Sjáum almættisverk Guðs í björguninni

Sjáum almættisverk Guðs í björguninni

Það er vert að minnast þess hvernig allir lögðust á eitt og gáfu ekki bjartsýnina frá sér hvernig sem eldfjallið rumdi og hvæsti. Ógnin var yfirstandandi og hún var raunveruleg. Tvísýnt var um byggðina og margt lét undan.
Kristján Björnsson - andlitsmyndKristján Björnsson
22. janúar 2008

Að kvöldi 22. janúar 1974 prédikaði Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, í Landakirkju og var það mögnuð prédikun. Með þessari guðsþjónustu var lagt af stað með þann sið að minnast atburðanna 23. janúar 1973 í einlægri þökk til Guðs fyrir björgun allra íbúanna í Vestmannaeyjum þessa örlagaríku nótt. Hún líður þeim aldrei úr minni sem þá voru á lífi og það er bæn mín að það líði engum úr minni hversu mikil mildi það var að enginn fórst við eldsumbrotin eða brottflutninginn.

Í prédikun sinni kveður Sigurbjörn sterkt að orði og leitar bæði í smiðju sr. Hallgríms Péturssonar og sr. Jóns Steingrímssonar, eldklerks. Bendir Sigurbjörn á að öllum, sem fréttu þennan atburð, hafi verið augljóst þessa miklu nótt "að svo mörg íslenzk mannslíf hafi aldrei áður verið í senn í svo bráðum og stórum háska." Biskupinn heldur áfram og segir: "Það hefur ekki önnur nótt þyngri lagzt yfir landið í 11 alda þjóðarsögu. Það var mörg bæn flutt þá nótt. Og þegar dagur rann, þá blasti það við, að hér hafði gerzt það almættisverk, að allir voru heilir, þessi fyrirvaralausa ógn hafði engum manni grandað. Önnur eins björgun hefur aldrei gerzt í sögu landsins, og fá munu dæmin annars staðar, sem gætu talizt hliðstæð."

Það er vert að minnast þessara orða núna þegar við förum yfir það 35 árum eftir upphaf jarðeldanna á Heimaey. Þá er rétt að minnast þess hvernig Eyjamenn stöppuðu stálinu hver í annan, leituðu ráða og unnu dáð á örlagastundu. Það er vert að minnast þess hvernig allir lögðust á eitt og gáfu ekki bjartsýnina frá sér hvernig sem eldfjallið rumdi og hvæsti. Ógnin var yfirstandandi og hún var raunveruleg. Tvísýnt var um byggðina og margt lét undan. Eyðingin var mikil. Það er því afar brýnt að minnast þeirra með þökk sem börðust og réðust gegn eyðingunni með öllum hugsanlegum tækniráðum, útsjónarsemi, frumleika og þekkingu. "Snarræði manna, æðruleysi Vestmannaeyinga, kjarkur og frábær viðbrögð, allt átti þetta sinn ómetanlega þátt í því, hvernig til tókst," segir Sigurbjörn.

Við þessi tímamót er ekki aðeins þarft að minnast þeirra, sem biskupinn víkur orðum að, í þessari tímamótaræðu. Þá þegar var byggðin tekin að blómgast og fólkið byrjað að byggja upp heimili sín að nýju og ný heimili í Eyjum. Lífið hélt velli og gerir það þennan minnisverða kafla í Íslandssögunni enn merkilegri. Hann verður að einum merkasta kafla í hjálpræðissögu landsins.

Það er mikilvægt að við sjáum þennan atburð í því ljósi hvernig yfirþyrmandi ógn var snúið í von og blessun. Þannig fáum við ekki aðeins þakkað þeim sem þakka ber snarræði og dugnað í þágu samfélagins. Þannig sjáum við hvernig Drottinn alsherjar kom öllu því góða til leiðar sem varð. Í þakkarstefi dagsins þökkum við fyrir það almættisverk sem við fengum að sjá. Endurminningin 35 árum síðar hefur áhrif á alla sem tengjast atburðinum, voru hér eða reyndu hann á eigin skinni á einn eða annan hátt. En endurminningin hefur líka aðra merkingu. Hún talar með skýrum hætti inn í líf þeirra sem enn eiga eftir að fæðast og heyra af þessum atvikum öllum. Það er mikilvægt að allir þeir eigi líka eftir að sjá almættisverk Guðs í því hvernig til tókst. Það er fyrir hans verk að enn er blómleg byggð í Eyjum. Um það segir biskup Sigurbjörn: "Vestmannaeyjar hafa orðið sterkasta vitnið í nútímasögu Íslands um mátt og miskunn Drottins..." Og þannig verða Vestmannaeyjar um aldur og ævi öðrum til eftirbreytni og blessunar.