Til liðs við þjóð, kirkju og kristni

Til liðs við þjóð, kirkju og kristni

Ég spyr hversu lengi við ætlum að sætta okkur við að fólki þyki aðeins ein leið fær til að gagnrýna störf kirkjunnar: Að segja sig úr henni? Hluti af vandanum virðist vera að fólk veit ekki hvert það á að beina gagnrýni sinni.

juni2011 015

Við, íbúar á Íslandi, eigum fjölmörg það sameiginlegt að við erum skírð, fermd og gift í þjóðkirkjunni okkar. Að sama skapi erum við ótrúlega mörg sem bregðumst á engan hátt við þeirri gagnrýni sem sett er fram í ræðu og riti í garð kirkju og kristni.

Öll höfum við okkar ástæður. Sum okkar hafa jafnvel skráð sig úr þjóðkirkjunni. Okkar sem eftir sitjum er að óska þessum einstaklingum velfarnaðar á nýrri braut. Ábyrgð okkar í garð þess einstaklings felst fyrst og fremst í því að við sýnum þeim að við virðum ákvörðun þeirra og styðjum réttindabaráttu trúarsamfélags þeirra, sannfærð um að það sé okkar sem meirihlutasamfélags að gæta réttinda minnihlutahópa.

Hnífurinn virðist standa í kúnni þegar kemur að þessum punkti. Ótti okkar við að ganga á rétt þeirra sem tilheyra minnihlutahópi hvað trúarleg efni varðar, virðist slíkur að við þorum ekki að tjá okkur um það dýrmæta djásn sem við eigum í fórum okkar: Kristna trú. Afleiðingin er ekki aðeins sú að við drögum úr vægi kristninnar. Hvað trú og trúarsiði varðar mætir nýja Íslendingnum þögnin ein. Slíkt ýtir undir framandleika íslenskrar menningar. Þessi skortur á fjölmenningarfærni leiðir til fjölmenningarfælni.

Hluti vandans er að sá sem tekur upp hanskann fyrir þjóð, kirkju og kristni er gjarnan uppnefndur ýmsum óprenthæfum orðum. Því er skiljanlegt að einstaklingurinn - sama hver staða hans er í samfélaginu - velji að segja ekki neitt heldur þegja þunnu hljóði. Enda hefur samfélagið brugðist honum: Eða hvar fékk hann þjálfun í að bregðast við harðri gagnrýni á trú sína og lífsskoðun?

Fyrir rúmum tuttugu árum benti dr. Vilhjálmur Árnason á að kirkjan hefði tilhneigingu til þess að verða hálfgert skraut í velferðar- og fjölhyggjusamfélaginu, til brúks á hátíðar- og tyllidögum. Eða með hans orðum:

Hún er borðarnir og slaufurnar sem gefa öllu hátíðlegt yfirbragð. Hún gætir sín á því að hrófla ekki við lífsmynztri manna á nokkurn hátt, heldur hnýtir enn fastar að því með því að gefa því stimpil guðlegrar réttlætingar.*
Orð hans voru beitt gagnrýni á þeim tíma. Hér benti hann á þá hættu sem að kirkjunni steðjaði - hún þyrði ekki (lengur?) að vera spámannleg rödd kristninnar sem spyr um vilja Krists. Varla þótti mönnum það huggun þá að hún væri að minnsta kosti til skrauts. En þögn okkar sem teljum okkur kristin og viljum þjóðkirkjunni vel er ótrúleg. Ætla má að ef ekkert breytist þá verði kirkjan ekki einu sinni ein stök skrautfjöður í menningu landans.

Ég spyr hversu lengi við ætlum að sætta okkur við að fólki þyki aðeins ein leið fær til að gagnrýna störf kirkjunnar: Að segja sig úr henni?  Hluti af vandanum virðist vera að fólk veit ekki hvert það á að beina gagnrýni sinni. Úrbóta er þörf. Við sem tökum að okkur ábyrgðarhlutverk í kirkjunni þurfum að spyrja okkur, hvort við séum búin að reisa þvílíka varnarmúra að erfitt sé að koma gagnrýninni að. Til þess að auka líkur á því að fólk sé ekkert að gagnrýna okkur, pössum við okkur á því að gera ekkert með gagnrýnina! Hvað þá að færa eitthvað til betri vegar.

Opnum munninn, mundum pennana, hömrum á lyklaborðin.Tjáum okkur um jákvæða og neikvæða sýn okkar á þjóð, kirkju og kristni - og hlustum á gagnrýnina um leið! Og takk þið fáu sem hafið verið dugleg að tjá ykkur.

-----

* Vilhjálmur Árnason. (1992). Eins og þér er vant. Um hlutverk kirkjunnar í nútímasamfélagi. Ritröð Guðfræðistofnunar, 6, bls. 163-174. [Pistillinn er stytt útgáfa af Morgunblaðsgrein sem birtist á bls. 31 í Morgunblaðinu laugardaginn 13. ágúst sl.]