Að ganga með Guði

Að ganga með Guði

Um 34 manna hópur pílagríma safnaðist saman við Þingvallakirkju kl. 10 laugardagsmorguninn 17. júlí s.l. til að hefja pílagrímsgöngu til Skálholts á tveimur dögum. Fyrri daginn var ferðinni heitið að Vígðu laug á Laugarvatni en á Skálholtshátíð seinni daginn.
Guðbrandur Magnússon
08. ágúst 2004

Um 34 manna hópur pílagríma safnaðist saman við Þingvallakirkju kl. 10 laugardagsmorguninn 17. júlí s.l. til að hefja pílagrímsgöngu til Skálholts á tveimur dögum. Fyrri daginn var ferðinni heitið að Vígðu laug á Laugarvatni en á Skálholtshátíð seinni daginn.

Fararstjórar voru dr. Pétur Pétursson prófessor og undirritaður.

Í Þingvallakirkju var athöfn með fallegu formi, sem staðarpresturinn, séra Kristján Valur Ingólfsson, hafði útbúið sérstaklega til fararblessunar pílagríma. Þar var m.a. samlesinn 121. sálmur úr Saltara, „Ég hef augu mín til fjallanna“ og sunginn sálmur Hallgríms Péturssonar „Ég byrja reisu mín“. Að lokum gekk hver og einn fram fyrir altarið til að taka á móti fararblessun séra Kristjáns Vals, sem tók í báðar hendur sérhvers pílagríms og blessaði hann með orðunum „Engill Drottins varðveiti þig á öllum vegum þínum“.

Á hlaði Þingvallabæjarins settu menn á sig bakpokana. Veðrið var einstaklega gott og jörðin ilmaði öll. Maður uppgötvar þegar pakkað er því allra nauðsynlegasta í bakpokann að það þarf ekki að bera þungar byrðar. Smávegis af mat, vatnsflaska, svenpoki og föt til skiptanna dugar. Flest – og það besta – í lífinu er ókeypis. Fyrsta lexía pílagrímsins er, að maður þarf ekki mikið. En lifir samt góðu lífi.

Við hófum gönguna með því að ganga í rólegheitum og þögn. Slógum strax þann tón, að við myndum ganga hina innri og ytri götu samhliða, í bæn, kyrrð og hugleiðingu.

Fyrsti áfanginn var við Vellankötlu í Vatnsvík, sem er uppspretta við bakkann. Vatnið í Þingvallavatni kemur úr Langjökli og flæðir undir hraunskildi uns það vellur fram um sprungur og hraungjótur á botni vatnsins eða við bakka þess, eins og þarna má sjá. Vatnið í Vellankötlu er ísjökulkalt og svalandi – besta vatn í heimi – hreint og tært eftir að hafa seytlað um aldir niður hraunið.

Við Vellankötlu áttum við helgistund tileinkaða vatninu. Þar var m.a. lesinn 23. Davíðssálmur: „Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.“ Við báðum þess að allir menn um víða veröld mættu njóta vatns í ótakmörkuðum mæli sér til lífs og viðurværis.

Vatnið var okkur hugleikið þegar líða tók á daginn, því drykkjarvatn er lítið að hafa á Lyngdalsheiði, fyrr en undir leiðarenda ofan Laugarvatns. Enginn kann betur að meta vatnið en þyrstur maður.

Frá Vellankötlu gengum við Gjábakkastíg, upphaf gamla kóngsvegarins, upp að Gjábakka þar sem Steinunn Jóhannesdóttir, leikkona og rithöfundur, las Skjaldbreið eftir Jónas Hallgrímsson og sagði sömuleiðis frá iðrunargöngu Hallgríms Péturssonar frá Akranesi til Skálholts. Þetta er fallegasti lestur Skjaldbreiðar, sem ég hef nokkurn tíma heyrt, og yndislegt að vera með yrkisefnið allt fyrir augunum. Steinunn las fleiri ljóð á leiðinni, pílagrímunum til gleði og umhugsunar. Það gerði líka Ævar Kjartansson útvarpsmaður.

Gamla biskupaleiðin liggur út á heiðina litlu ofan við Gjábakka og er sú leið mjög vel vörðuð áleiðis að Litla Reyðarbarmi. Við upphaf vörðuðu leiðarinnar söng pílagrímakórinn Fögur er foldin í fyrsta sinn á ferðinni, en það gerðum við nokkrum sinnum á leiðinni, síðast er við gengum lokaskrefin í Skálholtskirkju.

Á Laugarvatni gengum við rakleiðis að Vígðu laug, þar sem við sungum kvöldtíðir sem dr. Pétur stjórnaði. Það var falleg og minnisstæð stund, þar sem hópurinn stóð í kring um skírnarlaugina gömlu og söng með aldagömlum hætti. Dr. Pétur var andlegur leiðtogi hópsins og með góðum undirbúningi sínum og alúðlegri framkomu gerði hann helgistundir hópsins innilegar og gefandi. Við Vígðu laug slóst einnig í hópinn séra Ingólfur Guðmundsson, „uppgjafa pílagrímur“, eins og hann kaus að kalla sig. Séra Ingólfur átti hugmyndina að því að gera Vígðu laug að miðpunkti ferðarinnar og markmiði fyrri dagsins.

Hópurinn fór að því loknu í langþráð gufubað og lagðist svo til svefns á dýnur í gamla héraðsskólanum.

Klukkan hálf sjö á sunnudagsmorguninn sungum við morguntíðir við laugina. Gengum síðan af stað og þrömmuðum nú veginn upp fyrir Neðra Apavatn, þar sem við héldum inn á gömlu biskupaleiðina að nýju, þaðan áleiðis að Mosfelli, yfir Stangarlækinn berum fótum, norður með Mosfelli og upp á það norðanvert og yfir Hakaskarð.

Á Mosfelli var gríðarlega gott útsýni yfir fjöll, jökla, vötn og sveitir. Það var algjörlega heiðskírt þannig að útsýnið var stórkostlegt. Upp af Hakaskarði, þar sem Skálholtskirkja blasir við göngumönnum, bættum við í vörðu, sem þar stendur með því fyrirheiti að stækka þessa vörðu á hverju ári.

Varðan hefur táknræna merkingu fyrir pílagríminn auk þess að vísa honum leið um ókunna slóð. Um leið og pílagrímurinn hendir steinvölu í hrúguna kastar hann frá sér byrðum og áhyggjum lífsins. Með táknrænum hætti skildum við áhyggjur okkar eftir þarna á Mosfellinu.

Á göngunni tekur maður eftir því að smám saman verða áhyggjurnar minni byrði og angistin léttari. Hversdagsraunir gufa upp. Maður gerir sér einfaldlega ekki rellu út af smámunum.

Á göngunni, á mátulegu rölti, lætur maður rökhugsun víkja fyrir tilfinningu. Það er tími fyrir hugleiðingar og bæn í þögn og einbeitingu. Hægur hjartsláttur opnar manni leið til innra ferðalags, til samferðamanna og Guðs.

Jafnvel í hóp getur maður valið að ganga í þögn. Hljómur raddanna, fuglasöngsins og umferðar í bakgrunni kemur ekki í veg fyrir þögnina. Maður getur valið að ganga í hljóðri hugsun og láta sig engu varða stöðugt áreiti. En svo í annan tíma að spjalla við samferðamenn. Allt hefur sinn tíma.

Ógleymanlegur verður síðasti hluti göngunnar, þegar við nálguðumst Skálholtskirkju rétt fyrir klukkan tvö á sunnudaginn.

Þegar við gengum að kirkjunni hringdu kirkjuklukkurnar og það eitt gerði þessi lokaskref mjög hátíðleg. Síðan sá ég að á stéttinni stóð prúðbúið fólk og konur í upphlut. Ég man að ég hugsaði, óskaplega eru margar prestsmaddömur staddar hér og hvað ætli þær séu að gera þarna í hnapp á stéttinni? Svo upphófst sálmasöngurinn og ég áttaði mig á því að þetta var kirkjukórinn og þarna stóð séra Bernharður Guðmundsson Skáholtsrektor með útréttar hendur í drifhvítri ölbu, brosmildur að vanda, bauð okkur velkomin og gaf okkur ískalt vatn að drekka. Sannarlega viðeigandi. Séra Bernharður er einn af forvígismönnum pílagrímagöngunnar.

Og ég varð að bíta á jaxlinn til að fella ekki tár, þetta snerti einhvern viðkvæman streng í brjósti mínu. Sama gerðist þegar við svo gengum hring sólarsælis um kirkjuna og klukkurnar glumdu yfir höfðum okkar. Síðar heyrði ég á vegbræðrum mínum og systrum að þeim hefði farið eins; flestir klökknuðu. Það er staðreynd, að göngur af þessum toga hafa sterk áhrif á menn. Það er erfitt að útskýra, en menn slaka á og verða opnari og móttækilegri - svolítið varnarlausir í jákvæðri merkingu. Gangan kemur hægt og rólega nálægt innstu hjartans rótum, þannig að maður verður ekki var við breytinguna. Innri ganga samhliða þeirri ytri er því ekkert orðagjálfur heldur raunveruleiki. Gangan sjálf og samfélag hópsins verkar svona á mann og náttúran; fjöllin, vötnin og víðáttan, magna þetta upp þannig að maður verður bæði viðkvæmur og hrifnæmur. En eins og góður vinur minn orðaði það svo vel, þá er ekkert eðlilegra en að verða fyrir sterkum áhrifum af náttúrunni. Úr henni séum við gerð og loks þegar við hljótum þá blessun að nálgast hana aftur, þá kalli hún sterkt. Þetta sé sennilega guðdómurinn sjálfur í sinni bestu mynd.

Séra Bernharður sagði í bréfi til mín eftir gönguna: „Það var yndisleg stund þegar þið komuð í hlað, svo falleg eins og manneskjan er, þegar hún er örþreytt líkamlega og upptendruð andlega. Þá kemur hún til dyranna eins og hún er klædd, engir maskar eða hlutverk.“

Pílagrímahópurinn fór saman til altaris á eftir öðrum kirkjugestum og það er óhætt að segja það að vera pílagrímanna í kirkjunni kryddaði messuna, gaf henni hátíðlegri blæ, þótt undarlegt sé, þar sem við vorum skítug og ekki beinlínis prúðbúin. Gaman – og vel viðeigandi – var að sjá suma í hópnum ganga berfætta, sára og plástraða til altaris.

Að ganga sem pílagrímur er að ganga með Guði. Hvert sem ég fer þá geng ég með honum. Sjálft ferðalagið auðveldar mér að sjá skýrar meginspurningar lífsins; hvaðan og hvert? Líf og dauði, gleði og sorg, tilgangur og tilgangsleysi, kærleikur og ótti. Göngunni miðar stöðugt, stöldrum þó við annað slagið, en setjum svo einfaldan búnað okkar aftur í bakpokana og höldum ferð okkar áfram. Við erum aldrei kyrr á sama stað. Hvorki í göngunni né lífinu. 

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?