Kirkjan er vettvangur tengsla

Kirkjan er vettvangur tengsla

Það eru viðbrögð Jesú sem eru hneykslanleg og það er í fullkomnu samræmi við söguna á undan, söguna af miskunnsama samverjanum, þar sem Jesús hneykslar áheyrendur með því að gera fína presta að skúrkum og útlending að hetju. Í stað þess að biðja Maríu að sinna skyldu sinni, setur hann Mörtu á pláss.

Það er eftirvænting í Laugarneskirkju og það finna allir sem komið hafa í kirkjuna undanfarna viku. Við sem erum hér ný, eða erum að leysa af, erum að finna taktinn í húsinu og undirbúa komandi viku þegar allt safnarstarf kirkjunnar hefst af fullum þunga. Í næstu viku fyllist helgidómurinn af lífi en þá koma hingað prakkarar og flakkarar, harðjaxlar og óðamála, fermingarungmenni og breytendur, allt í sitt vikulega starf sem miðar að þeirra þörfum.

Kirkjan er einstakur vettvangur, staður þar sem engar hæfniskröfur eru gerðar til inngöngu. Í veruleika ungmenna, þar sem alltaf er verið að meta getu - á sviði náms, íþrótta eða tónlistarhæfileika, er það léttir og huggun að eiga vettvang þar sem óhætt er að vera maður sjálfur án þess að nokkurt mat fari fram. Megnið af þeim börnum sem sækja kirkjustarf eru afreksfólk á flestum sviðum, æfa tvær íþróttagreinar, stunda listsköpun og standa vel félagslega og námslega - upptekið ungt fólk sem sækir kirkju til að blómstra félagslega á sama hátt og það gerir allstaðar þar sem þau eru. En hingað sækja einnig ungmenni sem ekki finna sig í hópíþróttum, ekki hafa möguleika á dýru tónlistarnámi og kvíða því að vera undirmáls í skólanum sínum. Það hef ég margoft séð í starfi mínu og vitnisburðir ungmenna sem segja að kirkjan hafi verið ,,eini staðurinn" þar sem þau pössuðu inní og voru hvergi sett undir mælistiku gerir það að verkum að ég fullyrði að barna- og unglingastarf sé mikilvægasta starf kirkjunnar, að öðru kirkjustarfi ólöstuðu.

Til kirkjunnar er að sækja uppbyggjandi tengsl, félagsleg tengsl og trúarleg tengsl, og þar læra börn að þau standa aldrei ein í lífinu. Sú vissa að eiga vin, Jesú Krist, sem gengur með manni alla daga og hægt er að leita til hvenær sem er og hvar sem er, í öllum aðstæðum - er fagnaðarerindi sem umbreytir lífum. Kirkjan býr (nefnilega) ekki yfir neinum algildum siðasannindum, engum heilögum einstaklingum eða skilgreindri aðferðafræði til velmegunar - en hún býr yfir djúpum gæðum sem felast í því að eiga samfélag við lifandi Guð. Allt sem kirkjan býr yfir, heilög ritning, heilög sakramenti, embætti og helgidómur eru sprottin af og benda á þessi tengsl við Jesú - og þau mega og eiga aldrei að vera notuð nema í þeim tilgangi.

Við lifum á spennandi tímum og erum að verða vitni að þróun, í okkar þjóðfélagi og um allan heim, sem er ögrandi og spennandi - en á sama tíma uggvænleg. Unglingar samtímans eru upplýstasta og tengdasta kynslóð mannkynssögunnar og það sem þótti óhugsandi fyrir örfáum árum er sjálfsagt í hugum þeirra sem nú eru að alast upp. Hugsið t.d. alla þá möguleika sem að internetið hefur opnað í samskiptum fólks og aðgangi að upplýsingum, og þeim aðgangi er enn sem komið er ekki hægt að stýra að fullu af valdshöfum. Fyrir örfáum árum þurftu bækur að hljóta náð fyrir augum bókasafna eða bókaforlaga til að vera aðgengilegar almenningi en í dag getur hver sem er birt verk sín á netinu og allir geta deilt án nokkurs leyfis. Þessi þróun á sér skuggahliðar, sem birtast t.d. í óhindruðum aðgangi af klámefni og hatursáróðri gegn tilteknum hópum, en hún ber líka með sér þá þverstæðu að þó að nútíminn feli í sér margvíslegar tengingar þá eru tengslin yfirboðskennd og afmörkuð. Þó við séum sýnilegri vinum okkar, t.d. á Facebook, og krakkar sem spila fjölþáttakenda-tölvuleiki geti átt vini um allan heim að þá ræna þessi sýndartengsl fólk - og sérstaklega börn og unglinga - tækifærum til að auka félagsfærni sína og djúptengsl.

Kristin kirkja snýst um tengsl og kirkjan er vettvangur til að dýpka tengslin við Guð og tengslin við fólk. Biblían fjallar í raun einungis um tengsl - Gamla testamentið rekur sögu Ísraelsþjóðarinnar og tilraunum hennar til að vera í tengslum og takt við Guð og tilraunum Guðs til að ná til þjóðarinnar og Nýja testamentið segir söguna af því þegar Guð gerist maður í Jesú Kristi í gegum tengsl við venjulegar manneskjur. Það er í raun sláandi, miðað við fullyrðingar Guðspjallanna að sagan af Jesú sé sagan að því þegar skapari himins og jarðar holdgervist í Jesú Kristi, hversu látlausar mannlýsingar guðspjallanna eru. Þar eru engar hetjur með yfirnátturulega krafta á borð við grísku og rómversku hetjurnar eða fullkomnir dýrlingar að hætti síðari helgisagna - einungis venjulegt fólk að glíma við tilveru sína.

Guðspjall dagsins segir frá þeim systum Mörtu og Maríu en þeim er lýst á fleiri stöðum í Nýja testamentinu. Í Jóhannesarguðspjalli kemur fram að þau systkini, Marta, María og Lasarus, bjuggu í þorpinu Betanía og að Jesús var náin fjölskylduvinur. Sagan af Mörtu og Maríu, eins og hún kemur fyrir í Lúkasarguðspjalli lætur ekki mikið yfir sér en er þrátt fyrir það með þekktari frásögnum guðspjallanna. Í samhengi guðspjallsins er þessi heimsókn Jesú í hús þeirra systra notuð sem brú á milli dæmisögunnar um miskunsama samverjann, sem er kjarnafrásögn um hvernig að okkur ber að umgangast aðra, og leiðbeiningum Jesú um bæn, sem nær hámarki í bæninni sem Jesús kenndi Faðir vor.

,,Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“

Útlegging hefðarinnar á þessari sögu er sú að Marta sé táknmynd fyrir þá sem ekki gefa gaum að hinu andlega lífi, heldur týna sér í daglegu amstri, á meðan María er hin sanntrúaða sem setur hið andlega líf ofar öllu. En þegar rýnt er í textann er Mörtu í raun ekki gefið neitt að sök. Það er Marta sem gaf Jesú gaum á ferðalagi hans og bauð honum heim - og hún leggur, eins og segir, allan hug á að veita honum sem mesta þjónustu. Maður sinnir jú gestum sínum, sérstaklega ef sjálfur mannsonurinn heiðrar mann með nærveru sinni.

Ósætti þeirra systra er jafnframt skiljanlegt, þær systur búa saman og þeim ber samkvæmt öllu báðum að þjóna gestum heimilisins. Marta er því í fullum rétti þegar hún spyrnir við og biður heimilisgestinn að krefjast þess að María hjálpi sér við þjónustuna, enda er hún að ræna sig ánægjuna af því að vera gestgjafi á heimili þeirra. Það eru viðbrögð Jesú sem eru hneykslanleg og það er í fullkomnu samræmi við söguna á undan, söguna af miskunnsama samverjanum, þar sem Jesús hneykslar áheyrendur með því að gera fína presta að skúrkum og útlending að hetju.

Í stað þess að biðja Maríu að sinna skyldu sinni, setur hann Mörtu á pláss: ,,Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ Jesús er að ögra, með því að hafna siðvenjum gestgjafa í samfélagi þar sem slík gestrisni er mikilsvirt og nauðsynleg, og gerir hetju úr Maríu sem er að bregðast skyldum sínum.

Sé þessi saga, sem þrátt fyrir látlaust yfirbragð snýr siðvenjum samfélagsins á haus, skoðuð sem formáli að umfjöllun Jesú um bæn öðlast hún merkingu. Sú bænaiðkun sem að Jesús boðar er nefnilega í sjálfu sér ögrandi og rótttæk. Á tíma Jesú reiddu gyðingar sig á hina andlegu stétt presta, sem þjónuðu Guði er átti hásæti í musterinu í Jerúsalem og ef koma átti skilaboðum, fórnum eða friðþægingum til Hans þurfti að sjálfsögðu að fara rétta leið. Prestar eða Levítar tóku við fórninni, greiðslu, og þeir komu skilaboðum til æðsta prestsins sem einn mátti nálgast hásæti Guðs - Guð var því jafn fjarlægur almúganum og hinir æðstu valdhafar samfélagsins.

Þvert ofan í þessa guðlegu hirð og valdapýramída prestastéttarinnar segir Jesús að það þurfi enga milliliði til að nálgast Guð. Hver sem er getur átt bænasamfélag við Guð, á einföldum og skiljanlegum forsendum, og til þess þarf enga presta, ekkert musteri, enga kirkju eða skrúðmælgi, Guð er okkar himneska foreldri og því hefst bænin á orðunum ,,Pabbi minn“ eða ,,Faðir vor“. Sú mynd að Guð sé foreldri er djúp og margræð en á sama tíma svo einföld að ekki verður um villst. Hún þýðir að við erum elskuð eins og börn; að við líkjumst foreldri okkar, erum sköpuð í Guðs mynd; að við erum systkini, mannkynið allt; og að Guð vilji eiga við okkur náið samband, á sama hátt og foreldi þráir djúpa nánd við börn sín.

Þessi guðsmynd er einföld, en hún er ögrandi - og hún var, og er, bein ógnun við þá sem telja sig geta talað fyrir Guð eða verið erindrekar hans á hátt sem að færir þeim völd. Prestar eru gagnlegir, ef þeir aðstoða fólk við að nálgast Guð, en ekki ómissandi - það eina sem þú þarft til að nálgast Guð er að biðja.

Bænin er jafn þverstæðukennd og sú Guðsmynd sem hér um ræðir, því að við erum upptekið fólk - og það er hjá okkur eins og hjá Mörtu að mörgu að hyggja. Ef að við meðvitað brjótum ekki upp dagskrá okkar og gefum okkur tíma til að eiga gæðatíma með Guði, 'sitja við fætur drottins og hlýða á orð hans' þá munum við fara á mis við þann fjársjóð að upplifa nánd hans í lífi okkar.

Við sem fullorðin erum þekkjum þann veruleika að eiga foreldra sem við þurfum að sinna. Ég nýt þeirra forréttinda að eiga föður á lífi sem er 82 ára gamall og ég þekki það að þurfa að taka meðvitað frá tíma til að dýpka samband okkar feðga. Ég sinni skyldum mínum sem sonur, hvað best ég get, og hann veit vel og virðir að ég er sjálfur upptekinn af vinnu, uppeldi og vinum en þær stundir þar sem ég gef mér góðan tíma til að dýpka samband okkar og vináttu eru þær stundir sem að innsigla nánd okkar.

Eins er með Guð, sá tími sem við tökum meðvitað frá til bænahalds og samveru með Guði er vel nýttur. Slík bænaiðkun er átak og það kostar meðvitaða ákvörðun að vilja eignast þannig bænalíf, en það er vel þess virði. Það bænalíf sem Jesús kennir eru náin tengsl við þann Guð sem elskar okkur og vill fylla líf okkar tilgangi, krafti og gleði - ekki aðferðafræði eða afrek - heldur djúpstæð tengsl við Guð, okkur sjálf og hvert annað.

Þetta er fjársjóður kirkjunnar og það eina sem við raunverulega höfum að bjóða, en þegar öllu er á botninn hvolft eru það tengsl sem öllu máli skipta. Tengls við Guð, okkur sjálf og hvert annað.

,,Þar munt þú leita Drottins, Guðs þíns, og þú munt finna hann ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni.“ (5M 4.29)