Skilnaður við ríkið

Skilnaður við ríkið

Er leikurinn til þess gerður að gefa röng skilaboð sem kæfir samtal um raunverulega stöðu kirkjunnar og allt hið góða starf sem hún stendur fyrir?

Með lögunum um Þjóðkirkjuna, sem Alþingi samþykkti árið 1997, var skilnaður kirkjunnar við ríkið formlega staðfestur. Öll tvímæli eru tekin af um það í fyrstu grein laganna sem lýsir yfir að kirkjan er sjálfstætt trúfélag. Í næstu greinum laganna er sjálfstæðið ítrekað og undirstrikað. Það gildir hvort tveggja um yfirstjórn kirkjunnar og sóknarnefndir safnaðanna. Í sömu lögum er staðfestur sáttmáli, ígildi viðskiptasamnings, um eignirnar og afgjaldið fyrir þær sem leggur grunn að fjárhagslegu sjálfstæði kirkjunnar. Þessi löggjöf fól í sér byltingu á sambandi ríkis og kirkju með aðskilnaði. Það verður öllum ljóst sem lesa lögin.

Þá gilda lög um sóknargjöld allra trúfélaga, og Þjóðkirkjan fellur undir, þar sem ríkið sér um innheimtu þeirra og skilar til viðkomandi trúfélags. Nú innheimtir ríkið margvísleg gjöld og skilar á rétta staði. Það er þó einsdæmi, að ríkið skili ekki öllu innheimtu fé til eigandans eins og gildir um sóknargjaldið, en heldur eftir stórum hluta fyrir sig til eigin neyslu. Þetta er sambærilegt við, að ríkið neiti að skila öllu innheimtu útsvari til sveitarfélaganna.

Það tók margt kirkjufólk mörg ár að átta sig á gjörbreyttri stöðu kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu og enn virðast sumir ekki hafa áttað sig á nýju starfsumhverfi. Tímamótin fóru m.a. framhjá höfundum að stóru og nákvæmu kirkjusöguriti sem út kom í tilefni af 1000 ára kristnti á Íslandi um aldamótin. Þá vitna um gamla skipan margvíslegar beiðnir til ráðherra um afskipti hans af kirkjunnar málefnum, en var öllum að sjálfsögðu vísað frá vegna þess að ríkið fór ekki lengur með boðvald yfir kirkjunni, rekstri hennar og stjórnsýslu, eignum og umsýslu þeirra.

Þetta þekkjum við vel sem höfum setið í kirkjuráði. Ég hef líka setið í sveitarstjórn. Þar er sambandið á milli ríkis og sveitarfélags flóknara og umtalsvert nánara en á milli ríkis og kirkju. Hefur nokkur stjórnmálaflokkur krafist aðskilnaðar ríkis og sveitarfélaga eða er spurt um það í skoðanakönnunum?

Nú hefur það verið helsta verkefni kirkjuþings að laga starfshætti kirkjunnar að breyttum aðstæðum með því að setja starfsreglur í samræmi við sjálfstæði kirkjunnar. Þeirri aðlögun er í raun ekki enn lokið, enda sístætt verkefni í ljósi þróunar og breytilegra aðstæðna.

Í þessu ljósi er ákallið um aðskilnað ríkis og kirkju hrein og bein tímaskekkja. En hentar vel í áróðri gegn kirkjunni með því að ala á þeirri blekkingu, að kirkjan sé njörvuð og föst í skjóli ríkisvaldsins og njóti yfirburða fyrir það. Öll vandamál hennar megi leysa með aðskilnaði. Fjölmiðlar, stjórmálaflokkar og ímyndarfyrirtæki taka svo upp sleggjudóminn um aðskilnað ríkis og kirkju upp, álykta, hrópa og kalla,- en án þess að kynna sér hvað að baki liggur og hvernig sambandi ríkis og kirkju sé í raun háttað.
Þegar nær er skoðað, þá nýtur kirkjan meira sjálfstæðis en t.d. almenn hlutafélög, fjármálafyrirtæki, verkalýðsfélög, sveitarfélög svo dæmi séu tekin. Mjög nákvæm og ströng löggjöf gildir um rekstur fjármálafyrirtækja og hlutafélaga, en engum dettur í hug að þau séu ríkisvædd fyrir það. Sömuleiðis eru mörg frjáls félög með samninga um þjónustu fyrir ríkið án þess að teljast ríkisstofnanir. Hvernig myndi hljóma spurningin: Viltu aðskilnað ríkis og verkalýðsfélaga? Það myndi ýmsum bregða í brún við það sem er sambærileg spurningunni um aðskilnað ríkis og kirkju.

En kirkjan er í sambandi við ríkið eins og gildir um alla starfsemi sem lýtur að lögum. Nú er kveðið á um það í stjórnarskrá, að „hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkið að því leyti styðja hana og vernda“. Hér er stuðngurinn skilyrtur „að því leyti“ að kirkjan sé evangelisk og lútersk, enda í samræmi við aðra yfirlýsingu sem gefin var út á Alþingi árið 1000, þegar krstni var lögtekin á Íslandi. Með stjórnarskrárákvæðinu um kirkjuna felst að á Íslandi ríki kristinn siður og kirkjunni falið að varðveta hann. Þá er athyglisvert að í ákvæðinu felst aðskilnaður ríkis og kirkju. Það dylst engum.

Ákallið um aðskilnað ríkis og kirkju hefur lengi hindrað uppbyggilega umræðu um stöðu kirkjunnar. Þar ber kirkjan sjálf mikla ábyrgð, m.a. með því að sitja undir blekkingunni án þess að koma staðreyndum rækilega á framfæri. Þar situr umræðan föst. Er leikurinn til þess gerður að gefa röng skilboð sem kæfir samtal um raunverulega stöðu kirkjunnar og allt hið góða starf sem hún stendur fyrir? Þessu þarf að breyta og hafa í fyrirrúmi samband kristni og þjóðar og hvernig Þjóðkirkjan er best í stakk búinn til að varðveita og rækta kristinn sið í landinu eins og stjórnarskráin felur henni að gera og þjóðin samþykkti með afgerandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. 

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?