Kristin fræði og trúarbragðafræði

Kristin fræði og trúarbragðafræði

Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi birti nýverið skýrslu sem varðar m.a. kristin fræði í grunnskólum landsins. Samkvæmt lögum ber að kenna kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði í skyldunámi hér á landi, en samt eru aðeins kristin fræði tilgreind í skýrslunni og hvatt til þess að öllum börnum sé tryggt tækifæri til að fræðast um mismunandi trúarbrögð.

Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi birti nýverið skýrslu sem varðar m.a. kristin fræði í grunnskólum landsins. Samkvæmt lögum ber að kenna kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði í skyldunámi hér á landi, en samt eru aðeins kristin fræði tilgreind í skýrslunni og hvatt til þess að öllum börnum sé tryggt tækifæri til að fræðast um mismunandi trúarbrögð. Það er rangt sem haldið hefur verið fram í sumum fjölmiðlum að kristinfræðikennsla í skólum sé gagnrýnd í skýrslunni. Þar er aðeins gagnrýnt að í sumum tilvikum hafi reynst erfitt fyrir börn að fá undanþágu frá kristinfræði enda hafi nefndinni verið tilkynnt um það, en hún hvetur til að boðið verði upp á aðra fræðslu í staðinn fyrir þá sem það vilja.

Sú athugasemd að erfitt hafi reynst að fá slíka undanþágu hefur komið á óvart og segist menntamálaráðherra t.d. ekki vita til þess að það hafi verið vandkvæðum bundið. Komið hefur fram að oftast séu það Vottar Jehóva sem sæki um undanþágu og virðist það jafnan hafa verið auðsótt mál. Fólk af öðrum trúarbrögðum sækist hins vegar sjaldnast eftir slíkri undanþágu.

Í Aðalnámskrá grunnskóla frá 1999 segir að skólinn sé „fræðslustofnun en ekki trúboðsskóli“, enda eigi þar fyrst og fremst „að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum“. Undir þetta hafa margir tekið, m.a. biskup og prestar þjóðkirkjunnar sem segja að kennslan eigi ekki að vera trúboð heldur fræðsla um trúarbrögð þorra landsmanna og helstu heimstrúarbrögðin.

Í forystugrein í Morgunblaðinu 12. júlí er tekið undir þessi sjónarmið um leið og mikilvægi kristinna fræða og trúarbragðafræða í skólakerfinu er áréttað. Þar segir að þar sem þekking á kristindóminum sé nauðsynleg til að skilja menningu og siði landsmanna, sé „engin leið að láta eins og kristindómurinn komi þeim ekki við, sem ætlar að búa á Íslandi“. Sömuleiðis geti kristnir menn ekki skilið aðra menningarheima nema kunna skil á þeim trúarbrögðum sem hafi mótað þá.

Kristinfræðikennsla í grunnskólum hefur verið gagnrýnd af fáeinum einstaklingum á þeirri forsendu að þar sé um trúboð að ræða og hafa dæmi verið tilgreind í því sambandi. Enda þótt misbrestur kunni að hafa orðið á í einstaka tilfellum dregur það ekki úr vægi fræðigreinarinnar. Hætta á innrætingu er auk þess ekki bundin við kristin fræði því að kennarar geta allt eins misnotað aðstöðu sína hvað varðar t.d. siðfræðileg álitamál, sagnfræðistefnur og stjórnmál. Margt bendir hins vegar til að kristnum fræðum hafi ekki verið sinnt sem skyldi víða í skólakerfinu á liðnum árum og má allt eins tilgreina dæmi um kennara sem hafa dregið úr vægi kennsluefnisins eða sniðgengið það alveg. Kemur það ekki á óvart þar sem kennsla í kristnum fræðum og trúarbragðafræðum er ekki skyldugrein við Kennaraháskólann, aðeins valgrein. Því ber að fagna að menntamálaráðherra segi það koma til greina að gera athugun á tilhögun námsins í grunnskólum.

Í ljósi þess hversu mikilvæg kristin fræði eru, ekki aðeins til skilnings á sögu og menningu þjóðarinnar heldur einnig alls hins vestræna heims, má spyrja hvort ástæða sé til að veita undanþágu frá henni. Evrópunefndin virðist líta á það sem mannréttindi að börn geti fengið undanþágu frá kristinfræðslu. Sé kennslan hins vegar fagleg en ekki trúboð, má allt eins spyrja hvort það geti ekki verið rangt að veita undanþágu þar sem barnið færi þá á mis við bráðnauðsynlega grunnmenntun. Það er æði margt í menntakerfinu, sem er á skjön við hugmyndafræði sumra þeirra trúarhópa, sem fengið hafa opinbera viðurkenningu hér á landi. Enda þótt þessir trúarhópar afneiti þróunarkenningunni og víki frá ýmsum viðteknum siðferðisviðhorfum, er ekki þar með sagt að rétt sé að hlífa börnum úr þeirra röðum við náttúrufræði, jarðfræði eða siðfræði í skólum landsins.

Ástæða þess að Vottar Jehóva kjósa að sniðganga kristin fræði er einkum sú hversu ólíkar trúarhugmyndir þeirra eru þeim kristindómi sem helstu kirkjudeildirnar eru grundvallaðar á. Í aðalnámskránni segir að nemendur 8. bekkjar skuli kunna skil á „helstu kristnu trúfélögunum sem starfa hér á landi, hvað greinir þau hvert frá öðru og hvað þau eiga sameiginlegt“ og er meira að segja talað um „vettvangsferðir í kirkjur og aðra helgidóma“. Þar sem Vottar Jehóva eru tiltölulega fjölmennur trúarhópur hér á landi, sem auk þess hefur hlotið opinbera viðurkenningu, ætti námsefnið einnig að greina frá því í hverju sérstaða þeirra er fólgin.

Ástæða er til að taka undir með forystugreininni þar sem segir að trúarbragðafræði eigi að vera sjálfsögð skylda í skólakerfinu, enda sé hún „ein forsenda gagnkvæms skilnings og friðsamlegrar sambúðar í fjölmenningarlegu samfélagi“. Að gera nemendum grein fyrir hvaða þýðingu einstaka trúarhugmyndir hafa fyrir hina trúuðu er ekki trúboð heldur fræðsla sem er nauðsynleg forsenda víðsýnis og umburðarlyndis. Skortur á fræðslu í trúarefnum er hins vegar gróðrastía vanþekkingar, fordóma og umburðarleysis.

Trúarbragðafræði ætti einnig að vera skyldufag í framhaldsskólum eins og í nágrannalöndunum. Í HÍ er nú boðið upp á þverfaglegt nám í almennum trúarbragðafræðum á vegum félagsvísindadeildar, guðfræðideilar og heimspekideildar og sýnir það þá vitundarvakningu sem á sér stað um mikilvægi þessara fræða.

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?