Að hlusta svo að maður heyri í Guði

Að hlusta svo að maður heyri í Guði

Það mætti ætla að við nútímafólk sem getum haft kveikt á öllum rásum í útvarpi, sjónvarp og tölvu á sama tíma, kynnum að hlusta. Ég fann mig í þessu um daginn. Það var kveikt á öllum skjánum þremur og ég með fjarstýringuna í hendi! En ég var dofinn eins og dauður þorskur á þurru landi. Við erum orðin svo skyni skroppinn af of-framboði að ég held að megi fullyrða það, að við séum að missa vitið, alla veganna erum við í stórri hættu að missa vitið í tilverunni

Sumir hafa gaman af gönguferðum og er ég einn þeirra. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi fyrir um 15 árum að ganga með fólki sem var við nám við Wycliffe stofnunina (The Wycliffe Centre) á Englandi. En þar er fólk þjálfað til að þýða Biblíuna. Við fórum út í sveit í dæmigerðu sjónarsviði á Englandi, sveitarsæla, skepnur á beit, vegaslóði, tré. Hvers vegna man ég þetta svona vel? Umræðuefnið var námið á Wycliffe og með í för var maður frá Eþíópíu sem hafði tekið þátt í þýðingarstarfi þar. Við ræddum um þann vanda að koma orðum að boðskap Ritningarinnar, að flytja merkingu frá einu máli til annars, velja orð, þekkja, ekki aðeins orðaforðann, heldur líka merkingasvið orðanna, blæbrigði þeirra, osfrv.

Ég velti því fyrir mér að samferðafólk mitt þennan dag lagði á sig ómælt erfiði til að koma orðum Biblíunnar á öll tungumál veraldar, oft við erfið skilyrði, fórnaði öllu til þess eins, að ein þjóð eða jafnvel þjóðflokkur fengi Guðs orð á sínu móðurmáli. Núna er þessi vinahópur vítt og breytt um veröldina við kristniboð og sumir við þýðingarstörf.

Mér var í fersku minni samtal sem ég átti við Harald Ólafsson, (sonur Ólafs Ólafssonar, kristniboða í Kína), veturinn á undan Hann hafði verið við þýðingarstörf í Konsó í Eþíópíu. Hans starf og erfiði var gert að engu um langt skeið. Guðlaus lífsskoðun réð þá ríkjum í landinu, barist var gegn kristinni trú, og gegn útgáfu Biblíunnar. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þýðanda að horfa upp á að verk hans nái ekki fram að ganga.

1. MÆLT MÁL – GUÐS ORÐ Það er Biblíudagur á 2. sunnudagi í níuvikna föstu. Þess vegna rifja ég þetta upp. Guðspjallið er dæmisaga Jesú um sáðmanninn sem gekk út að sá. Hún kennir okkur tvennt: Annars vegar að það sem ekkert virðist vera, lítið sáðkorn hefur í sér kraft, til að breyta og umskapa lífi manna. Hins vegar erum við áminnt um það að hlusta á orðið.

Það er ástæðan fyrir því að guðleysisstefnur hafa viljað ryðja Heilagri Ritningu úr vegi, koma í veg fyrir að hún sé gefinn út, þeir óttast þetta orð og kraft þess. En það er trúin á þetta orð sem knýr fólk áfram eins og þessa vina mína að boða orðið og þýða það á tungur allra þjóða og þjóðflokka.

Fyrir nokkrum árum koma Konsó-maður í heimsókn hingað norður við Ballarhaf, Estephanos Barisja, afkomandi töframanns sem var einn af þeim fyrstu sem snérist til kristinnar trúar fyrir boðun Íslendinga. Ég fór með hann hér um sveitir og meðal annars heimsóttum við sr. Pétur og Ingu í Laufási. Við skoðuðum staðinn saman. Gamli bærinn minnti hann á húsagerð þeirra heima og aðstæður þar. En þegar við komum inn í kirkjuna var það Guðbrandsbiblía sem heillaði hann mest. Aðdáun hans skein úr andliti hans þegar hann fletti blöðum fyrstu Biblíu okkar á eigin tungu og ártalið 1584 varð til þess að hann fór að segja mér frá að enn er Biblían í heild sinni ekki komin út á Konsó-máli. En það er verið að vinna að því og tilhlökkun hans var augljós! Ég skildi hann svo vel og fann til djúprar samkenndar með honum vegna þess að ég er einn úr þessum hópi manna sem hef bjargfasta trú á þessu orði og krafti þess. (Ég hef eytt eða notað megnið af ævi minni til að lesa, rannsaka, kenna og boða þessi orð.) Og það er ekki bara vegna þess að ég er ‘philolog’, maður sem elskar gamla texta, heldur vegna þess að í þessu orði heyri ég um hugsun Guðs.

Hvernig má það vera, spyrðu kannski? Hvernig getur hugsun Guðs leynst í mannlegum orðum? Ég á við að hugsun Guðs er í dæmisögu Jesú um sáðmanninn sem gekk út að sá meðal annars. Það er nú það sem aðgreinir okkur menn frá dýrum að við getum hugsað eða gert áætlanir. Það er líkt með okkur og Guði, hugsunin. En það er ekki þar með sagt að mín hugsun sé Guðs. Auðvitað er það trú mín að Guð hugsar, tilveran styður þá trú mína, tel ég, það er vit í tilverunni. Og meir en það. Það er skylda okkar sem manna að lifa samkvæmt því viti. En það nægir okkur ekki til að skilja Guð nema að litlu leyti. Þverstæðurnar eru allt of augljósar í tilverunni jafnframt. Mannlega samskipti virðast vera svo lítilvæg í alheimsvíddunum. En þá er það, að Guð birtist sem maður, hugsun Guðs tók á sig manns mynd, hann kom til okkar og sagði okkur dæmisögu um sáðmann sem gekk út að sá sæði sínu. Ég veit að þetta hljómar sem argasta guðlast í eyrum sumra, en ég hef trú á Jesú Kristi og því sem hann sagði. Það var þetta sem hann sagði um sjálfan sig, eftir mínu viti. Þess vegna er þessi dæmisaga mér m.a. heilög Ritning, trúarbókin mín, sem gefur tilverunni vit, er hugsunin í tilveru allri.

Það er sem sagt ekki ástríðan að hafa gaman af fornum textum sem knýr mann áfram, heldur að þetta orð, þessar mæltu setningar, af vörum Jesú, er Guðs orð. Kirkjan er ekkert annað en fylgjendur Jesú Krists, þá á ég ekki við jábræður hans og systur, heldur þau sem hlusta á orð hans, festa það í minni og íhuga þýðingu þess fyrir sig, tileinka sér það í orði og verki.

Það er vegna komu Jesú Krists, Guðs sonar, að mælt mál er okkur Guðs orð fyrir trúna.

2. HEYRENDUR OG GERENDUR ORÐSINS Það er ítrekað í þessum hluta 8. kafla guðspjallsins að hlusta. Það er hitt atriðið sem dæmisagan kennir okkur.

Það mætti ætla að við nútímafólk sem getum haft kveikt á öllum rásum í útvarpi, sjónvarp og tölvu á sama tíma, kynnum að hlusta. Ég fann mig í þessu um daginn. Það var kveikt á öllum skjánum þremur og ég með fjarstýringuna í hendi! En ég var dofinn eins og dauður þorskur á þurru landi. Við erum orðin svo skyni skroppinn af of-framboði að ég held að megi fullyrða það, að við séum að missa vitið, alla veganna erum við í stórri hættu að missa vitið í tilverunni.

Hlustum og heyrum! – Hver veit nema við heyrum þá í Guði?!

Jesús talar um fernskonar sáðjörð. Og það brennur á honum að á hann sé hlustað. Þegar hann hefur flutt þessa líkingu er sagt frá, eins og í Íslendingasögunum okkar, án þess að lýsa hvaða tilfinningar liggja að baki, en við vitum það.

“Að svo mæltu hrópaði hann: “Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.” V. 8.

Að hlusta á þessa dæmisögu er eins og að horfa í spegill. Já, spegill! Það er líklega farið með okkur eins og miðaldra konuna sem horfði á sig í nýjum spegli og varð að orði: “Það er allt svikið nú til dags!” Nei, okkur hugnast ekki alltaf það sem við sjáum í speglinum. Og þannig er það einnig með Guðs orð, vegna þess að það er Guðs orð, að við sjáum eigin mynd með augum Guðs. Það er ekki þægilegt alltaf en gagnlegt er það yfirleitt.

Lítum á okkur í þessum spegli sálarinnar.

Fyrirgefið mér, en hvað haldið þið að þið munið af því sem ég er að segja á morgun? Ég á svo sem ekki við orðrétt, heldur af hugsuninni. Flýgur fugl! Horfið fræ!

Er hjarta mitt eins og klöppin? Orðin hrífa mig, ég veit að þetta er allt rétt og satt, en það reynir ekki á mig og trú mína. Eða ég er fljótur að svara að ég er bara í kirkjukórnum eða ég vinn bara í kirkjunni. Eða mér finnst gott að hvíla mig! Það kemur alltaf að því að það reynir á trú okkar hvort sem það er vegna áleitinna spurninga eða vegna erfiðrar reynslu. En það er fátt eins vitlaust eins og afneita vitinu í tilveru sinni þegar á reynir.

Svo eru það þyrnarnir og illgrsið. Eins og ég gerði að umtali þá er nútíminn svo mikið auðæfi og nautnir. Ég fæ ekki betur séð en að þetta séu með réttu einkunnarorð nútímans. Svo langt gengur það að við höfum áhyggjur af því að fá ekki notið alls strax áður en við deyjum! Auglýsingarnar knýja okkur áfram í linnulausu kapphlaupi eftir vindi. Bankarnir hafa vit fyrir okkur í fjármálum og skuldsetja okkur bak og fyrir, svo að líklegast deyjum við af fjárhagsáhyggjum. Fyrirgefið þessa spaugsömu framsetningu en hún er grafalvarleg.

Slökkvum á rafmagnstækjunum! Kveikjum á kerti, lesum Biblíuna og biðjum! Finnum okkur notalegan stað, í stofunni, borðstofunni eða eldhúsinu, jafnvel í svefnherberginu til að vera í næði. Æfum okkur í að hlusta. Hlusta eftir rödd Guðs. Ég meitlaði þessa hugsun einu sinni í þetta vers þar sem ég sé Krist koma til okkar og segja:

Verið hlóð og hlustið er ég tala Horfið upp og sjáið hver ég er. Reynið sjálf og sannfærist að ég er Guð svo þið getið hvílt í mér.

Á Biblíudeginum í ár erum við hvött til að hugsa til bræðra okkar og systra í Konsó í Eþíópíu. Þau eru núna loksins að fá sína fyrstu þýðingu á sínu móðurmáli en það er nokkuð í land á meðan við erum að vinna að 11. útgáfu Biblíunnar, eins og segir í dreifibréfi frá Hinu íslenska Biblíufélagi:

Vandamálið sem þýðingarstarfið í Konsó á nú við að glíma er aðstöðuleysi þýðendanna. Þeir sitja fjórir saman í einu litlu herbergi en fjölskylda býr í hinum hluta hússins. Það er því ekki aðeins þröngt um þá heldur er einnig mikið ónæði. Brýnt er að bæta aðstöðuna til að tryggja að þýðingarstarfið gangi eðlilega þau ár sem það á eftir að standa yfir. Það er ósk Konsómanna að byggt verði hús yfir þýðingarstarfið. Það yrði byggt á lóðinni ekki langt frá húsinu sem íslensku kristniboðarnir byggðu. Kostnaður við að byggja slíkt hús er um 70 þúsund eþíópísk birr sem samsvarar um 550 þúsund íslenskum krónum. Nú vill Biblíufélagið leggja sitt af mörkum til að koma upp slíku húsi. Með því munum við tryggja að þýðingarstarfið geti gengið áfallalaust fyrir sig og flýta fyrir því að Biblían öll komi út á máli Konsómanna. Fyrstu íslensku kristniboðarnar komu til Konsó fyrir meira en 50 árum. Síðan þá hafa tengsl Íslands og Konsó ekki rofnað. Og eftir að kristni söfnuðurinn í Konsó stækkaði og efldist jókst þörfin á að hann eignaðist Biblíuna á sínu eigin tungumáli. Nú er lokaspretturinn að því markmiði hafinn. Til að tryggja því verki farsæla höfn vill Biblíufélagið leggja sitt af mörkum. Tryggjum þýðingarstarfinu í Konsó varanlega aðstöðu. Kærar þakkir fyrir framlag þitt. Jón Pálsson, framkv.st. HÍB

Þið hafi þetta í höndum ykkar og vil ég hvetja bæði söfnuðinn og einstaklinga að gefa til þess starfs, í þetta ákveðna verkefni, að bræður okkar og systur í Konsó fái Biblíuna á sínu móðurmáli. Við eigum ekki aðeins að vera heyrendur orðsins heldur einnig gerendur. Og það megið þið vita að þegar þið farið héðan, farið þið með blessun Guðs, blessið þá sem verða á vegi ykkar, biðjið fyrir þeim sem eru í neyð, þjónið þeim sem eru þurfandi, og Guðs hugsun með okkur verður að veruleika.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.