Í draugaborg

Í draugaborg

Í dag fór ég með bílalest til Nablus, en tilgangurinn var að koma mat, lyfjum og öðrum hjálpargögnum til borgarinnar sem hefur verið í höndum Ísraelshers í sex daga. Tuttugu bílar, þar af þrír vörubílar, lögðu af stað frá Al-Ram varðstöðinni rétt fyrir utan Jerúsalem kl. 5 að morgni. Nokkrir bílar fjölmiðlafólks voru með í för, þar á meðal sjónvarpsfólk frá bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC.
Svala Jónsdóttir
09. apríl 2002

Palestínu, 9. apríl

Í dag fór ég með bílalest til Nablus, en tilgangurinn var að koma mat, lyfjum og öðrum hjálpargögnum til borgarinnar sem hefur verið í höndum Ísraelshers í sex daga. Tuttugu bílar, þar af þrír vörubílar, lögðu af stað frá Al-Ram varðstöðinni rétt fyrir utan Jerúsalem kl. 5 að morgni. Nokkrir bílar fjölmiðlafólks voru með í för, þar á meðal sjónvarpsfólk frá bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC.

Nablus er aðeins í rúmlega 60 km norður af Jerúsalem þannig að undir eðlilegum kringumstæðum tæki ferð þangað innan við klukkutíma. Eftir langar samningaviðræður við herinn við tvær varðstöðvar náðum við loks til Nablus eftir fimm tíma ferðalag. Helmingur bílanna varð að vera eftir og sjónvarpsfólkinu var ekki hleypt inn í borgina, en vörubílunum og sendibílunum með matnum og lyfjunum var hleypt í gegn.

Nablus var eins og draugaborg. Engin hljóð heyrðust í miðbænum önnur en vélarhljóðin í bílunum okkar og skothríð i fjarska. Nablus er stærsta borg Palestínumanna á Vesturbakkanum með um 200 þúsund íbúa, en í dag leit hún út fyrir að vera yfirgefin. Allar verslanir voru lokaðar og nær ekkert fólk sjáanlegt á götunum, enda hefur verið útgöngubann í borginni frá því að Ísralsher gerði þar innrás. Margar byggingar í miðbænum voru í rúst og alls staðar voru bílar og götuskilti sem skriðdrekar höfðu ekið yfir. Malbik var víða rifið upp og laus jarðvegur olli því að þykk rykský lágu yfir miðbænum.

Í íbúðarhverfunum kom fólk út í glugga eða út á svalir þegar við ókum framhjá og veifaði okkur. Við fórum að sjúkrahúsi sem rekið er af Palestínska Rauða hálfmánanum. Íbúarnir úr húsunum í kringum sjúkrahúsið hættu sér smám saman út á göturnar og við gátum spjallað lítillega við þá. Sumir grétu þegar þeir sáu okkur, enda hafa íbúar borgarinnar liðið miklar þjáningar undanfarna daga.

Samkvæmt upplýsingum sem við fengum hjá Ghassan Hamdan, starfsmanni UPMRC, er tala látinna a.m.k. 51 og særðra 181. Hann sagði að þeir hefðu ekki endanlega tölur þar sem sjúkrabílum hefur ekki verið hleypt að gamla borgarhlutanum og flóttamannabúðunum þar sem margir liggja særðir eða látnir á götum úti og í heimahúsum. Hann sagði okkur jafnframt að fimm sjúkrabílar hefðu farið frá sjúkrahúsinu í gær með leyfi hersins, en samt hefði verið skotið á þá alla. Sem betur fer slasaðist enginn.

Beat Mosimann, svissneskur yfirmaður Alþjóða Rauða krossins í Nablus, sagði að aðalvandamálið væri að íbúar borgarinnar hefðu nú verið lokaðir inni í húsum sínum í sex daga og þá skorti mat, læknisþjónustu og aðrar nauðsynjar. Gamli borgarhlutinn er bæði vatns- og rafmagnslaus, en þar hafa mörg hús verið eyðilögð.

Mosimann sagði starf Rauða krossins í Nablus hafa verið mjög erfitt undanfarna daga og að sjúkraflutningafólk hefði ítrekað lent í skothríð ísraelska hersins. „Nú er eitt forgangsverkefnið að grafa hina látnu,“ sagði hann. „Við höfum beðið herinn í þrjá daga um að hætta útgöngubanninu svo að hægt sé að grafa fólk. Vonandi verður það leyft í dag.“

Ísraelsher var enn í Nablus þegar við fórum þangað og ekkert lát virðist þar á. Við sáum tvo skriðdreka og nokkra brynvarða bíla á leið okkar um borgina, og í þá þrjá klukkutíma sem við vorum í borginni heyrðum við nokkrar öflugar sprengingar og reglulega skothríð, svo greinilegt er að hernaðaraðgerðir í borginni eru enn í fullum gangi.

Eftir að við höfðum komið öllum vörunum af bílunum, ókum við aftur áleiðis til Jerúsalem.Ýmis ummerki um veru hersins í borginni urðu á vegi okkar, bæði stór og smá. Þannig mátti sjá davíðsstjörnuna og veggjakrot á hebresku á mörgum byggingum. Einnig hafði á nokkrum stöðum verið sprautað með svörtu yfir arabísk heiti á vegaskiltum, þannig að eftir stóðu aðeins heiti á hebresku og ensku. Skilaboð ísraelsku hermannanna til Palestínumanna virtust skýr: Þetta er okkar land en ekki ykkar.

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?