Bolludagur

Bolludagur

Þegar pabbi var lítill upp úr 1930 gengu börnin á milli húsa á Húsavík og bolluðu fólk, sem ekki var komið á fætur. Mest var gaman að koma í sýslumannshúsið.

Þegar pabbi var lítill upp úr 1930 gengu börnin á milli húsa á Húsavík og bolluðu fólk, sem ekki var komið á fætur. Mest var gaman að koma í sýslumannshúsið því Júlíus Havsteen og Þórunn Jónsdóttir kona hans biðu alltaf í rúminu þangað til krakkarnir í bænum voru búin að koma og gáfu þeim svo öllum rjómabollur, eina fyrir hvert högg.

Bolludagur 2013Þegar ég var lítil um þrátíu árum síðar bjó pabbi til bolluvendi handa okkur. Hann klippti gamlan jólapappír niður í ræmur, bjó til lykkjur og límdi á heimatilbúna tréstöng. Við bolluðum síðan pabba og mömmu eldsnemma á bolludagsmorgunn í gamla hjónarúminu þeirra sem nú er gestarúm á Hólum. Þá saumaði mamma öskupoka sem við hengdum í fólk á öskudaginn.

Þegar börnin mín voru lítil voru bollurnar bakaðar á sunnudeginum og haldin veisla. Þá var lítið um bolluvendi. Eða voru þeir nánast horfnir? Ég hreinlega man það ekki. Dætur mínar tóku hins vegar þátt í mikilum hátíðahöldum á Akureyri á öskudaginn þar sem búningar voru skrautlegir og mikið um söng og sælgætisát.

Mörgum árum seinna komu við til New Orleans á Mardi gras hátíðinni. Þar fer fólk í miklar skrúðgöngur allan föstuinnganginn, sem er vikan fyrir öskudag. Ríka fólkið gengur í skrúðgöngum og kastar ýmsu girnilegu og verðmætu til þeirra sem standa hjá og horfa á. Þarna er tónlistin í algleymingi og stórkostlegt fjör. Á sjónvarpsskjánum höfum við svo sjálfsagt öll séð sambadansandi fólk í skrúðgöngum á kjötkveðjuhátíðinni í Ríó.

Allt þetta er sprottið af sama meiði. Hér áður fyrr var tímabilið fyrir páska, fastan, tekin alvarlega. Fólk borðaði ekki kjöt á föstunni og gerir ekki enn í strangtrúuðum katólskum fjölskyldum og því var ástæða til að kveðja kjötið áður en fastan gekk í garð á öskudag. Leifar af þeim sið eigum við í sprengidegi þegar við kýlum okkur út af saltkjöti.

En hvaðan kemur þá bolludagshefðin?

Í Sturlungu og biskupasögum er talað um að fasta við hvítan mat í föstuinngang. Líklegt er að menn hafi nýtt sér þessa daga fyrir langt föstutímabil til að gæða sér á ýmsu góðgæti, ekki síst brauðmeti. Í dönskum heimildum frá því um 1700 er talað um hveitibollur sem muldar eru og hrærðar með mjólk og smjöri og borðaðar í föstuinngang. Bolluát og feitmetisát virðist á öðrum Norðurlöndum reyndar hafa verið meira bundið við þriðjudaginn næsta í föstu. En á Íslandi hafa menn bundið þennan sið við mánudaginn, sennilega til að trufla ekki hefðbundinn matarsið sprengidagsins,

En hvað þá með bolluvöndinn?

Í katólskum sið var ösku dreift í kirkjum með einhvers konar vendi á öskudag og guðhræddir menn flengdu sjálfa sig með vendi í iðrunarskyni. Við siðbreytinguna breyttust flengingarnar í þá skemmtun að flengja aðra og börn tóku upp þann sið á bolludaginn hér á landi.