Heil eða óheil trú

Heil eða óheil trú

Þegar Siðfræðistofnun ákvað að ganga til samstarfs við Borgarleikhúsið um mánaðarleg málþing fannst okkur mikilvægt að leitast við að tengja þau þeim verkum sem sýnd væru í leikhúsinu. Í haust héldum við málþing um „Fjandmann fólksins“ eftir Henrik Ibsen. Það er alkunna að leikrit Ibsens er stútfullt af siðfræðilegum álitaefnum og því lá beint við að taka það til umfjöllunar á vegum Siðfræðistofnunar.
Vilhjálmur Árnason
20. ágúst 2002

Gott kvöld, góðir samkomugestir!

Þegar Siðfræðistofnun ákvað að ganga til samstarfs við Borgarleikhúsið um mánaðarleg málþing fannst okkur mikilvægt að leitast við að tengja þau þeim verkum sem sýnd væru í leikhúsinu. Í haust héldum við málþing um „Fjandmann fólksins“ eftir Henrik Ibsen. Það er alkunna að leikrit Ibsens er stútfullt af siðfræðilegum álitaefnum og því lá beint við að taka það til umfjöllunar á vegum Siðfræðistofnunar.

Verkið „Gesturinn“ eftir franska leikskáldið Eric Emmanuel Schmitt er sérlega áhugavert fyrir margra hluta sakir, þótt það liggi alls ekki jafn beint við siðfræðilegri umfjöllun og leikrit Ibsens. Það vekur upp og rökræðir afar áhugaverðar spurningar sem varða líf nútímamanna í tæknivæddum en oft tilgangssnauðum heimi.

Trúin og trúleysið eru miðdeplar umræðunnar og sálfræðilegar röksemdir Freuds um trúarþörf og trúarlíf mannsins eru vel þekktar. Um hitt hefur minna verið fjallað að rök Freuds hvíla líka á því sem kalla mætti siðfræði skoðanamyndunar og töluvert hefur verið rædd hérlendis undir merkjum gagnrýninnar hugsunar. Í bók sinni Blekking trúarinnar eins og hún heitir í íslenzkri þýðingu Sigurjóns Björnssonar, er það lykilatriði í rökfærslu hans að trúin sé tálsýn eða óskhyggja en ekki eins og hver önnur villa eða blekking. Villu má leiðrétta og blekking felur augljóslega í sér ranghugmyndir.

Tálsýn trúarinnar er að mati Freuds einmitt svo sterk og lífseig vegna þess að hún verður hvorki leiðrétt né staðhæft með óyggjandi hætti að hún sé röng. Það er í því í fullu samræmi við vísindalegan hugsunarhátt að mati Freuds að láta ekki sannfærast um tilvist Guðs á ófullnægjandi forsendum. Um þetta gæti trúmaður í sjálfu sér verið sammála Freud. En hann gengur lengra því að hann telur það skipta höfuðmáli fyrir andlegar framfarir mannkynsins að kasta trúnni á guðlega forsjá fyrir róða og gangast af reisn við einsemd sinni í guðlausum, tilgangslausum heimi.

Þótt Freud sé sannfærður um ágæti vísindalegrar aðferðar til að sýna okkur veruleikann á raunsæjan hátt, þá birtist hann alls ekki í bókum sínum sem kokhraustur vísindatrúarmaður. Í grein sinni „Vald ástarinnar í undarlegum og ógnvekjandi heimi“ (Skírnir 1994) skrifar Róbert Haraldsson:

„Freud veit mætavel að sá sem les Undir oki siðmenningar og Blekking trúarinnar muni leita í þessum bókum að handleiðslu og huggun. Hann gerir sér hins vegar far um að bregðast vonum slíkra lesenda. Stíll og frásagnarmáti hans einkennast af óvissu og efasemdum. Í báðum bókunum virðist hann oft grafa undan eigin hugmyndum og hann varpar fram margvíslegum efasemdum um eigin aðferð.“ (s. 497).

Í ljósi þessara orða Róberts um efnistök Freuds er athyglisvert að skoða efnistök Erics Emmanuels Schmitt í „Gestinum“. Gesturinn heldur bæði Freud og áhorfendum í vafa um að hann sé í raun Guð og hann hafnar því að færa á það sönnur með einhverjum áþreifanlegum hætti (sbr. hið spaugilega atriði með töfrastafinn).

Úr leikritinu Gesturinn.Þetta vekur í huga manns vísun í það þegar Satan freistaði Krists og bauð honum að breyta steinum í brauð og fremja önnur kraftaverk sem myndu tryggja honum fjöldafylgi. Dostojevskí hefur lagt meistaralega út af þessum ritningarstað í skáldsögunni Karamazovbræðrunum þar sem Rannsóknardómarinn mikli í Sevilla gagnrýnir Krist fyrir að hafna þessu snilldarboði Satans en með því að framkvæma slík kraftaverk hefði hann lagt heiminn að fótum sér. Kristur hafi aftur á móti lagt allt of mikið á herðar okkur lítilmótlegum mönnum með því að gera þá kröfu að þeir fylgdu í fótspor hans með frjálsri ákvörðun. Og Rannsóknadómarinn spyr (í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur):

„Væri það í samræmi við eðli mannsins að hafna kraftaverkinu á örlagastundu lífs síns, þeirri stundu þegar sál hans stendur frammi fyrir ógurlegustu og kvalafyllstu grundvallarspurningum lífsins, og hafa þá ekkert að styðjast við annað en það sem frjálst hjarta hans kann að ákveða?“ (I, 283-84).

Þessi kafli kallast í raun ótrúlega vel á við þá stöðu sem upp kemur í leikritinu þar sem Freud stendur frammi fyrir erfiðum lífsspurningum en fær ekki þá staðfestingu sem vísindalegur þankagangur hans krefst. Gesturinn færist undan í hvert sinn sem Freud vill fá sönnun fyrir því að hann sé að ræða við Guð almáttugan. Með undanfærslu sinni tekur gesturinn í raun undir þá afstöðu Freuds að trú sé ekki reist á þeim grunni hlutlægra vísinda sem Freud telur þann traustasta sem við búum yfir. En hann býður mönnum jafnframt upp á að draga allt aðra niðurstöðu af þessari staðreynd en þá sem Freud dró.

Úr leikritinu Gesturinn.Trúin krefst þess í raun að menn taki eins konar stökk út fyrir þröngan ramma þeirra tegundar rökhugsunar sem réttilega ríkir í vísindum og taki persónulega ákvörðun um að treysta Guði. Þar með hættir spurningin að verða fyrst og fremst þekkingarfræðileg - hvernig get ég vitað með vissu að Guð sé til? - og verður fremur tilvistarlegs eða samskiptalegs eðlis: hvernig get ég kynnzt þeim Guði sem til mín talar?

Traustið er þá ekki reist á hlutlægri vissu eða sterkum líkum sem fengin eru fyrirfram og óháð samskiptunum heldur verður manneskjan fyrst að opna hjarta sitt fyrir veruleika trúarinnar. Søren Kierkegaard segir eitthvað í þá veru á einum stað, að það sé eitt að standa eins og reigður hani á öðrum fæti og rökræða sannanir fyrir tilveru Guðs en allt annað að varpa sér flötum og þakka honum. Veruleiki trúarinnar lýkst einungis upp fyrir manneskjunni í trúariðkun.

Svipuð hugsun kemur fram hjá bandaríska heimspekingnum og sálfræðingnum William James í frægri grein hans „Trúarviljinn“ þar sem hann svarar röksemdum Williams Cliffords fyrir því að manni beri skylda til að vera efahyggjumaður í trúmálum. Clifford heldur því fram að þar sem við höfum hvorki óyggjandi rök fyrir guðstrú né fyrir guðleysi þá beri okkur að efast. Þetta er út af fyrir sig heiðarleg afstaða og virðingarverð frá vísindalegu sjónarmiði.

En James bendir á að fórnarkostnaður efahyggjumannsins sé sá að hann útiloki fyrirfram þann möguleika að kynnast Guði. Þetta er svipað og með ást og vináttu. Haldi ég mig alltaf til hlés vegna þess að ég get ekki vitað fyrirfram að einhver manneskja muni reyna traustsins verð, þá kynnist ég hvorki ást né vináttu. Ég verð að taka þá áhættu sem persónuleg samskipti fela í sér til að uppskera ávextina. Hið sama gildir um trúna. Þess vegna ver James rétt manna til að trúa - það er beinlínis óskynsamlegt að útiloka hana fyrirfram á forsendum vísindalegrar hugsunar.

Úr leikritinu Gesturinn.Þótt rök James séu mikilvæg þegar horft er til Freuds þá má ekki gleyma því að trúargagnrýni Freuds er líka af öðrum toga. Hann taldi að trúin hefði unnið menningunni mikið gagn með því að temja ófélagslegar hvatir mannsins. En eins ég ýjaði að í upphafi felst hins vegar í viðhorfi hans að þetta hafi verið nauðsynlegt á fyrri stigum siðmenningar. Núna sé tími til kominn fyrir menn að slíta barnsskónum og axla ábyrgð sína sem fullveðja raunsæir einstaklingar. Þar með gefur hann sér líka að trú sé mönnum almennt eins konar hæli frá frelsi og ábyrgð.

En ef við hugleiðum það viðhorf gestsins að trú sé persónuleg áhætta og ákvörðun einstaklingsins sem hann einn er ábyrgur fyrir þá fellur þessi forsenda Freuds. Það er líka mikilvægt að minnast áhrifamikillar ræðu gestsins um tæknitrúna og tómhyggjuna sem eru orðin grunnstef í nútímamenningu, jafnvel þótt hún kalli sig kristna. Í ljósi þessa verður meginspurningin þá kannski ekki um trú eða trúleysi heldur um heila eða óheila trú. Mér sýnist trúargagnrýni Freuds vega að rótum óheillar trúar en standa ráðþrota frammi fyrir heilli trú sem tekst á við veruleikann af ábyrgð og raunsæi. Þess vegna hitta orð gestsins í mark en skot Freuds geigar.

Ég þakka gott hljóð.

Vilhjálmur Árnason (vilhjarn@hi.is) er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hann er formaður stjórnar Siðfræðistofnuanar HÍ. Erindi þetta var flutt sem inngangur að málfundi Siðfræðistofnunar um leikritið „Gestinn“ í Borgarleikhúsinu 7. marz 2002. 

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?