Sumar á Hlíð

Sumar á Hlíð

Það er hæð yfir landinu og heil sól um allt land. Hægur vindur alls staðar og börn og fullorðnir njóta veðurblíðunnar. Ég byrja daginn snemma og ek inn á Akureyri og stöðva bílinn fyrir utan Dvalarheimili aldraðra, Hlíð.

Það er hæð yfir landinu og heil sól um allt land. Hægur vindur alls staðar og börn og fullorðnir njóta veðurblíðunnar. Ég byrja daginn snemma og ek inn á Akureyri og stöðva bílinn fyrir utan Dvalarheimili aldraðra, Hlíð. Þar er helgistund alla miðvikudaga kl. 11:00 og vel mætt. Starfsfólk er á þönum við að koma sínu fólki fyrir í salnum.

Solveig Lára GuðmundsdóttirVið hefjum stundina á að syngja Dýrðlegt kemur sumar, við signum okkur og biðjum.

Ég les guðspjall síðasta sunnudags um fiskidrátt Péturs í Lúkasarguðspjalli 5. kafla, fyrstu 11 versin.

Það er margt sem kemur í hugann við lestur þessa guðspjalls. Fyrst er það kraftaverkið. Vinir Jesú höfðu stritað alla nóttina og ekki orðið varir. Jesús segir þeim að leggja netin aftur og þá fyllast þau. Ég segi þeim:

Stundum er þetta svona í lífinu. Við erum að glíma við erfið verkefni. Við höfum áhyggjur af heilsunni eða erum að stríða við verki og gigt um allan kroppinn. Það eru svo mörg vandamálin og viðfangsefnin sem við erum að glíma við svona dags daglega.

Ég segi vinum mínum að guðspjallið minni okkur á að leggja hvern dag og hvert verk í hendur Jesú og þá verði það svo miklu auðveldara. Við gleymum því svo oft að Jesús er með okkur og er tilbúinn að hjálpa okkur. Það eitt að vita af nærveru hans gerir lífið léttara.

Ég spyr þau hvort orð Jesú úr guðspjallinu hljómi ekki kunnuglega: “Legg þú á djúpið”. Munið þið ekki eftir sálminum fallega sem hefst á þessum orðum? Var hann ekki sunginn í fermingunni ykkar? Sumir kinka kolli.

Ég minni þau á að í þá daga hafði fermingin ennþá dýpri merkingu því þá markaði hún upphaf fullorðinsáranna í alvöru. Ég sagði þeim frá því að fyrir nokkrum árum jarðsöng ég mann sem hafði fengið undanþágu til að fermast einu ári fyrr svo hann gæti farið að vinna fyrir sér. Já, við ferminguna urðu börn vinnuafl.

Nú er þessu háttað á annan veg. Í vor var ég við skólaslit Þelamerkurskóla. Þar talaði skólastjórinn til 10. bekkinga sem voru að yfirgefa skólann og fara í framhaldsskóla í haust. Hún sagði eitthvað á þá leið og krakkarnir skyldu muna það að þau gætu mótað framtíðina. Framtíðin kæmi ekki bara yfir þau eins og alda, heldur hefðu þau hana í hendi sér og bæru ábyrgð á að móta hana. Ég varpaði þeirri spurningu til vina minna á Hlíð hvort þau skyldu hafa gert sér grein fyrir því þegar þau fermdust að þau gætu mótað framtíð sína. “Alla veganna, held ég að þið hafið ekki getað ímyndað ykkur þegar þið fermdust að lífið yrði eins og það hefur verið” sagði ég við þessa kynslóð sem hefur upplifað meiri breytingar heldur en nokkur önnur kynslóð hingað til. Eftir þessa litlu hugleiðingu sungum við fleiri sálma og báðum örlítið meira. Fólkið þáði blessun Drottins og svo gekk ég út að dyrunum og kvaddi.

Ég sá gamlan vin minn spjalla við konu í hjólastól og aka henni síðan til mín. Hann sagði: “Ég hitt hérna gamla fermingarsystur mina. Við fermdumst lýðveldisárið 1944. Bráðum eigum við 70 ára fermingarafmæli.” Svo hlógu þau bæði og ég gekk út í sólskinið. Ég fór heim að taka upp rabbarbara í sultu af því að á morgun ætla ég að baka hjónabandssælu. Þá verður erindi í Leikhúsinu á Möðruvöllum um garðablómin í sveitinni. Kaffi og glæný hjónabandssæla á eftir.