Fagnaðarerindi Da Vinci lykilsins

Fagnaðarerindi Da Vinci lykilsins

Da Vinci lykillinn heitir bók sem mörgum áskotnaðist um jólin og hlaut lof gagnrýnenda. Bókin er forvitnileg áhugafólki um kristna trú, guðspjöllin og sögu kirkjunnar, vegna þess sem þar er haldið fram um tilurð þessa. Höfundur hennar, Dan Brown, heldur því fram að sagan sé byggð á staðreyndum. Hún stillir okkur þar með upp frammi fyrir grundvallarspurningum um rætur vestrænnar menningar.
Karl Sigurbjörnsson - andlitsmyndKarl Sigurbjörnsson
20. apríl 2004

Da Vinci lykillinn heitir bók sem mörgum áskotnaðist um jólin og hlaut lof gagnrýnenda. Bókin er forvitnileg áhugafólki um kristna trú, guðspjöllin og sögu kirkjunnar, vegna þess sem þar er haldið fram um tilurð þessa. Höfundur hennar, Dan Brown, heldur því fram að sagan sé byggð á staðreyndum. Hún stillir okkur þar með upp frammi fyrir grundvallarspurningum um rætur vestrænnar menningar.

Sagan er hin furðulegasta. Höfundur heldur því fram að nánast allt það sem kirkjan hefur haldið fram um Jesú Krist sé lygi og blekkingar. Hópur biskupa á kirkjuþinginu í Níkeu í Tyrklandi, árið 325 hafi, að sögn Brown viljað styrkja valdagrundvöll sinn, og hafi búið til guðdómlegan Krist og óskeikula ritningu, hvort tveggja nýungar sem ekki hafi áður þekkst í kristninni. Guðdómleiki Jesú og kennivald Biblíunnar sé uppspuni sem eigi rætur að rekja til hatrammrar valdabaráttu á 4. öld. Hið sanna fagnaðarerindi hafi verið afskræmt og umbylt af páfavaldinu.

Da Vinci lykillinn heldur því fram að Jesús hafi verið kvæntur Maríu Magdalenu, hafi átt börn og þau verið flutt til Suður Frakklands. Kirkjan hafi þaggað þessa staðreynd niður til þess að geta haldið fram að Jesús hafi verið guðdómlegur. Aukinheldur hafi orðspor Maríu Magdalenu sem skækja verið uppdiktað af Vatikaninu til að grafa undan áhrifum hennar og kvenna almennt í kirkjunni. Hin raunverulega saga hafi verið varðveitt af leynifélagi að nafni “The Priory of Sion” sem ýmsir frægir Evrópumenn svo sem listamaðurinn Leonardo da Vinci hafi tilheyrt.

Bók Dan Browns er spennandi glæpasaga, og lesandinn dregst inn í sannfærandi samsæriskenningar og situr uppi með spurningar um sannleiksgildi þess sem kirkja og kristni stendur fyrir. Og spyr sig ef til vill: Er það ef til vill aðeins lævíslegt samsæri, til að þagga niður sannleikann og viðhalda völdum harðsvíraðra og spilltra kirkjufursta? En prestar og guðfræðingar og aðrir fræðimenn hrista hausa sína og spyrja hvernig í ósköpunum fólk getur lagt trúnað á svona þvælu.

Bókin gerist aðallega í Frakklandi. Söguhetjurnar hafa komist á snoðir um hinn ótrúlega leyndardóm og ganga gegnum miklar mannraunir til að komast undan lögreglunni og morðóðum munki. Höfundurinn gerir iðulega hlé á spennuþrunginni atburðarásinni til að draga fram „sögulegar staðreyndir“ – sem studdar eru tilvísunum í bókmenntir og fræðirit – um hjúskap og barneign Jesú. Það er þessi „staðreynda“ hjúpur sem heillað hefur svo marga lesendur

Í grein í New York Times sem nefnist „Síðasta orðið: Da Vinci svindlið“ lýsir bókmenntafræðingurinn, Laura Miller, því hvernig Dan Brown hefur fengið mest að efni bókarinnar úr sögulegum skáldsögum og „sögulegum“ skáldritum sem fræðimenn hafa fyrir löngu afgreitt sem fals. Það eru bækur sem segja frá áhrifamiklu leynifélagi, The Priory of Zion, sem stofnað var í Jerúsalem 1099 til að vaka yfir sönnunum þess að Jesús hafi verið kvæntur Maríu Magdalenu og átt barn með henni. Í suður Frakklandi hafi afkomendur þeirra stofnað fjölskyldur og niðjar þeirra meir að segja verið forfeður frönsku konungsættarinnar. Miller segir að Brown dragi meir og minna allar samsæriskenningasmíð inn í bók sína, sögur um kaþara, musterisridda, rósinkransriddara, Vatikanið, frímúrara, - það vantar bara snjómanninn, bætir svo Miller við!

En hvernig kemur Leonardo da Vinci inn í myndina? Bókin segir hann meðlim í leynifélaginu. En Leonardo hafi verið stríðinn og því hafi hann ekki setið á sér að gefa eitt og annað í skyn af þessum mikilvæga leyndardómi. Á hinu fræga málverki hans af síðustu kvöldmáltíðinni sýni hann Maríu Magdalenu á hægri hlið Jesú til að sýna að Jesús hafi verið kvæntur maður. Augljóst mál, eða það finnst söguhetjum Da vinci lykilsins að minnsta kosti. En bandaríski listasögufræðingurinn Elizabeth Lev, sem kennir við Duquesne háskólann, segir þetta firru í grein er hún skrifaði fyrir fréttavefinn Zenit. Vegna það að það er því miður Jóhannes, yngsti lærisveinninn, sem Leonardo setur við hlið Jesú, trúr myndhefð síns tíma. Jóhannes er yfirleitt sýndur skegglaus unglingur og mildur á svip innan um skeggjaða, öldungslega lærisveinana. Hann hafði sérstöðu, „lærisveinninn sem Jesús elskaði, “ var vart af barns aldri. Brown notar þetta sem rök fyrir því að hér sé um konu að ræða, Maríu Magdalenu. - En Lev segist samt alveg viss um það að einhvern staðar hafi María Magdalena verið nálæg við þessa mikilvægu, síðustu kvöldmáltíð. En alls ekki í stöðu eiginkonu meistarans.

Tímamótin í Níkeu

Brown hefur rétt fyrir sér um eitt. Í sögu kirkjunnar marka fáir atburðir eins afdrifarík vatnaskil og kirkjuþingið í Níkeu árið 325. Þegar Konstantínus, sem nýlega var orðinn kristinn, og síðar nefndist hinn mikli, kallaði saman fund biskupa frá öllum hlutum ríkisins til þings í Níkeu þá var kirkjan á krossgötum í guðfræði sinni.

Tilefni þessa þings var að hópur manna undir forystu guðfræðings frá Alexandríu, Aríus að nafni, hélt því fram að Jesús hafi verið mikilhæfur leiðtogi en ekki guð í holdi. Aríus var snjall fræðimaður, rökfastur og áhrifaríkur. Hann dró saman niðurstöðu ýmiskonar biblíutexta til að rökstyðja það að Jesús gæti ekki verið jafn Guði föður. Þar voru textar eins og Jóh. 14.28: Faðirinn er mér meiri, merki að Jesús sé ekki Guðs sonur, sagði Aríus.

Í Da Vincy lyklinum lætur Brown Aríus standa sem talsmann kristninnar fyrir daga Níkeuþingsins. Hann staðhæfir að fyrir daga Níkeu hafi fylgjendur Jesú álitið hann dauðlegan spámann… mikilhæfan og máttugan mann, en mann, dauðlegan mann. Níkeuþingið hafi gjörbreytt eðli kristninnar.

Sannleikurinn er nú annar. Í frumkristni tignuðu menn almennt Jesú Krist sem upprisinn frelsara og Drottinn. Áður en kirkjan setti fram skilgreiningar trúarinnar í trúarjátningum, settu leiðtogar trúarinnar fram svo nefnda “reglu” eða “canon” trúarinnar, sem mælikvarða þess hvað satt væri og hvað ekki. Íreneus biskup á 2. öld studdist við orð 1. Kor. 8.6: “þá höfum vér ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann.”

Orðið sem þýtt er Drottinn, er á frummálinu, grískunni, Kyrios. Það orð var notað um goðin, þó að dæmi séu til um að það hafi líka verið heiðursávarp. En í grísku þýðingu Gamla testamentisins, sem kallast “sjötíumanna þýðingin” var þetta orð notað til að þýða hebreska orðið Jahve, hið heilaga nafn Guðs.

Rómverjar notuðu þetta orð líka um keisarann til að undirstrika guðdóm hans. Og rithöfundurinn Jósefus, sem var Gyðingur á 1. öld, segir að Gyðingar hafi neitað að nota þann titil eða heiti um keisarann, einmitt vegna þess að Guð einn gæti verið Drottinn, kyrios.

Kristnir menn notuðu þetta orð á sama veg um Jesú. Jesús er kyrios, Jesús er Drottinn, var fyrsta kristna trúarjátningin. Ekki aðeins í helgum ritum sínum, - sem Brown heldur fram að hafi verið soðin saman eftir Níkeuþingið, - heldur í elsta kristna riti utan Nýja Testamentisins, Didache, sem fræðimenn eru sammála um að sé rituð ekki síðar en síðla 2. aldar. Í því riti er Jesús nefndur Drottinn.

Auk þessa eru margvíslegar sannanir fyrir því að kristnir menn fyrir daga Níkeu hafi játað guðdómleik Jesú með því að biðja Föðurinn í Jesú nafni. Kirkjuleiðtogar, þar á meðal Jústínus píslarvottur, 2. aldar biskup og gáfumaður, og einn öflugasti trúvarnarmaður kristninnar, skírði í nafni föður, sonar og heilags anda, og þar með viðurkenndi einingu og jafngildi hinnar þriggja persóna hins þríeina Guðs.

Níkeuþingið batt ekki enda á deilurnar um kenningar Aríusar, né heldur innleiddi þingið nýja kenningu um guðdómleik Jesú Krists. Viðstaddir biskupar ítrekuðu trúmennsku sína við viðtekin kristin kjarnaatriði trúarinnar og mynduðu sameinaða fylkingu gegn tilraunum til að útvatna fagnaðarerindið um hinn krossfesta og upprisna Guðs son og frelsara

„Fax frá Himnum“?

Vegna hins miðlæga hlutverks Biblíunnar í kristninni þá eru spurningar um sögulegt gildi hennar gríðarlega mikilvægar. Brown heldur því fram að Konstantínus keisari hafi sett upp starfslið til að endurskoða fyrirliggjandi trúartexta og um leið gera hinn mannlega Jesú að guðdómi.

En af ýmsum ástæðum ganga rök Browns ekki upp. Hann bendir réttilega á að Biblían hafi ekki borist á faxi frá himnum. Það er einmitt málið. Tilurðarsaga Biblíunnar er býsna flókin og margþætt, og full mannleg að margra smekk. En Brown lítur fram hjá þeirri staðreynd að löngu fyrir Níkeuþingið hafði ritasafn Nýjatestamentisinsverið að mótast og var fullmótað í þá mynd sem við þekkjum það í dag þó nokkru fyrir daga Konstantínusar og afturhvarf hans til kristni árið 313.

Það er kaldhæðnislegt að söfnun og samsetning rita Nýja testamentisins hófst fyrir alvöru þegar trúflokkur nokkur kenndur við Markíon setti saman helgiritasafn um miðja aðra öld. Markíon hélt því fram að guð Gamla testamentisins væri annar en sá guð sem Jesús boðaði. Markíon taldi Guð gamla testamentisins vera guð lögmáls og endurgjalds, en guð Jesú Krists væri kærleikur. Þess vegna hafnaði Markíon Gamla testamentinu og þeim ritum Nýja testamentisins sem höfðu á sér gyðinglegan blæ, þar á meðal Matteusarguðspjall, Markús, Postulasöguna og Hebreabréfið. Önnur rit endurskoðaði hann til að draga úr öllu sem minnt gæti á gyðingdóm. En árið 144 lýsti kirkjan í Róm kenningar Markíons villutrú. Þá mynduðu fylgismenn hans eigin trúsöfnuð. Sem andsvar við því fóru leiðtogar kirkjunnar að leggja niður fyrir sér hvaða mælikvarða skyldi nota til að ákvarða hvaða rit ættu heima í Biblíunni, bæði Gamla og Nýja testamentinu.

Annar samkeppnisaðili á sviði guðfræði og trúarhugmynda knúði kirkjuna í sömu átt. Það var Montanus. Hann hrósaði sér af því að hafa fengið opinberun frá Guði um yfirvofandi heimsendi. Guðspjöllin fjögur og bréf Páls postula voru alþekkt í kristnum söfnuðum og í miklum metum, en þau höfðu ekki verið sett saman í eina bók, eitt helgirit. Montanus notaði það rými sem þetta gaf honum til að breiða út opinberanir sínar. Sem svar við því gáfu leiðtogar kristninnar út lista yfir þau rit postulanna sem talin voru sönn túlkun boðskapar þeirra. Þessi listi kallast Ritasafn Muratoris. Það líkist verulega núverandi Nýja testamenti, að öðru leyti en því að þar eru tvö rit sem síðar voru tekin út úr ritasafninu, Opinberun Péturs og Speki Salómons. Mælikvarðinn sem stuðst var við var að hægt væri að sýna fram á að höfundar ritanna væru postular Jesú eða nánir lærisveinar þeirra.

Þegar Níkeuþingið var haldið þá deildu kirkjuleiðtogar aðeins um trúverðugleika tveggja bóka sem nú eru í Nýja testamentinu, það er Opinberun Jóhannesar og Hebreabréfið. Það var vegna þess að ekki var hægt að sýna fram á með óyggjandi hætti hverjir væru höfundar þeirra bóka. Leiðtogum frumkirkjunnar var í mun að geta staðfest uppruna rita Nýja testamentisins og tengt þau með sem beinustum hætti við sjálfa postulana. En þeim var ekki síður ljóst að þessi rit voru samhljóma í vitnisburði sínum um fagnaðarerindið. Þau voru rit sem byggðu upp í trú, byggðu upp samfélag trúarinnar. Slík rit væru innblásin af Guði. Árangurinn væri augljós vottur þess, það er útbreiðsla kirkjunnar, vitnisburðarins um Jesú Krist, krossfestan og upprisinn Guðs son og frelsara heimsins. Og hið sama er okkur ljóst, heilög ritning flytur það fagnaðarerindi sem enn er kraftur Guðs til hjálpræðis. Það gefur enn fólki um víða veröld kraft og djörfung og gleði trúar, vonar og kærleika.

Þó að þau sjónarmið sem Da Vinci lykillinn heldur fram um uppruna kirkjunnar og ritningar hennar séu ófrumleg, þá sannar það að hugmyndir eru oft lífsseigar óháð sannleiksgildi þeirra. Þær birtast enn og aftur í ýmsum myndum. Það sem Brown heldur fram líkist hugmyndum Aríusar og hinna margvíslegu arfa hans í aldanna rás, sem hafa mælt gegn samhljóma vitnisburði postulanna og þeirrar kirkju sem reist er á grundvelli þeirra. Kirkjan stendur og fellur með því sem postularnir héldu fram um Jesú Krist, að hann sé Guð son. Það byggir ekki á meirihlutaákvörðun einhvers þings né samsæri og valdabrölt spilltra kirkjufursta. Og fals-sagnfræði spennusagnahöfundar breytir engu um sannleiksgildi þess sem Nýja testamentið og kirkjan halda fram.

Góðar spennusögur eru gulls ígildi. Da Vinci lykillinn hefur allt til að bera sem slík. En sagnfræði og sannleiksgildi bókarinnar er lítils virði. Nema þá ef vera mætti til að vekja athygli á hinni sönnu og sígildu spennusögu sem Nýja testamentið segir um Jesú Krist, Drottinn og frelsara heimsins.

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?