Stóð ég við Öxará ....

Stóð ég við Öxará ....

Það var laugardaginn 1. júní síðastliðinn að ég lagði leið mína austur til Þingvalla að gifta, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Hjónaefnin voru úr bænum og organistinn sömuleiðis, þannig að með mér og brúðkaupsgestum var þetta orðinn nokkur söfnuður.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
07. júní 2002

Það var laugardaginn 1. júní síðastliðinn að ég lagði leið mína austur til Þingvalla að gifta, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Hjónaefnin voru úr bænum og organistinn sömuleiðis, þannig að með mér og brúðkaupsgestum var þetta orðinn nokkur söfnuður.

Það ringdi eins og hellt væri úr fötu á Þingvöllum eins og gjarnan gerist þar á á vorin. Var það ætlun mín að leggja lokahönd á undirbúning fyrir austan og eitthvað vildi brúðurinn líka snurfusa sig áður en gengið væri til kirkju. Leituðum við því ásjár á prestsetrinu. Á Þingvallabænum reyndist aftur á móti lítil aðstaða til klerklegra þenkinga eða snurfusunar fyrir brúðina. Eins og alþjóð veit hefur prestsetrið verið tekið undir borðhald ráðherra og þar býr nú enginn prestur. Auk þess hefur þjóðgarðsvörður skrifstofu í enda bæjarins þar sem áður var móttaka Þingvallaprests og aðstaða fyrir presta sem komu til helgihalds við kirkjuna, auk annarra kirkjugesta sem á þurftu að halda. Nú er kirkjunni er ætlaður aðgangur að salerni, fordyri við salerni og lítil kompa eða herbergiskytra fylgir inn af salerni þar sem brúður og einn svaramaður komast fyrir, ásamt e.t.v einni brúðarmey sé hún grönn og spengileg.

Þegar við (ég, organisti, brúðhjón og svaramenn) birtumst á hlaði Þingvalla í rigningunni eins og fyrr var sagt, reyndist sú kytra reyndar læst. Ekki hafði þjónandi prestur á Þingvöllum í sumar fengið úthlutaðan lykil að kompunni, en hann mætti okkur á hlaðinu, jafn niðurringdur og aðrir. Aftur á móti var salernið opið og fordyri að því. Úti var sem sagt rigning og brúðurinn þurfti skjól, þannig að ég brá á það ráð að hengja upp hempuna á salerninu og skrýðast þar, svo ekki þyrfti að reka brúðina út í rigninguna.

Um síðir var þó kompunni lokið upp og komust þá þar inn brúður og hennar svaramaður. Tekið skal fram að þjóðgarðsvörður var hinn ljúfasti í fasi og viðmóti.

Sumarprestur á Þingvöllum tjáði mér eftir vígsluna að von væri til að Þingvallanefnd myndi af sínu góða hjarta leyfa að reist yrði tjald á Fjósatúni fyrir kirkjugesti í sumar. Mætti þar t.d. bjóða upp á molakaffi eftir messur. Þó hefur það leyfi ekki enn verið gefið. Kannski verður hægt að skrýðast í því tjaldi síðar í sumar, ef veður leyfir, því að Fjósatúni er nokkur ganga og von að skrúði haldist lítið þurr í rigningu. Þannig er aðstaða til kirkjulegrar þjónustu orðin breytt á helgum völlum frá því er áður var. Þó er saga kirkju og þjóðar hvergi eins samofin og á Þingvöllum.

Fyrsta kirkjan var reist á Þingvöllum árið 1017 og var það Bjarnharður Vilráðsson hinn bókvísi biskup, er kom með kirkjuvið frá Ólafi konungi Haraldssyni í Noregi, en biskupinn hefur sennilega búið á Þingvöllum. Með kirkjuviðnum sendi konungur einnig forláta klukku , hina fyrstu Íslandsklukku. Klukka kirkjunnar á Þingvöllum hefur síðar orðið tákn frelsis þjóðarinnar.

Er Þingvöllur talinn fyrsti eða annar lögformlegi kirkjustaðurinn á Íslandi. Fyrsti nafngreindi prestur á Þingvallastað er séra Brandur Þórisson, en hann var prestur þar á síðari hluta 12.aldar. Hann var sonur Þóris bónda á Þingvöllum, Skegg-Brandssonar bónda á sama stað, Þormóðssonar. Seint á 12. öld er getið um prestinn séra Guðmund Ámundason á Þingvöllum, af ætt Ingólfs Arnarsonar, en hann var kvæntur Sólveigu, dóttur Jóns Loftssonar í Odda er nefndur var fursti Íslands um sína daga eða "princeps patriae" að latneskum sið. Sonur þeirra Guðmundar og Sólveigar var séra Magnús allsherjargoði á Þingvöllum, kjörinn biskup árið 1236 en fékk ekki biskupsvígslu vegna veraldlegrar tignar sinnar. Var hann síðar prestur á Þingvöllum til dauðadags. Sýnir það best vægi Þingvalla í hugum manna þegar 13.öldinni.

Af mörgum nafnfrægum prestum er þjónað hafa staðnum má nefna Alexíus Pálsson sem var staðarprestur í ein 20 ár á miðri 16.öld. Byggði hann þar nýja kirkju á hinum forna grunni. Varð hann síðar síðasti ábóti katólskra manna í Viðey. Séra Engilbert Nikulásson, er nefndur var læknir, var prestur á Þingvöllum frá um 1618-1668 en þá veitti Brynjólfur biskup í Skálholti bróðursyni sínum, séra Þórði Þorleifssyni staðinn. Séra Páll Þorláksson frá Selárdal, bróðir þjóðskáldsins séra Jóns á Bægisá, tók við Þingvöllum 1781 og var þar prestur í ein 40 ár, til ársins 1821. Þá settist séra Björn Pálsson sonur hans í embættið og gengdi því til 1846. 1846-1879 gengdi embættinu séra Símon Daníel Vormsson Bech, hálærður maður af norðlenskum ættum. Byggði hann núverandi Þingvallakirkju árið 1859, en kirkjusmiður var Eyjólfur Þorvarðarsons. Eftir hans dag tók við staðnum séra Jens Pálsson og sat hann staðinn til 1886. Hann varð síðar prestur á Útskálum og þjóðkunnur skörungur á Alþingi. Séra Jón Thorstensen var Þingvallaprestur 1886-1923 er séra Guðmundur Einarsson tók við embættinu. Gengdi hann því til 1928.

Árið 1928 er Þjóðgarðurinn á Þingvöllum stofnaður. Þá er land prestssetursins tekið eignarnámi og gamla prestsetrið rifið. Þingvallabærinn hinn nýji var síðan reistur af kirkjujarðasjóði fyrir Alþingishátiðina 1930, en kirkjujarðasjóður fjármagnaði þá byggingu prestsetra. Prestsetrið var upphaflega aðeins þrjár burstir. Tvær burstir bættust við árið 1974 . Voru þær ætlaðar til afnota fyrir forsætisráðherra. Embætti Þingvallaprests var ekki setið frá 1928-1958, en þá er það endurreist með komu séra Jóhanns Hannessonar, fyrrum kristniboða og síðar prófessors í guðfræði við Háskóla Íslands. Bjó hann á Þingvallabænum eins og aðrir prestar hafa gert öld fram af öld. Þeir prestar er setið hafa staðinn síðan er séra Eiríkur J.Eiríksson 1959-1981, séra Heimir Steinsson 1981-1991 og aftur 1996 til dauðadags 15. maí árið 2000 og séra Hanna María Pétursdóttir 1991-1996.

Þannig spannar saga Þingvallakirkju og prestakalls þau 1000 ár sem kristinn siður hefur verið í landinu. Undanfarna áratugi og allt til ársins 2000 hafa þingvallaprestar gengt stöðu framkvæmdastjóra Þingvallanenfndar, þjóðgarðsvarðar og síðar staðarhaldara enda hefur alltaf þótt fara vel á því að heimamaður bjóði gesti velkomna heim til Þingvalla, erlenda sem innlenda, árið um kring.

En nú eru breyttir tímar. Hafandi predikað úr stólnum sem biskup Jón Vídalín áður flutti úr sínar eldlegu ræður yfir þingheimi, ók ég eftir brúðkaupið fyrrnefnda laugardaginn 1. júní úr hlaði framhjá Biskupsbúð og Krossskarði þar sem fyrst var flutt messa opinberlega á Íslandi fyrir 1000 árum. Krossfáninn blakti yfir Lögbergi og undraðist ég í hjarta mínu þá stöðu sem nú er uppi á helgum stað í málefnum kirkjunnar.

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?