Viltu verða heil eða viltu verða heill?

Viltu verða heil eða viltu verða heill?

Í óveðrinu fyrir viku síðan þegar haustvindarnir gáfu vel í þá fór reiðhjólavagn, sem hengdur er aftan í reiðhjól og er ætlaður fyrir lítil börn að sitja í af stað við hús eitt ekki langt hér frá.

„Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“ En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann. Jóh 5.1-15

Biðjum: “Drottinn, kenn okkur að skilja, að eins og stjörnur himins sjást aðeins í kyrrð næturinnar, þannig er það aðeins í kyrrð sálarinnar sem undur þín birtast. Gef að við í kyrrð hjartans getum séð hið minnsta strá í alheimsgeimi umlukt elsku þinni.”

“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.”

Þessi bæn er indversk og minnir okkur meðal annars á að kyrrð í sál gerir okkur næmari á umhverfi okkar. Litbrigðin í gróðrinum hér í kringum Kópavogskirkju, tilbrigðin í veðrinu, útsýnið í kirkjudyrunum, birtan og svo margt annað gera kirkjustæðið tilkomumikið. Enda eru þau mörg sem eiga leið hér leið um holtið á hverjum degi og staldra við til að upplifa, skoða, hvílast, meðtaka, safna krafti eða vilja finna kyrrð í sál sinni.

Hvort sem það er kona, sem komin er yfir nírætt og styðst við göngugrind. Konan hefur gengið hér í kringum kirkjuna nær daglega í mörg ár og fær hún sér oft sæti á bekk við einn kirkjuvegginn. Í gær var svo sitjandi maður á einum bekknum og var skuggi og þugni yfir andliti hans. Fólk kemur hér að í ýmsum aðstæðum lífins. Þegar tekur í hjá okkur í lífsgöngunni, þegar hjarta okkar er ókyrrt og kvelst þá er oft eriftt að greina á milli aðal- og aukaatriða lífisins. Hvað skiptir máli og hvað skiptir ekki máli í þessu lífi?

Í óveðrinu fyrir viku síðan þegar haustvindarnir gáfu vel í þá fór reiðhjólavagn, sem hengdur er aftan í reiðhjól og er ætlaður fyrir lítil börn að sitja í af stað við hús eitt ekki langt hér frá. Vagninn rakst í bíl og beyglaði þar stuðara og afturbretti. Eigandi vagnsins var pirraður yfir því við sjálfan sig að hafa ekki haft vit á því að binda vagninn niður eða koma honum á örugguan stað áður en hvessti. Honum þótti leitt að valda með athugunarleysi sínu skemmdum á eigum annarra. Maðurinn horfðist í augu við mistök sín, bað eiganda bílsins afsökunar og hafði samband við tryggingarfélag sitt og tilkynnti tjónið. Og reiðhjólavagninn verður svo framvegis geymdur í geymslu þegar ekki er verið að nota hann. _______________________ Horfumst við alltaf í augu við þau mistök, sem við gerum? Reynum við stundum að komast undan mistökunum? Sjáum við frekar mistök annarra en okkar eigin? Það tekur á að stríða við alvarleg veikindi eða fötlun. Eða vanmátt einhvers konar eins og virðist ef til vill í tilviki mannsins við Betseda laugina. Af hverju er maðurinn búinn að bíða eftir lækningu í 38 ár? Treysti hann sér ekki til að fá lækningu? Hann hefði ef til vill getað komist ofan í laugina við mun fyrr. Trúði hann því að hann myndi fá lækningu þó að hann hefði séð annað fólk læknast við laugina? Þegar maðurinn var spurður beint: “Viltu verða heill?”, þá sagði hann að allt væri honum mótlægt og hann ætti engan möguleika. Var upplifun hans: “Enginn hjálpar mér og sjálfur er ég til einskis!. Ég get ekki bjargað mér með það, sem almennt virðist vera svo sjálfsagt.” Við svona aðstæður er ekkert flókið að komast að þeirri niðurstöðu að allt sé á móti manni, upp í mót og ekkert nema urð og grjót. Og hugsa með sér: “Er Guð á móti mér eða er Guð ekki til”

Sagan í guðspjallinu er athyglisverð meðal annars í þessu samhengi vegna þess að Jesús gengur beint að manninum og spyr hann hvort hann vilji verða heill. Þegar maðurinn ber sig illa yfir spurningu Jesú, segir Jesús við hann: “Stattu upp og haltu áfram að lifa.” Jesús sagði nokkuð, sem var í algerri andstæðu við það, sem var manninum mögulegt. Spurning Jesús beinist ekki að veika manninum einum, sem hlýddi Jesú. _______________________ Hvað á að segja við þau sem geta ekki risið upp? Spurning Jesú varðar margt og hún er beinskeytt og varðar þau öll, sem finna til veikleika, smæðar eða vanheilinda. Viltu verða heill eða heil? Svo eru þau til sem bregðast við með því að segja að það sé ekkert að þeim. Höfum við hitt manneskju sem ekkert amar að? Hún er mögnuð Kristsmyndin hér fyrir aftan prédikunarstólin. Listamaðurinn, sem gerði myndina sagði frá því hér nýlega að myndin hefði orðið til í tengslum við mikil innri áttök vegna sonarmissis. Og að sú reynsla hefði opnað honum aðra sýn á ífið og kristna trú. ________________________ Þau eru til sem eiga hjálpræði í hjarta sínu og von sem hefur opnað þeim alveg nýja sýn á líf sitt og tilveru. Viltu verða heill eða heil? Auðvitað vil ég verða heill eða heil, en ég er ef til vill ekki nógu trúaður eða trúuð til þess. Veik trú leiðir ekki til veikinda. Veikur maður verður ekki veikur af því að trú hans er veik. Sannur vinur miðlar til okkar vináttu, sem megnar framar öðru að sætta stríð öfl og gera það viðráðanlegt, sem virðist vonlaust. Hver er þinn sanni vinur? Er það Jesús Kristur?

Fyrir tveimur vikum síðan var helgistund í Fossvosgskirkjugarði við minnismerki um þau, sem létust í seinni heimsstyrjöldinni. Meðal annars voru viðstaddir nokkrir fyrrverandi hermenn úr konunglega breska flughernum en hersveit þeirra var staðsett á Öndverðarnesi. Yfirmaður sveitarinnar er nú í hjólastól og kominn yfir nírætt og er fyrsti flugmaðurinn, sem lennti flugvél á Reykjavíkurflugvelli. Minningarstundin í Fossvogskirkjugarði var mögnuð . Þegar 23 Davíðssálmur “Drottinn er minn hriðir” var lesinn þá fóru allir hermennirnir sem viðstaddir voru með sálminn utanbókar og augljóst var að orð sálmsins voru sögð beint frá innstu hjartarótum viðkomandi. Hermennirnir fyrrverandi tengdu hjörtu sín greinilega við eitthvað æðra þeim sjálfum. Þessir menn upplifðu hörmungar og erfiðleika heimsstyrjaldar, voru sendir sem ungir menn til ókunnra landa til að berjast fyrir ættjörð sína og frið. Voru svo komnir sjötíu árum seinna til að minnast fallina félaga sinna og heimsækja leiði þeirra hér á landi. Og orð Guðs hefur greinliega fylgt hjörtum þeirra allan þennan tíma. Getum við horfst í augu við okkur sjálf og spurt okkur hvað við getum gert eða finnst okkur það ómögulegt?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. Takið postulegri blessun: “Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.”