Fórnardýr

Fórnardýr

Byrjað er að veiða hrefnu á ný. Sigri hrósandi stóð skipstjórinn við lunninguna og hampaði hjarta hrefnunnar og fréttamenn voru í sömu sigurvímu eftir að hafa náð myndum af mikilvægum fréttaviðburði. Báðir höfðu hitt í mark, skotmaðurinn og ljósmyndarinn.
Örn Bárður Jónsson - andlitsmyndÖrn Bárður Jónsson
10. september 2003

Byrjað er að veiða hrefnu á ný. Sigri hrósandi stóð skipstjórinn við lunninguna og hampaði hjarta hrefnunnar og fréttamenn voru í sömu sigurvímu eftir að hafa náð myndum af mikilvægum fréttaviðburði. Báðir höfðu hitt í mark, skotmaðurinn og ljósmyndarinn. Veiðarnar eru umdeildar en við Íslendingar þekkjum það hins vegar hvað í því felst að lifa öldum saman á gæðum landsins og þau orð eru sönn að „föðurland vort hálft er hafið“, eins og sálmaskáldið kvað.

Ég treysti vísindamönnum vel til að standa fyrir veiðum á nokkrum hrefnum úr stofni sem ekki er í útrýmingarhættu. Veiðarnar eru sagðar gerðar í vísindaskyni til að rannsaka lífríkið en hins vegar þykir mörgum úti í hinum stóra heimi þetta vera hið mesta óhæfuverk. Fólki sem alist hefur upp á malbiki í stórborgum er mörgu vorkunn þegar það verður yfirkomið af tilfinningasemi gagnvart dýrum sem það hefur jafnvel aldrei barið augum. Sumt fólk í hörðustu neyslusamfélögum veraldar veit vart hvaðan mjólkin kemur hvað þá kjötið í hamborgaranum. En þrátt fyrir firringu og þekkingarleysi ber að virða skoðanir fólks sem vill vernda dýrastofna. Náttúruverndarsinnar eiga heiður skilinn fyrir að hafa bent á margt sem miður hefur farið víða um heim í umhverfismálum. Ég heyrði það til dæmis á BBC um daginn að um áttatíu af hundraði dýrastofna væru útdauðir í Singapore vegna ágangs mannskepnunnar. Maðurinn er líklega grimmasta dýr jarðar og sést oft ekki fyrir í drápsæði sínu. Hann þarf því aðhald.

Eins dauði er annars brauð

Og svo er það hitt sem skiptir líka miklu máli og það er að við gerum okkur jafnan grein fyrir því að við lifum á dauða annarra, eins dauði er annars brauð. Fórnarhugsunin er ríkur þáttur í mörgum trúarbrögðum. Kristin trú er sprottin upp úr gyðingdómi en þar liggur fórnarhugsunin til grundvallar hvað varðar samband Guðs og manns. Menn urðu að fórna dýri eða dýrum fyrir syndir sínar vegna þess að syndin er lögmálsbrot og við henni liggur dauðarefsins að skilningi gyðingkristinnar trúfræði. Líf verður aðeins leyst með lífi, blóði í stað blóðs. Við fórnfæringu lagði hinn seki hönd á höfuð skepnunnar sem fórnað var í hans stað. Sektarlambið tók á sig syndir mannsins og dó fyrir hann. Og þegar Jóhannes skírari sá Jesú benti hann lærisveinun sínum á hann og sagði: Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins. Þarna var komið hið eina sanna fórnarlamb sem dugði sem greiðsla fyrir syndir alls mannkyns. Kristur dó fyrir okkur synduga menn og opnaði okkur leið til eilífs lífs, greiddi sekt okkar í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna er dauði hans stærsta frétt veraldarsögunnar. Þegar Rómverjar stóðu sigri hrósandi við krossinn voru engir fréttaljósmyndarar til að ná mynd af mesta viðburði sögunnar, en þar voru vitni, vitni sem síðar sáu hinn krossfesta upprisinn frá dauðum. Þess vegna varð kirkjan til og lifir enn. En hvers vegna er ég að blanda fórnarhugsun og friðþægingardauða Krists inn í umræðuna um hrefnuveiðar? Það er til þess að við gerum okkur betur ljóst að við lifum með því að taka líf, við lifum vegna þess að öðru lífi er fórnað.

Auðmýkt í stað sigurhyggju

Og þegar hrefnuhjarta er lyft til merkis um að skepnan sé dauð fer best á því að veiðimaðurinn drúpi höfði í auðmýkt vegna þess að lífi hefur verið fórnað fyrir manninn, blóði úthellt svo hann fái lifað. Tilgangur allra veiða er sá að maðurinn veiði sér til lífsviðurværis en ekki til skemmtunar, því það að taka líf annarrar lífveru getur aldrei verið skemmtun að mínu viti. Sagt er að fálkinn veini þegar hann bítur í hjarta rjúpunnar því hann skynjar að hún er sömu ættar og hann. Fyrst grimmur fálkinn skilur þetta samhengi tilverunnar ættum við sem teljum okkur æðstu lífveru jarðar að skilja þetta miklu fremur. Veiðum hvali ef við þurfum þess til að halda lifi eða til þess að halda jafnvægi í lífríkinu í hafinu kringum landið. Látum það annars vera. Líf okkar er þegið að gjöf og það nærist á öðru lífi. Þökkum þá staðreynd og lærum að lifa í auðmýkt gangvart öllu sem lífsanda dregur.

Kallað eftir kirkjuskilningi

Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á nýja braut í samskiptum þessara stofnana.

Tímamót í samskiptum ríkis og kirkju

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“ Merking þessarar greinar er vissulega dálítið óljós a.m.k. þegar haft er í huga að í landinu starfa fjölmörg önnur trúfélög og þau eru öll sjálfstæðari en þjóðkirkjan. — Tengsl þeirra við ríkisvaldið eru minni, þau hafa víðtækari stjórn í eigin málum og svigrúm þeirra til að móta starfshætti sína er meira. Þau hafa líka ríkara fjárhagslegt sjálfstæði en þjóðkirkjan.

Viðbótarsamningur, sjálfstæði eða fjötrar?

Ljóst er að mikill þrýstingur verður á kirkjuþing að verja stórauknum fjármunum til sókna kirkjunnar, vegna niðurskurðar ríkisins á sóknargjöldunum. Allir eru sammála um að þörf sé á því inn í rekstur safnaðanna. En eru allir sammála um að á móti skuli stórfækka prestum?