Um ofbeldi á Kirkjuþingi

Um ofbeldi á Kirkjuþingi

Biskup hefur ákveðið að ráða þessu án samráðs við Kirkjuráðið. Kirkjuráðið ber ábyrgðina þótt ekkert sje gert með fjárhagsáætlanir þess.
Geir G Waage - andlitsmyndGeir G Waage
23. nóvember 2017

Með Þjóðkirkjulögunum nr. 78/1997 fluttust verkefni, sem áður höfðu verið hjá Kirkjumálaráðuneyti til Þjóðkirkjunnar. Þeim var komið fyrir hjá Biskupsstofu, sem var eina stofnun kirkjunnar, sem tekið gat við þeim.

Þessi verkefni snerust fyrst og fremst um framkvæmd laga. Þannig er öllum sjóðum kirkjunnar stýrt með lögum frá Alþingi, sem tilgreina hvernig með fje skuli farið og til hvaða verkefna. Kirkjuráði er falin framkvæmdin. Þar sitja fjórir fulltrúar kjörnir af Kirkjuþingi, tveir prestar og tveir leikmenn undir forsæti Biskups Íslands, sem er embættismaður og ekki kjörinn fulltrúi. Fer hann með atkvæði í Kirkjuráði, en ekki á Kirkjuþingi. Ber Kirkjuráð alla ábyrgð á þessum fjárreiðum. Þarna er brotalömin.

Kirkjuráð gerir fjárhagsáætlun um fjárveitingar úr sjóðunum og kynnir Kirkjuþingi. Þannig ber því einnig ábyrgð á kirkjujarðasamningnum, sem stendur undir prestsembættunum og embættismönnum á biskupsstofu.

Biskup Íslands er hins vegar embættismaður og forstöðumaður opinberrar stofnunar. Lítur hann svo á, að án samráðs við Kirkjuþingkjörna fulltrúa Kirkjuráðsins geti hann ráðstafað þessum fjármunum, á meðan embættið haldi sig innan fjárheimilda, sem eru þá greiðslur ríkisins eftir samkomulaginu hverju sinni.

Biskup hefur ákveðið að ráða þessu án samráðs við Kirkjuráðið. Kirkjuráðið ber ábyrgðina þótt ekkert sje gert með fjárhagsáætlanir þess.

Vegna þessa fyrirkomulags hafa staðið linnulausar deilur innan Kirkjuráðsins á milli biskups og hinna kjörnu ábyrgðarmanna. Ríkisendurskoðun hefur fundið að því og um það var samin ítarleg greinargerð um valdmörkin.

Þessar deilur komust enn í hámæli á síðasta Kirkjuþingi, þegar Biskup Íslands lagði fram brjef sitt og greinargerð um, að þessu vilji hann ekki breyta. Hann hefur verið á móti því frumvarpi, sem hefur verið í smíðum síðan árið 2007 og er ætlað að taka á þessu. Nokkrir nánustu samstarfsmenn biskups styðja embættið í þessu varnarstríði þess fyrir völdum og hafa augljósa hagsmuni að verja. Þetta hafa verið erfið átök og dýr.

Biskup vill halda völdum í krafti peninga og nánustu ráðgjafar hans, þó augljóst megi vera, að þetta getur ekki gengið lengur. Valdastaða biskups, sem byggist fyrst og fremst á aðstöðu embættisins til að ráða fjármagni kirkjunnar án samráðs við kjörna fulltrúa í Kirkjuráði, hefur vakið spurningar. Eg tel einnig, að hún sje undirrót þeirrar óvönduðu stjórnsýslu, sem eg tel að biskup hafi staðfest með svörum sínum á Kirkjuþinginu. Þess vegna er unnið að frv. til nýrra Þjóðkirkjulaga á vettvangi Kirkjuþingsins. Þess vegna er brýnt að koma nýjum lögum um Þjóðkirkjuna fram á því kjörtímabili sem lýkur á vori komanda. Í hverju skyldi ofbeldið felast á Kirkjuþingi?

ritað 23. nóvember 2017

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?