Grasrótarþjóðkirkja?

Grasrótarþjóðkirkja?

Hugtakið kirkja þýðir samfélag, eða beint, þau sem eru kölluð saman í Jesú nafni - í raun er kirkjan því grasrótarsamfélag. Kirkja sem vill vera kirkja Jesú verður að starfa á sömu formerkjum og hann.

Það líður vart sá dagur þessi misserin að ekki berist fréttir af deilum um og í kringum Þjóðkirkjuna. Samkvæmt nýrri könnun er traust til Þjóðkirkjunnar komið niður í 30%. Og sífellt fleiri kjósa að yfirgefa Þjóðkirkjuna.

Fyrir öll þau fjölmörgu sem að safnaðarstarfi Þjóðkirkjunnar koma um allt land - hvort sem er starfsfólk, sjálfboðaliðar eða þátttakenndur í kirkjustarfinu - er þetta bæði sorglegt og lýjandi - sérstaklega vegna þess að hið blómlega safnaðarstarf endurspeglar ekki þessi neikvæðni. Í söfnuðunum upplifa menn grósku og gleði - þó auðvitað þurfi alltaf að taka á málum þar eins og annarsstaðar í mannlegu samfélagi. En gróskan og gleðin, það eru einkenni þeirrar kirkja sem kallar til sín börn og fullorðna alla daga vikunnar um allt land. Enda starið fjölbreytt og kirkjan öllum opin í gleði og í sorg.

Þjóðkirkjan í fjölmiðlunum og umræðu dagins og Þjóðkirkjan í söfnuðunum - stundum mætti halda að um tvær aðskildar kirkjustofnanir væri að ræða. Spyrja má hvort það sé ekki einmitt þar sem vandi kirkjunnar í dag á Íslandi er falinn? Fjarlægðin milli kirkjunnar í grasrótinni og kirkjunnar sem stofnunar? Sem aftur endurspeglast í áhrifaleysi grasrótarinnar innan kirkjunnar.

Fyrir nokkrum árum setti ég fram hugmynd um allt öðruvísi Þjóðkirkju en þá sem við heyrum af í fréttamiðlunum. Ef til vill er kominn tími til að rifja hana upp á ný. Ég kallaði þessa kirkjusýn „Lífræna grasrótarþjóðkirkju“. Þetta er reyndar ekki mín hugmynd heldur hugmynd sem er kominn beint frá Jesú. Því umfram allt starfaði Jesús í grasrótinni. Hann var ekki embættismaður. Hann var ekki prestur. Hann var ekki prófastur. Hann var ekki biskup. Hann var ekki kirkjuþingsmaður. Hann starfaði meðal fólksins og talaði máli fólksins. Hann taldi vellíðan fólksins meira virði en stofnunina.

Hann rak víxlarana og sölumennina úr musterinu og lýsti það bænahús.

Hugtakið kirkja þýðir samfélag, eða beint, þau sem eru kölluð saman í Jesú nafni - í raun er kirkjan því grasrótarsamfélag. Kirkja sem vill vera kirkja Jesú verður að starfa á sömu formerkjum og hann. Hún verður að vera grasrótarkirkja, starfa með grasrótinni, með fólkinu og fyrir fólkið. Þar sem allir eru kallaður og hlustað er á alla. Og allir fá að segja sitt.

Tala nú ekki um ef hún er Þjóðkirkja, kirkja þjóðarinnar eins og okkar kirkja vill vera. Þjóðkirkjan á því að vera grasrótarþjóðkirkja umfram allt. Því kirkjan varð til mannsins vegna, en ekki maðurinn vegna kirkjunnar. Slík grasrótarþjóðkirkja verður þá fyrst og fremst lifandi samfélag þegar andi Guðs fær að streyma í gegnum hana og lífga hana, gerir hana að lifandi heild, lifandi líkama, lifandi einingu þar sem hver og ein fruma og velferð hennar skiptir máli. Hún verður lífræn grasrótarþjóðkirkja sem hefur frelsara sinn í æðakerfinu, opnar hina andlegu sýn, leggur af úrelt titlatog og embættismannatal en hlustar beint á hvern og einn lærisvein Jesú - köllum við þetta ekki lýðræði svon dags daglega?

Hvað þýðir þetta beint? Jú. að allir meðlimir kirkjunnar þurfa að fá að koma að stjórnun hennar með beinum kosningum, til dæmis til Kirkjuþings og til biskups og vígslubiskupa. Aðeins þannig verður hún sönn grasrótarkirkja.

Og þá hverfur aðgreiningin í tvær kirkjur, safnaðarkirkjuna og stofnunarkirkjuna, sem við því miður verðum vitni að í dag. 

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?