Skoðanir

Skoðanir

Ég sé ekki Jesú fyrir mér, leyna skoðun sinni á málefni sem skiptir máli. Þegar einhver þurfti hans við eða vildi heyra álit hans þá leit hann ekki í hina áttina og sagðist ekki geta tjáð sig fyrr en hann og lærisveinarnir hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Að skipta um skoðun Á Íslandi hefur löngum þótt fínt að hafa ákveðnar skoðanir og að standa fast á þeim hvað sem á dynur. Bjartur í Sumarhúsum er dæmi um Íslending sem ekki skipti um skoðun hvað sem á dundi. Hann var reyndar sauðþrár ofbeldismaður sem við ættum alls ekki að taka okkur til fyrirmyndar. Ég vona að við höfum komið langan veg frá því að það þótti fínt að líkjast Bjarti. Við höfum gott af því að skipta um skoðun reglulega. Ekkert okkar er óskeikult og þegar við fáum nýjar upplýsingar og fleiri rök þá er eðlilegt að við skiptum stundum um skoðun. Það er ekki merki um vingulshátt að skipta um skoðun þó Bjarti í Sumarhúsum hefði kannski þótt það. Það er fremur merki um þroska og góða greind. Faðir á tvo syni sem báðir segja eitt en gera annað. Kannski skiptu þeir um skoðun. Sá sem neitaði sá sig um hönd og sá sem játaði hætti við.  

Að hafa skoðun Það er oft mikilvægt að hafa skoðanir og að þora að láta þær í ljós, hvort sem þær eru gamlar eða nýjar, hvort sem skipt hefur verið um þær eða ekki. Síðustu daga hefur mikið verið fjallað um málefni Selfosssafnaðar og sóknarprestsins þar sem hefur verið í leyfi í hátt í tvö ár. Margir prestar hafa nú sagt skoðun sína á þessu máli á einn eða annan hátt og ekki eru allir sammála. Ég hef heyrt raddir sem segja að það sé ekki gott fyrir kirkjuna að prestar skuli ekki sýna einingu og vera sammála í þessu máli. Þarna er ég ósammála. Prestar kirkjunnar okkar eru næstum 150 talsins og sem hafa því eðlilega ekki sömu skoðanir á öllum málum. Ég vona að þessir 150 prestar séu sæmilegur þverskurður kristinna einstaklinga samfélagsins. Og ef svo er þá geta þeir ekki verið sammála um alla hluti. Ég held líka að það sé gott að þessir prestar láti skoðanir sínar í ljós þó þær séu margar og misjafnar og komi út sem að óeining ríki. Stundum ríkir bara óeining, bæði meðal presta og annarra og það er allt í lagi. Oft er mikill sköpunarkraftur þar sem óeining ríkir. Við þurfum ekki að vera hrædd við óeiningu og við þurfum alls ekki að vera hrædd um að kirkjan muni skaðast vegna óeiningar presta. Það eru allt aðrir hlutir sem skaða kirkjuna. Jesús Kristur hvetur okkur til þess að láta skoðanir okkar í ljós. Hann hvetur okkur til þess að standa með þeim sem eru minni máttar. Ef Jesús hefði ekki látið sínar skoðanir í ljós þá hefðum við verið litlu nær um hann. Þá hefðum við verið litlu nær um Guð. Ég sé ekki Jesú fyrir mér, leyna skoðun sinni á málefni sem skiptir máli. Þegar einhver þurfti hans við eða vildi heyra álit hans þá leit hann ekki í hina áttina og sagðist ekki geta tjáð sig fyrr en hann og lærisveinarnir hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu. Ég veit ekki hvort Jesús skipti um skoðun einhvern tíma en ég geri ráð fyrir því að hann hafi gert það þó það hafi kannski ekki þótt við hæfi að segja frá því í guðspjöllunum. Um leið og Jesús var sannur Guð var hann sannur maður, manneskja eins og við og manneskjur hljóta að skipta um skoðun því þær eru ekki óskeikular.  

Meðvirkni og kulnun Tveir synir. Annar segir já en gerir svo ekki það sem hann er beðinn um. Hinn segir nei en gerir það samt. Þetta hljómar svolítið eins og saga af unglingum í uppreisn. Hversu mörg ykkar hafa alið upp eða eru að ala upp ungling? Og svo er töluvert af unglingum hér í dag. Þú kannast kannski við það þegar unglingurinn neitar að koma heima á réttum tíma en gerir það samt. Eða þegar hún neitar að laga til í herberginu en gerir það síðan þrátt fyrir allt. Svo er það unglingurinn sem segist ætla að koma heima á tilskildum tíma en gerir það ekki. Hún sem segist alltaf vera búin að læra heima en er ekki búin að því. En það eru ekki bara unglingarnir sem skipta um skoðun sem stundum segja eitt en gera annað. Þú kannast kannski við vinnufélagann sem er alltaf að hrósa sér fyrir eitthvað sem þú veist að er ekki satt eða ekki í tengslum við raunveruleikann. Og það er kannski kona á þínum vinnustað sem er voðalegt hörkutól, þessi sem hefur skoðanir á öllu og öllum og sumir eru hræddir við. Þessi sem síðan er hlýjust allra þegar allt kemur til alls. Það eru ástæður fyrir öllu. Sú sem segir nei en gerir samt það sem hún var beðin um er kannski kona sem er að reyna að vinna á meðvirkninni og æfa sig í að segja nei. Það gengur bara ekki betur en þetta. Sá sem segir að hann muni taka verkið að sér en vinnur það síðan ekki er kannski kulnaður og kann ekki að segja nei en lamast síðan alveg á líkama og sál þegar að því kemur að vinna verkið. Auðvitað eigum við alltaf að reyna að vera samkvæm sjálfum okkur og ljúka þeim verkum sem við tökum að okkur og segja nei við þeim verkum sem við höfum ekki tíma til að sinna. Hugur á að fylgja máli og við eigum að lifa eins og við lærum. En stundum fer eitthvað úrskeiðis og það er þá sem við verðum að stoppa augnablik og líta í eigin barm. Þá er kannski kominn tími til þess að skipta um skoðun eða að minnsta kosti um stefnu.  

Sinnaskipti Jesús Kristur hvetur okkur í dag til þess að taka sinnaskiptum. Hann hvetur okkur til þess að skipta um skoðun þegar við sjáum að við höfum villst af leið, þegar við höfum rangt fyrir okkur. Hann sagði sína skoðun og hann þorði að taka afstöðu. Á sama hátt erum við hvött til þess að láta skoðanir okkar í ljós. En við eigum að gera það á nærgætinn hátt. Hann hvetur okkur ekki til þess að vaða yfir fólk eins og Bjartur í Sumarhúsum gerði og þröngva okkar hugmyndum upp á aðra. Nei, en við erum hvött til þess að leyna ekki skoðunum okkar séum við spurð og að standa upp og hrópa skoðun okkar hátt á götum úti ef við erum hrædd um að verið sé að brjóta á minni máttar. Það er ekki fínt að vera þrjóskur og þver. Það er mikið fínna að geta skipt um skoðun þegar svo ber undir.