Biblían og sérstaða kristindómsins

Biblían og sérstaða kristindómsins

Nýverið birtist greinin „Fyrirspurn til annálaritaranna“ á vef Vantrúar sem sagður er helgaður baráttunni gegn svokölluðum „hindurvitnum“. Höfundurinn Snæbjörn Guðmundsson segir á sínum eigin vef, sem ber heitið Eitthvað annað, að þótt „greinin sé ekkert meistaraverk“ efist hann „stórlega um að fá nokkur vitræn svör við henni“.

Nýverið birtist greinin „Fyrirspurn til annálaritaranna“ á vef Vantrúar sem sagður er helgaður baráttunni gegn svokölluðum „hindurvitnum“. Höfundurinn Snæbjörn Guðmundsson segir á sínum eigin vef, sem ber heitið Eitthvað annað, að þótt „greinin sé ekkert meistaraverk“ efist hann „stórlega um að fá nokkur vitræn svör við henni“. Þrátt fyrir tiltölulega neikvæða afstöðu hans til hugsanlegra viðmælenda sinna verður hér engu að síður brugðist við fyrirspurn hans.

Í grein sinni beinir Snæbjörn orðum sínum til annálaritaranna og talar um þá sem presta og guðfræðinga. Vissulega er þar að finna nokkra presta og guðfræðinga en þar er einnig að finna ýmsa sem ekki eru kristnir og líta jafnvel ekki á sig sem trúaða. Og ekki eru heldur allir þar kristnir sem eru með guðfræðimenntun.

Ritsafn Biblíunnar

Spurningar Snæbjörns eru í raun allmargar enda þótt hann tölusetji aðeins tvær. Þeirri fyrri beinir hann til þeirra „guðsmanna“ sem vitna mikið til Biblíunnar og spyr: „Hvers vegna trúið þið á Biblíuna?“ Því er til að svara að kristnir menn trúa ekki á Biblíuna og hafa aldrei gert það. Að vísu hafa ýmsir guðfræðingar gagnrýnt þá kristnu sértrúarsöfnuði (í félagsfræðilegri merkingu þess orðs), sem komu fram á 19. og 20. öldinni og boðuðu óskeikulleika Biblíunnar, fyrir að leggja meiri trú á hana en Jesúm Krist sem sé raunverulegur grundvöllur trúarinnar. Allt frá upphafi hafa kristnir menn ekki umgengist texta ritsafns Biblíunnar með þeim hætti að þeir væru allir óskeikult orð komið beint frá Guði sjálfum. Sjálfur gaf Jesús Kristur þar fordæmi með túlkun sinni á lögmálstextum Gamla testamentisins sem var alls ekki bókstafleg heldur tók mið af aðstæðum hverju sinni. Meira að segja þeir kristnu sértrúarsöfnuðir (t.d. fundamentalistakirkjurnar í Bandaríkjunum) sem tala um óskeikulleika Biblíunnar komast ekki hjá því að túlka hana með hliðsjón af innra og ytra samhengis textanna og harla fáir meðlimir þeirra myndu segja að allt sem t.d. Páll postuli skrifaði væri fremur frá Guði komið en honum (sbr. t.d. 1Kor 7:12). Aðspurðir myndu þeir auk þess yfirleitt neita því að þeir tryðu á Biblíuna og myndu fremur segja að þeir treystu henni en tryðu á Jesúm Krist. (Enska orðið „fundamentalism“ vísar í raun til þeirra grundvallaratriða kristindómsins sem viðkomandi einstaklingar töldu í byrjun 20. aldarinnar að ekki mætti kvika frá og voru þau mörg hver skilgreind harla þröngt.)

Fyrir kristnum mönnum er Biblían í raun ritsafn vitnisburða manna frá ýmsum tímaskeiðum og menningarsamfélögum um reynslu þeirra af Guði og fyrirætlanir hans að þeirra mati. Ritsafn Biblíunnar hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum aldirnar og eru einstaka kirkjudeildir ekki sammála um hvaða rit eigi þar heima. Þannig er t.d. munur á ritsafni Biblíunnar hjá annars vegar rómversk-kaþólsku kirkjunni og hins vegar kalvínsku kirkjudeildunum. Íslenska þjóðkirkjan viðurkennir Apokrýfarbækur Gamla testamentisins sem hluta af Biblíunni en þær hafa ekki verið prentaðar með henni í tæpar tvær aldir vegna óska Breska og erlenda biblíufélagsins sem hefði ella ekki styrkt útgáfuna á sínum tíma. Í staðinn hafa Apokrýfarbækurnar verið gefnar út í sér bindi hér á landi en til stendur að bæta þeim við í næstu biblíuútgáfunni sem átti upphaflega að koma út árið 2000. Þess má auk þess geta að bæði Lúther og Kalvín töldu vægi rita Biblíunnar mismikið og vildu jafnvel sum þeirra út úr ritsafninu eins og við þekkjum það í dag. Báðir litu þeir opinberunarritin hornauga og Lúther var ósáttur við Jakobsbréfið. Þó svo að deilt hafi verið um hvort einstök rit eða jafnvel kaflar eigi heima í Biblíunni snýst ágreiningurinn sjaldnast um útfærslu á tilteknum textum. Vissulega er blæbrigðarmunur milli einstakra handrita frá fyrstu öldunum en hann snýst frekar um stafsetningu og einstök orð en kenningarlegar breytingar.

Málið er að Biblían er fyrst og fremst safn þeirra rita sem skiptu frumkirkjuna mestu máli, þ.e. þá postullegu kristnu söfnuði sem mynduðust á fyrstu öldinni og starfræktir voru áfram næstu aldir. Þrátt fyrir að þar vanti ýmis rit sem einnig hafa haft töluvert vægi í kirkjusögunni þýðir það ekki að þau hafi ekkert trúarlegt vægi. Í raun hafa fjölmörg önnur trúarrit einnig vægi fyrir kristna menn í trúarlífi þeirra, t.d. Passíusálmarnir innan íslensku þjóðkirkjunnar.

Orð Guðs

Þó svo að kristnir menn tali stundum um Biblíuna sem orð Guðs er ekki þar með sagt að pappírinn, prentsvertan og allur textinn sé frá honum kominn að þeirra mati. Þegar talað er um „orð Guðs“ í ýmsum ritum Biblíunnar er ekki verið að vísa til endanlegs ritsafns hennar eins og margir fundamentalistar hafa haldið fram, heldur vísa slík ummæli iðulega til vilja Guðs, lögmáls hans og gjörða (sbr. t.d. í fyrstu sköpunarfrásögunni) sem loks opinberast í Jesú Kristi (sbr. t.d. Jh 1:1-18) en fyrir vikið er hann kallaður Orðið sem „varð hold“. Þannig er talað um Biblíuna innan þjóðkirkjunnar með þeim hætti að hún hafi að geyma orð Guðs án þess að vera það sjálf. Lúther sagði t.d. að Biblían væri eins og jatan sem Jesús lá í sem ungbarn. Hún hefur að geyma orð Guðs en sjálf er hún ekki orð hans. Kennivald Biblíunnar er því ekki talið fólgið í ritsafninu sjálfu heldur í fagnaðarerindi Jesú Krists og ber að lesa allt sem í henni er út frá því. Höfundar rita Nýja testamentisins lásu rit Gamla testamentisins fyrst og fremst út frá persónu Jesú Krists og boðskap hans og það gerðu kirkjuferðurnir einnig og helstu guðfræðingar kristindómsins. Þetta þýðir að kristnir menn geta hæglega verið ósammála ýmsu í Biblíunni, alveg eins og Jesús var ósammála ýmsu í Gamla testamentinu (sjá t.d. Sl 139:22 og Mt 5:43-44). Páll postuli er t.d. ekki Guð fyrir kristnum mönnum heldur ber ávallt að meta skrif hans út frá fagnaðarerindi Jesú. Skrif hans hafa vissulega sögulegt og trúfræðilegt vægi fyrir kristna menn en þeir geta vel verið ósammála honum um ýmislegt og margir eru það.

Með því að lesa fjölbreytta texta Biblíunnar sækja kristnir menn sér styrk í bænasamfélagi þeirra við Guð, huggun, uppörvun, hvatningu, innblástur og innsæi í mannlífið. Vægi Biblíunnar fyrir kristnum mönnum er samt ekki aðeins fólgið í því hvernig Jesús Kristur birtist í henni og hvaða hlutverki ritin gegndu við tilurð kristindómsins. Það er einnig fólgið í menningarlegu hlutverki hennar. Í Biblíunni birtist margbreytileiki mannlífsins í formi ótal bókmenntahefða, svo sem dæmisagna, ljóða, sagna og predikana. Þar eru að finna alls kyns viðbrögð manna við ítrustu spurningum tilverunnar sem er alls ekkert sjálfgefið að kristnir menn skrifi endilega undir en reynast engu að síður upplýsandi um manneðlið. Og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er vestræn menning mikið til samofin kristindóminum, t.d. í bókmenntun, listum, tónlist, siðfræði og orðfæri tungumálanna. Saga Vesturlanda verður heldur tæpast skilin án grundvallarþekkingar á Biblíunni og kristindóminum.

Samkvæmt þeim postullega kristindómi sem ritsafn Nýja testamentisins endurspeglar opinberast kærleiki Guðs í persónu Jesú Krists. Guð tekur á sig manndóm, gerist maður eins og við, tekur sér stöðu með okkur og reynir allt það sjálfur sem við upplifum eða gætum þurft að ganga í gegnum. Að sama skapi líta kristnir menn yfirleitt svo á að hann mæti mönnunum ávallt í þeim aðstæðum sem þeir búa við hverju sinni. Fyrirgefningin er grundvallaratriði í kristinni trú og birtist hún m.a. í skilningi kristinna manna á krossdauða og upprisu Jesú Krists. Mannlífið einkennist af lögmálshyggju þar sem menn taka afleiðingum gjörða sinna. Þess er iðulega krafist að þeim sé refsað með einhverjum hætti sem hafi gerst brotlegir. Rómverska heimsveldið tók hina brotlegu af lífi með krossfestingu, einum þeim kvalarfyllsta dauðdaga sem þekkist. Boðskapur Jesú Krists er hins vegar sá að það beri að fyrirgefa þrátt fyrir allt. Og ef einhver krefst refsingar þá hefur Jesús tekið það á sig sjálfur með því að fórna sjálfum sér, bæði með lífi sínu og dauða. Öllu er snúið á haus. Kúgun veraldlegra yfirvalda verður sigur hins þjáða og hvatning til baráttu fyrir réttlæti. Aftökutækið verður sigurtákn hinna undirokuðu. Það sem gefur þessu vægi er að það er Guð sjálfur sem tekur þetta á sig í persónu Jesú Krists. Hann er ekki að fórna einhverjum öðrum heldur sjálfum sér. Þannig vísar t.d. heitið „sonur Guðs“ til guðdóms hans meðan heitið „mannsonurinn“ vísar til manndóms hans en bæði hafa þessi heiti trúfræðilega þýðingu í Gamla testamentinu. Má vera að Guð hefði getað farið aðra leið og fari hana jafnvel líka en svona túlkaði frumkirkjan líf Jesú, dauða hans og upprisu sem jafnframt er skilin sem sigur Guðs yfir dauðanum. Vissulega hafa ýmsar áherslur og túlkanir komið fram í kirkjusögunni um einstök atriði varðandi líf, dauða og upprisu Jesú Krists, en samkvæmt postullegum kristindómi er hann opinberun Guðs og ber að lesa vitnisburði frumkirkjunnar með það í huga.

Kristindómurinn og önnur trúarbrögð

Margar af spurningum Snæbjörns varða sérstöðu Biblíunnar og kristindómsins gagnvart öðrum trúarbrögðum. Meðal kristinna manna má finna það sem kallað hefur verið lokuð (exclusive), opin (inclusive) og fjölhyggjuleg (pluralistic) viðhorf til fólks af öðrum trúarbrögðum og alls sem því tilheyri, svo sem heilagra ritninga þess. Og raunar má heimfæra þessi viðhorf upp á mörg önnur trúarbrögð líka. Frelsunin að kristnum skilningi er þó ávallt uppbyggilegt og mannbætandi samfélag við Guð sem hver og einn getur eignast hér og nú.

Þau sjónarmið teljast lokuð sem leggja áherslu á sérstöðu kristinnar trúar og yfirburði hennar umfram önnur trúarbrögð. Litið er svo á að maðurinn verði því aðeins hólpinn að hann taki á móti Jesú Kristi sem frelsara sínum og trúi á hann, en þeir sem ekki geri það glatist sjálfkrafa. Ýmsir ritningartextar úr Biblíunni eru tilgreindir þessu til staðfestingar, t.d. þegar Jesús sagði við faríseana: „Hver sem er ekki með mér, er á móti mér.“ (Mt 12:30.) Annað mikilvægt dæmi, sem jafnan er tilgreint því til áréttingar að enginn verði hólpinn án trúar á Jesúm, eru orð hans við nánustu lærisveina sína: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jh 14:6.) Innan trúarlífsfélagsfræðinnar yrðu þessi viðhorf skilgreind sem sértrúarsafnaðarleg (sectarian).

Þau sjónarmið kallast opin sem vísa til ritningartexta í Biblíunni sem árétta mikilvægi Jesú Krists og hins kristna samfélags í breiðara samhengi. Enda þótt Jesús Kristur hafi fyrst og fremst starfað meðal gyðinga, umgekkst hann í raun alla sem til hans leituðu eða urðu á vegi hans, hvort sem þeir voru rómverskir hermenn, samverjar, kanverjar eða heiðnir. Hann skilgreindi heldur ekki alltaf alla þá sem ekki fylgdu honum að máli sem andstæðinga sína enda sagði hann við lærisveinana: „Sá sem er ekki á móti oss, er með oss.“ (Mk 9:40.) Þegar Jesús Kristur sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið og að enginn kæmi til föðurins nema fyrir hann, er það túlkað sem svo að Guð mæti manninum ávallt í persónu Jesú óháð félagslegum aðstæðum hans, aldri eða trú, en trúin er sögð gjöf hans og undir hverjum og einum komið hvort, hvenær og hvernig hún sé þegin. Samkvæmt þessu er frelsunin ávallt fólgin í Jesú einum, jafnvel þótt hinn hólpni geri sér ekki fyllilega grein fyrir því enda geti réttlátur Guð hæglega frelsað hvern og einn óháð trúarbrögðum viðkomandi. Þegar allt komi til alls verði enginn hólpinn nema af náð Guðs og af frumkvæði hans en kærleiki hans endurspeglist í opinberun hans í persónu Jesú Krists, lífi hans, boðskap, dauða og upprisu.

Þeir sem aðhyllast opin viðhorf í einni eða annarri mynd líta yfirleitt svo á að Guð kristinna manna sé sá hinn sami og Guð annarra trúarbragða, svo sem gyðingdóms og islams, enda sé aðeins einn Guð til sem skapað hafi allan heiminn og hafi hann í hendi sér. Það sem aðgreini þessi trúarbrögð sé fyrst og fremst mismunandi skilningur þeirra á því með hvaða hætti Guð hafi mætt manninum í náð sinni. Kristnir menn geti því náð saman með guðstrúarmönnum af öðrum trúarbrögðum í trúnni á Guð þrátt fyrir ágreining um hvað hann hafi nákvæmlega gert, geri enn og komi til með að gera. Og í þeim tilfellum þar sem um er að ræða trúarbrögð sem telja tilvist Guðs ekki skipta máli eða að Guð sé hreinlega ekki til, geti kristnir menn fundið samkennd með því fólki í öllu því sem er sammannlegt. Slíkt fólk er ekki endilega álitið yfirgefið af Guði því að hann geti af kærleika sínum allt eins mætt því í aðstæðum þess. Innan trúarlífsfélagsfræðinnar væri hægt að kalla þessi viðhorf til annarra trúarbragða kirkjudeildarleg (denominational).

Svo eru til þeir kristnir menn (ýmsir guðfræðingar meðtaldir), sem telja allt tal um opin eða lokuð sjónarmið um eilíf örlög manna gagnslaust, því að það sé hlutskipti mannsins hér og nú sem skipti öllu máli en eilífðin sé í hendi Guðs og um hana sé ekkert hægt að segja. Marga þessara kristnu manna mætti skilgreina sem fjölhyggjumenn þar sem þeir eru tilbúnir til að samþykkja svo til hvaða trúarviðhorf sem er, svo framarlega sem þeir telji þau ekki skaða fólk.

Þeir kristnir menn sem aðhyllast lokuð sjónarmið myndu yfirleitt hafna trúarlegu vægi ritninga annarra trúarbragða á þeirri forsendu að þær hafi ekki að geyma fagnaðarerindi Jesú Krists. Aðrir kristnir menn sem aðhyllast opin viðhorf að einhverju marki geta hins vegar margir hverjir tekið undir það að ritningar annarra trúarbragða geti allt eins haft vægi eins og ritningar Biblíunnar, en þeir komi alltaf til með að lesa þær út frá Jesú Kristi eins og hann birtist í Nýja testamentinu. Þeir sem myndu kalla sig kristna fjölhyggjumenn væru vísir til að umbera hvað sem er sem þeir telja ekki fólki skaðlegt. (Hver svo sem sjónarmið kristinna manna eru hverju sinni myndu samt væntanlega harla fáir þeirra vera tilbúnir til að segja um trúarleiðtoga annarra trúarbragða að þeir væru „bjánar“, „bjálfar“, „kjánar“ og „rugludallar“ eins og Snæbjörn kýs að orða það.)

Vægi trúarrita er í raun mismunandi eftir trúarbrögðum og má í sumum tilfellum jafnvel bæta fleirum þar við. Þeir mormónar sem tilheyra Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu hafa t.d. fjögur ritningaritsöfn og er ekki útilokað að spámenn þeirra eigi eftir að auka við þau. Ritningar hindúa og búddhista eru ennfremur fjölmargar og er vægi þeirra mismikið fyrir þeim. Í islam hefur Kóraninn í raun sömu stöðu og persóna Jesú Krists hefur í kristindóminum. Þannig er vægi Biblíunnar fyrir kristnum mönnum allt annað en vægi Kóransins fyrir múslimum.

Dæmi um fræðibækur

Snæbjörn óskar eftir því að einhverjir fagmenn reyni að sannfæra hann um hvaða trúarrit sé hið eina sanna. Þegar allt kemur til alls er það hann einn sem getur sagt til um það hvað honum finnist í þeim efnum, hann einn getur sannfært sjálfan sig. Hafi hann hins vegar áhuga á að dýpka þekkingu sína í trúarbragðafræðunum, ekki síst í kristindóminum, mætti benda á ótal rit sem gætu reynst þar gagnleg. Hér eru örfá dæmi:

Bruce, F.F.: The Canon of Scripture. (InterVarsity Press.) Fræðibók um myndum ritsafns Biblíunnar og skiptar skoðanir kristinna manna um það í aldanna rás.

Dunn, James D.G.: Unity and Diversity in the New Testament: An Inquiry into the Character of Earliest Christianity. (SCM Press.) Fræðibók um helstu guðfræðistefnurnar í frumkirkjunni og hvernig þær birtast og takast jafnvel á innan ritsafns Nýja testamentisins.

McGrath, Alister E.: Christian Theology. (Blackwell Publishers.) Óhætt er að mæla með öllum trúfræðiritum McGraths.

McGuire, Meredith B.: Religion: The Social Context. (Wadsworth.) Fræðibók um helstu þætti trúarlífsfélagsfræðinnar.

Novum Testamentum Greace. Ritstjórn: Eberhard Nestle, Erwin Nestle, Kurt Aland & Barbara Aland, með síðari viðbótum frá Matthew Black, Carlo M. Martini, Bruce M. Metzger og Allen Wikgren. (Deutsche Bibelgesellschaft.) Gríska Nýja testamentið með öllum handritaafbrigðum textans sem varðveist hafa og umfjöllunum um þau. Þetta er bók sem allir guðfræðinemar þurfa að lesa rækilega til prófs.

Theological Perspectives on Other Faiths. Toward a Christian Theology of Religions. Ritstjóri: Hance A.O. Mwakabana. (The Lutheran World Federation.) Fræðileg umræða lútherskra guðfræðinga um önnur trúarbrögð.

Félagsfræðileg nálgun

Þótt Snæbjörn segi það ekki berum orðum má greina þá spurningu í skrifum hans hvernig standi á því að nokkur geti verið kristinn nú á tímum, eða með öðrum orðum hvers vegna menn aðhyllist ein trúarbrögð fremur en önnur. Fyrir því geta verið margar ástæður, m.a. félagslegar enda er enginn ónæmur fyrir umhverfi sínu. Ekki má þó gleyma því að trú manna tekur ávallt breytingum á lífsleiðinni enda kemst enginn hjá því að vega hana og meta að einhverju marki. Í raun er trú manna mótuð af margvíslegum hefðum, uppeldi þeirra, félagsskap og reynslu, en færa má félagsfræðileg rök fyrir því að heimsmynd manna, hver svo sem hún er, verði ávallt trúarleg. Þar með er samt ekki sagt að trúarbragðafræðingar séu á einu máli um eðli trúarbragða og framtíð þeirra. Ýmsir telja að stóru trúarbrögðin glati smám saman sérstöðu sinni sem trúarstofnanir meðal almennings og trúin færist fyrir vikið fyrst og fremst inn á svið einkatrúarinnar. Aðrir telja hins vegar að þróunin sé þar ekki svo einhlít og ekki megi vanmeta áhrif trúarstofnananna þrátt fyrir ýmsar þjóðfélagslegar breytingar og framfarir.

Það sem skiptir öllu máli þegar menn fjalla um trúarbrögð annarra er að setja sig í spor hinna trúuðu og reyna að átta sig á því hvernig þeir skilja hlutina og vega þá og meta, t.d. með því að lesa sér til um það. Ef menn reyna það ekki, koma þeir tæpast til með að segja neitt af viti um viðkomandi trúarbrögð, sama hvað þeim finnst um þau.

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?