og skóla, í þjónustu við aldraðra og er gerð grein fyrir þeirri vinnu í skýrslu Kirkjuráðs á þessu þingi. Stofnanir kirkjunnar hafa séð þörfina fyrir að skerpa verkefni sín með slíkri stefnumótunarvinnu og sumar hyggast hefjast handa fljótlega. Eðlilegt er að slík vinna verði skoðuð í ljósi þessarar heildarstefnu.

Til þess að áhrif stefnunnar verði sem mest og víðtækust þurfa allar stofnanir og starfseiningar kirkjunnar að stefna í sömu átt, út frá þeim grundvallarsjónarmiðum sem hér eru kynnt. Við viljum beina kröftum okkar og fjármunum kirkjunnar þangað sem við viljum að kirkjan okkar hasli sér völl, þar sem hún á erindi við fólkið í landinu.

Ályktun Kirkjuþings 2003


Kirkjuþing 2003 samþykkir stefnu og starfsáherslur þjóðkirkjunnar fyrir árin 2004 – 2010 svo sem fram kemur í meðfylgjandi skjali (“Stefna og starfsáherslur þjóðkirkjunnar 2004-2010”).

Kirkjuþing samþykkir að framkvæmdin verði með þeirri forgangsröðun sem var í greinargerð í upphaflegri tillögu (sjá fylgiskjal).

Kirkjuþing felur Biskupi Íslands og Kirkjuráði framkvæmd stefnunnar. Kirkjuþing hvetur sóknir, stofnanir og embætti til að tileinka sér þessa stefnu og stuðla að því að hún nái fram að ganga.