Jafndægur á vori

Jafndægur á vori

Samt sem áður spyrjum við stundum á lífsleiðinni: "Hvernig getum við fengið Guð til að svara bænum okkar?" Það gerum við með því að hlusta á hann, með því að leyfa honum að leiða okkur og treysta honum algerlega fyrir lífi okkar. Þá tekur hann burt allan kvíða, allt óöryggi og allan lífsleiða.

Náð sé með okkur öllum og friður frá Guði og Jesú Kristi. Amen.

Í dag er sólríkur dagur hér á Möðruvöllum. Sólin skín á heiðum himni og snjórinn endurkastar birtunni yfir sveitina okkar. Og eftir tvo daga er jafndægur á vori, þetta undur sköpunarverksins sem við hér á norðurslóðum njótum svo vel. Þá verða ljós og myrkur í jafnvægi, dagur og nótt jafnlöng.

Og næst komandi sunnudag verður dagurinn orðinn lengri en nóttin.

Í mörgum löndum heims eru dagur og nótt jafnlöng allan ársins hring. Það gefur ekki eins mikla tilbreytingu og vídd í náttúruna eins og við fáum að upplifa hér á landi og andstæður skammdegis og sólbjartra sumarnótta bera með sér.

Jafndægur er táknrænt fyrir líf okkar. Stundum skín sólin í lífi okkar og stundum er myrkur. Stundum er dagur í lífi okkar og stundum er nótt. Þegar við göngum í gegnum erfiðleika finnst okkur að aldrei muni birta á ný. Alveg eins og var hér í gær dimm norðan hríð og skafbylur, þá gátum við ekki ímyndað okkur að í dag yrði svona fallegur dagur. Þannig eigum við erfitt með að ímynda okkur þegar lífið er erfitt að nokkurn tíma muni birta á ný. Eins er það líka þegar allt leikur í lyndi, þá eigum við erfitt með að ímynda okkur að allt geti farið á versta veg. En þannig er lífið. Stundum gengur allt á afturfótunum og stundum er allt yndislegt.

Ef við hugsum raunsætt um lífið og erum jákvæð um leið, ef við skoðum líf okkar til baka misjafnlega langt, því við erum á ýmsum aldri hér í dag, þá sjáum við að ljós og myrkur lífs okkar hafa verið í jafnvægi. Lif okkar hefur verið eins og á sólbjartri sumarnóttu og líf okkar hefur verið eins og á dimmum skammdegisdögum. En langflestir dagar okakr hafa verið eins og jafndægur, þar sem ljós og skuggar skiptast á í jafnvægi.

Inn í þessar aðstæður talar Jesús. Nú þegar fastan er að á ná hámarki sínu á 4. sunnudegi í föstu og við erum að íhuga píslarsöguna, þjáningu og dauða Jesú Krists, þá sjáum við ljós í myrkrinu. Við sjáum ljósið eftir skugga föstunnar í upprisunni. Því að líf Jesú endaði ekki á krossinum. Hann sigraði dauðann, reis upp frá dauðum og gaf okkur öllum fyrirheiti um hlutdeild í þeirri upprisu.

Eftir páska eru gleðidagarnir. Það eru dagarnir frá páskum til hvítasunnu. Þeir eru jafnmargir og dagar föstunnar. Þannig verður fastan og gleðidagarnir eins og eins konar samloka sem snýst um þann ás sem páskarnir eru. Sorg og gleði í jafnvægi.

Já, inn í þessar aðstæður tala Jesús. Og hann segir: “Ég er brauð lífsins.” Þegar okkur hungrar eftir einhverju, kemur hann og seður. Ef við þráum eitthvað kemur hann og gefur. Kraftaverkið um brauðin fimm og fiskana tvo sem lesið var um frá altarinu áðan sýnir okkur ómældan kærleika Krists. Kristur sýnir okkur enn meiri kærleika, en við biðjum um. Það sýna leifarnar sem eftir urðu af brauðunum fimm og fiskunum tveimur. Tólf körfur fullar. Já Kristur gefur okkur enn meira en við biðjum um.

Samt sem áður spyrjum við stundum á lífsleiðinni: "Hvernig getum við fengið Guð til að svara bænum okkar?" Það gerum við með því að hlusta á hann, með því að leyfa honum að leiða okkur og treysta honum algerlega fyrir lífi okkar. Þá tekur hann burt allan kvíða, allt óöryggi og allan lífsleiða.

Í gær var kyrrðardagur hér á Möðruvöllum. Við vorum hér 16 saman í kyrrð. Við sátum hér í kirkjunni, kringum altarið og létum Guð tala til okkar. Það er dýrmæt reynsla að njóta kyrrðar í nærveru Guðs og gefa sig honum algerlega á hönd.

Í guðspjalli dagsins er okkur sagt frá því að Jesús mettar 5000 manns með fimm brauðum og tveimur fiskum. Jesús mettar okkur með þeirri næringu, sem við mest þörfnumst, en það er innri friður, trúarvissa og kærleikskraftur. Tökum á móti þessum gjöfum með opnu hjarta og þannig finnum við að Kristur getur líka gert kraftaverk í lífi okkar. Þá mun myrkrið innra með okkur verða að því ljósi sem heldur lífi okkar í jafnvægi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.