Immanúel nærri

Immanúel nærri

Þetta er falleg ósk og bæn um að allt hið góða sé nærri, bæði undir og yfir og allt um kring sé andinn Guðs elskandi nærri.
Bára Friðriksdóttir - andlitsmyndBára Friðriksdóttir
05. desember 2017

Í einum af fallegustu sálmum okkar Nóttin var sú ágæt ein kemst Einar Sigurðsson í Eydölum svo að orði (v. 15):

Vertu yfir og undir hér,
Emmanúel, fagna eg þér,
á bak og fyr og í brjósti mér
og báðum hliðunum nærri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

Þetta er falleg ósk og bæn um að allt hið góða sé nærri, bæði undir og yfir og allt um kring sé andinn Guðs elskandi nærri. Og ekki bara bara það, það er bæn um að Guð sé í okkur í hugsun og tilfinningum. Með slíkri bæn er gott að taka á móti aðventu. Að biðja um að allt það góða sé í okkur og styðji okkur til beggja handa. Þess bið ég fyrir landi og þjóð og fyrir heimsbyggð allri.
Orðið Emmanúel eða Immanúel merkir Guð með okkur og vísar það til Jesú. Jólin sem við horfum fram til er tilvísun í Emmanúel. Latneska orðið Advent eða aðventa þýðir koma. Það er einhver að koma og við notum tímann til að undirbúa komu gestsins, undirbúa okkur til að taka á móti gestinum. Gesturinn er barnið litla í jötunni. Hugsið ykkur, barnið sem færir Guð til okkar, það verður heilög nærvera.

Gleðilega aðventu!
Með ósk um að við bjóðum Immanúel velkominn.

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?