Að tilheyra

Að tilheyra

Guð elskar ekki framsóknarfólk meira eða minna en Samfylkingarfólk. Guð er ekki hrifnari af Bjartri framtíð, Lýðræðisvaktinni eða Pirötum en Sjálfstæðisflokknum eða Vinstri grænum. Hvaða flokk eða fólk sem við veljum í næstu kosningum þá held ég að við þráum öll það sama; Réttlátt og gott líf fyrir fjölskyldur okkar og alla íbúa þessa lands. En það er einmitt vegna þess að við erum ólík sem við veljum mismunandi leiðir að sama markmiði.

dscn0200.JPG
Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina.
”Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.”
Skoðum þessi orð Jesú svolítið nánar. Hann segir þessar setningar við tvo vini sína sem eru svolítið tættir og týndir eftir erfiða reynslu og undarlega daga. Þeir eru órólegir. Þeir misstu vin sinn og leiðtoga en fengu hann aftur og nú er hann að tala um að hann sé aftur að fara frá þeim. Þeir eru óöruggir og óttast að missa hann á ný. Þeir vilja fá fullvissu um að þetta verði allt í lagi og leiðsögn um framhaldið. Atburðirnir frá skírdegi hafa breytt guðsmynd þeirra og þeir vilja nota tækifærið og fá sem nákvæmust svör frá Jesú á meðan hann er hjá þeim.

Tvær leiðir

”Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.”
Þessi orð eru oft túlkuð á þann veg að kristin trú sé sú eina rétta og að önnur trúarbrögð vaði í villu.  Að, ef þú trúir á Jesú og fylgir honum þá verðir þú hólpin(n). Annars ekki.

Einnig er hægt að túlka þessi á orð Jesú á þann veg að hlutverk Krists á jörðu hafi verið að sýna okkur hver eða hvernig Guð er. Að hann sé einmitt ekki að segja að trúin á hann sé eina rétta leiðin til Guðs heldur aðeins að þekkingin á honum auki þekkingu okkar á Guði.

Hvor túlkunin ætli sé réttari?

Sú fyrri leggur áherslu á aðskilnað; ”Við og þau” hugsun. „Mín trú er sú rétta, ekki þín“

Sú síðari leggur áherslu á fjölbreytileika. Ein leiðin til þess að þekkja Guð er að kynnast Jesú en það útilokar ekki að til séu aðrar leiðir.

Helsta gagnrýnin á fyrri túlkunina er væntanlega sú að hún sé útilokandi og geri ráð fyrir því að Guð geri upp á milli fólks eftir því hvort það hafi kynnst Jesú Kristi eða ekki.

Og helsta gagnrýnin á síðari túlkunina er væntanlega sú að hún gefi engin svör. Að allt sé opið og öll séum við í lagi, hverju sem við trúum. Að Guð elski bara allt fólk.

Hvora túlkunina eigum við nú að velja?

Hvora velur þú?

Ég hallast að þeirri síðari vegna þess að sú fyrri stangast á við þann Jesú sem ég þekki úr guðspjöllunum. Sá Jesús er einmitt ekki útilokandi og aðgreinandi. Hann er sá sem sameinar.

Ég tel að Kristin trú útiloki ekki önnur trúarbrögð. Okkur getur þótt ýmislegt um önnur trúarbrögð en við getum ekki útilokað þau á grundvelli þess að Jesús hafi sagt að kristin trú sé sú eina rétta. Hann hvetur okkur einmitt til þess að bera virðingu fyrir því að við erum ólík.

Ég trúi ekki á Guð sem er svo takmarkað fyrirbæri að það krefjist þess að við trúum á Jesú Krist á ákveðinn hátt til þess að við komumst í gegnum nálaraugað.

Herbergi fyrir okkur öll Í guðspjalli dagsins segir nefnilega einnig:

”Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er.”
Í húsi Guðs eru mörg herbergi. Þar eru herbergi fyrir Kristið fólk og múslima, fyrir Búdda og Hindúa, fyrir öll þau sem hafa áhuga á að tilheyra Guði og hinu eilífa ríki.

Því trúi ég.

Það er líka pláss fyrir þig hvort sem þú ert hommi, transgender eða gagnkynhneigð. Barn, fullorðin, gul eða græn. Vistaverurnar eru nefnilega margar.

Kosningar Þetta er eitthvað sem gott er að hafa í huga nú í aðdragandi kosninga. Guð elskar ekki framsóknarfólk meira eða minna en Samfylkingarfólk. Guð er ekki hrifnari af Bjartri framtíð, Lýðræðisvaktinni eða Pirötum en Sjálfstæðisflokknum eða Vinstri grænum. Hvaða flokk eða fólk sem við veljum í næstu kosningum þá held ég að við þráum öll það sama; Réttlátt og gott líf fyrir fjölskyldur okkar og alla íbúa þessa lands. En það er einmitt vegna þess að við erum ólík sem við veljum mismunandi leiðir að sama markmiði.

Það sama á við um trúarbrögðin en við vitum jú að við veljum okkur ekki trúarbrögð nema að afar takmörkuðu leyti. Til að mynda er fremur ólíklegt að innfæddur Íslendingur verði múslimi á sama hátt og það er ólíklegt að innfæddur arabi verði Kristinn. Hvorug þessara trúarbragða eru betri eða verri en hin því flest trúarbrögð snúast um það sama þegar upp er staðið; Trú á eitthvað æðra og þrá manneskjunnar eftir því að tilheyra.

Hryðjuverk? Þessir skelfilegu atburðir sem áttu sér stað í Boston, í Bandaríkjunum á fimmtudaginn, þegar tvær sprengjur voru sprengdar við markalínu Boston maraþonsins með þeim afleiðingum að þrjár manneskjur létu lífið og fjöldi fólks særðist, eru því miður ekki til þess fallnir að auka einingu mannfólksins og hvað þá trúarbragða. Þegar þetta er ritað vitum við lítið um ástæður sprenginganna en lögreglan þar í landi telur sig vita hverjir voru þarna að verki og hafa náð öðrum þeirra á lífi en skotið hinn. Það sem við vitum er að hinir grunuðu eru Múslimar frá Tjetjeníu og að þetta eru talin vera hryðjuverk.

Við vitum of lítið, enn sem komið er, til þess að geta sagt nokkuð með vissu um ástæðurnar að baki þessum sprengingum en nú virðist sem ákveðin trúarbrögð séu tengd við þær. Kannski með réttu en það er alls ekki víst. Mér þykir í það minnsta ólíklegt að þó svo gerendurnir séu öfgatrúaðir múslímar þá snúist þetta raunverulega um trú. Mun líklegra þykir mér að þetta snúist um þrá þeirra og mögulega samlanda þeirra til þessa að fá að tilheyra, að vera viðurkennd. En Tjetjenar hafa lengi barist fyrir viðurkenningu Rússa á sjálfstæði sínu og tilverurétti og ég er ekki sannfærð um að sú barátta snúist raunverulega um trúarbrögð. En við vitum of lítið til þess að geta fullyrt nokkuð um þetta mál.

Jesús flækir allt Ég held nefnilega að trúarbrögðin séu í raun ekki ástæða sundrungar í heiminum nema að litlu leyti. Ég tel mun líklegra að fólk noti trúarbrögðin sem skálkaskjól fyrir aðskilnað sem snýst um pólitík, fordóma, völd og byggist oft á ótta við það sem er öðruvísi.

”Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.”
Þessi setning felur ekki í sér einfalda lausn. Hún flækir eiginlega bara málin því Jesús var maður andstæðna. Hann reiddist og gladdist. Hann gerði kraftaverk og hann grét af vanmætti. Hann skammaði fólk og hrósaði því. Hann dó og hann reis upp. Hann boðaði frið og kærleika en hann var lítið fyrir meðvirkni.

Það sem hann þó sýndi okkur með lífi sínu er að Guð er réttlát vera, full af kærleika og virðingu. Hann sýndi okkur að Guð elskar og Guð hlustar. Að Guð er til staðar fyrir allar manneskjur. Af öllum trúarbrögðum. Því trúi ég. Amen.