Maður og kona á leið til Betlehem

Maður og kona á leið til Betlehem

Við skulum ekki láta hugfallast. Það koma tímar og koma ráð, en munum að við göngum ekki ein í gegnum dagana. Frelsarinn sem fæddist á jólanótt kom til að mæta þörfum manneskjunnar. Hann er frelsari úr nauðum, Undraráðgjafi, Guðhetja, munum það.

„Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós“ Jes.9.1

Þannig hljómar einn spádómurinn sem spádómskertið á aðventukransinum minnir okkur á. Og afhverju skyldi skína ljós? Jú,

„Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn.“ Jes.9.5
Þannig hljómaði boðskapur Jesaja spámanns. Það átti að fæðast von með litlu barni. Væntingarnar voru miklar, þar segir enn fremur:

„Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ Jes.9.5

Svo liðu nokkur hundruð ár. Þá kom að skrásetningu allrar heimsbyggðarinnar á tímum Ágústusar keisara. Þaðan eigum við heimild af þessari fallegu jólasögu.

Í einfaldleika sínum er hún tær og fögur. Samt segir hún frá nöturlegum aðstæðum. Þarna var ungt kærustupar sem þurfti að leggja land undir fót, 160 km. leið upp til Betlehem. Við getum reynt að gera okkur í hugarlund hvernig þeim var innanbrjósts. María komin á steypirinn og Jósef vissi að hann hafði ekki barnað hana. Það segir frá því í Matteusarguðspjalli að hann hafi afráðið að skilja við hana í kyrrþey úr því sem komið var. Samkvæmt sið og venju hans lands var hún réttdræp, orðin ófrísk og ógift. En Jósef vitraðist engill í draumi, sem sagði honum að vera rólegum með Maríu því barnið væri getið af heilögum anda. Engillinn sagði honum jafnframt að láta barnið heita Jesú, en það þýðir Guð frelsar.

Ekki veit ég hvernig Jósef var innanbrjósts með þetta allt saman. Það hljóta að hafa leitað á hann efasemdir. Eitt er víst, þau hafa haft ugg í brjósti þegar þau lögðu af stað í þessa örlagaríku ferð.

Maður og kona á leið til Betlehem.

Við vitum hvernig fór, því við höfum framhaldið af sögunni. Þau vissu það ekki, þau horfðu inn í óræða framtíð. Þau áttu von til Guðs sem hafði vitjað þeirra svo undarlega, en þau voru líka hrædd. Hvað áttu þau að gera ef barnið fæddist á leiðinni og þau ekki með athvarf. Þau hafa því verið fegin þegar þau komu til Betlehem í tæka tíð.

Það var margt um manninn, allir að láta skrásetja sig svo að keisarinn hefði yfirsýn yfir skatttekjurnar. Þau gengu frá einu gistihúsi til annars en alltaf var sama svarið. „Nei, því miður, það er allt full hér.“ Þau hafa því verið niðurlút þegar síðasti gistihúseigandinn sagði: „Nei, því miður, það er ekki pláss hér.“

Á aðventunni komu nokkur hundruð börn í Ástjarnar- og Kálfatjarnarkirkju. Ég sagði þeim söguna af fæðingu frelsarans og í sumum hópunum léku þau Maríu, Jósef, hirðana, englana og gistihúseigandann.

Í einu leikritinu barði ég að dyrum hjá síðasta gistihúseigandanum í Betlehem. Ég var búin að tíunda það að hvergi væri pláss fyrir Jósef og Maríu sem komin var með hríðir. Þegar ég barði að dyrum og spurði stúlkuna hvort hún ætti gistirúm svaraði hún hátt og skýrt: „Já, já.“

Ég komst nú við af hugulsemi stúlkunnar. Hún vildi hlúa að þessu ólánsfólki sem stóð þarna og konan komin að fæðingu.

En það var ekkert pláss handa þeim í gistihúsinu. Og ég varð að leiðrétta leikarann og sagði:

Mikið hefði það nú verið gott ef þau hefðu boðið Jósef og Maríu inn, þá hefði Jesús fengið að fæðast við betri aðstæður. Þar hefði verið hægt að sjóða vatn til þvotta. Þar hefði barnið getað lagst í rúm og kærustuparið hefði fengið betri hvílu.

En það var ekki pláss fyrir þau í mannabústöðum, þess vegna leituðu þau skjóls hjá dýrunum og náttúrunni. Spádómurinn rættist, það fæddist Undraráðgjafi, Guðhetja.

En koma konungs allrar veraldarinnar var öðruvísi en við gerðum ráð fyrir. Valdimar Briem orðar það svo fallega:

Hann var í jötu lagður lágt, en ríkir þó á himnum hátt.

Þar eru allar þessar ríkulegu myndir andstæðna, takið eftir því þegar þið syngið hann á eftir.

Hvert fátækt hreysi höll nú er, því Guð er sjálfur gestur hér. Hallelúja.

En bjóðum við hann inn sem gest okkar á jólum?

Skólabarnið úr Hraunvallaskóla vildi endilega fá Jesús inn með foreldrum sínum. Hvað vilt þú? Það er nóg að hugsa: Vertu velkominn með ljós þitt og blessun inn til mín.

Eftir að ég heyrði stúlkuna sem lék gistihúseigandann, bjóða parið velkomið inn, fór ég markvisst að spyrja síðari barnahópa hvað þau héldu að gistihúseigandinn segði.

Litlu krílin af leikskólanum sögðu flest já-á eftir smá umhugsun.

Eitt skólabarnið sem lék gistihúseigandann kunni söguna greinilega, því hún sagði strax að þau gætu því miður ekki gist hjá sér en hún ætti fjárhús sem þau gætu verið í.

Ég beið bara eftir að hún benti þeim hvert þau ættu að fara.

Það er ekkert skrítið að Jesús hafi síðar sagt: „ Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Mark. 10.15

Einkenni barnsins er annars vegar þetta fölskvalausa traust og hins vegar gæskan. Löngunin til að vera góður. Auðvitað vildu þau hjálpa Maríu og Jósef. Þau vildu að allt færi vel.

Þetta eru eiginleikar sem við öll höfum, en stundum hefur lífið kúskað okkur svo harkalega til að þeir víkja fyrir öðrum kenndum.

Sjálfsagt hefur margur gistihúseigandinn fundið til með Jósef og Maríu, en annirnar, erfiðleikarnir, plássleysið, TÍMALEYSIÐ, það hefur sjálfsagt yfirgnæft svo að fólki yfirsást það dýrmætasta. Þau misstu af því að konungur konunganna fæddist undir þeirra þaki.

Þau misstu af friðinum, hvíldinni og samræminu sem það veitir að finna nálægð Guðs.

Börnin í Hraunvallaskóla sögðu já. Þegar fólk færði börn til Jesú „tók (hann) þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. Mark.10.16

Við getum orðið barn í hjarta aftur. Jólin kalla fram þær tilfinningar með okkur.

Leyfum okkur að slást í för með Maríu, Jósef og leikskólabörnunum þessi jól.

Við eigum það sameiginlegt með Maríu og Jósef að við stöndum frammi fyrir hulinni framtíð. Verkefnin sem framundan eru virðast vera stór og ógnvekjandi. Við finnum til beygs um leið og við leitum að lausnum sem hjálpa þjóðinni í komandi framtíð.

Við skulum ekki láta hugfallast. Það koma tímar og koma ráð, en munum að við göngum ekki ein í gegnum dagana. Frelsarinn sem fæddist á jólanótt kom til að mæta þörfum manneskjunnar. Hann er frelsari úr nauðum, Undraráðgjafi, Guðhetja, munum það.

Það var hráslagalegt umhverfi sem blasti við Maríu og Jósef þegar von veraldarinnar var að koma í heiminn. Það sem gaf hjónaleysunum í Betlehem kraftinn var vonin, trúin og kærleikurinn sem þau báru til Guðs. Þau hvíldu í orði Davíðssálmsins: „Hjá Guði einum hlýtur sál mín hvíld, frá honum kemur hjálpræði mitt.“ Sálm.62.1

Von heimsins, Jesús fæddist inn í nöturlegar aðstæður lífsins. Hann hefur verið þar á undan okkur. Hann þekkir þjáningu hvers hjartasárs, hann grætur með okkur, tekur undir byrðina og gengur með okkur í gegnum það allt.

Í kvöld er tími til að fagna, halda hátíð ljóssins, því í myrkrum ljómar lífsins sól.

Ef við horfum til þess ljóss í von, þá erum við eins og börnin sem sögðu já, gjörðu svo vel, vertu velkominn í mitt hús.

En við höfum líka valið um að horfa inn í myrkrið og taka ekki eftir friðarhöfðingjanum sem kominn er í heiminn.

Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt, og nálægð þína ég í hjarta finn. Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt, í kotin jafnt og hallir fer þú inn. Þú kemur enn til þjáðra' í heimi hér með huggun kærleiks þíns og æðsta von. Í gluggaleysið geisla inn þú ber, því guðdómsljóminn skín um mannsins son. 75 - Jakob Jóhannesson Smári

Guð gefi þér og þínum gleði og frið á jólum.