Stefnumótun í æskulýðsstarfi án aðkomu kirkjulegs æskulýðsstarfs

Stefnumótun í æskulýðsstarfi án aðkomu kirkjulegs æskulýðsstarfs

Plaggið er metnaðarfullt og þar er hagur barna- og ungmenna augljóslega í hávegum hafður. Ég vil þó leyfa mér að gera athugasemdir við þessa vinnu því mér þykir mestu máli skipta að ekki sé einungis vandað til verksins, heldur einnig að haft sé gott og traust samstarf við alla sem vinna á þessum mikilvæga vettvangi.

Æskulýðsráð menntamálaráðuneytisins setti í lok nóvember fram stefnumótun í æskulýðsmálum. Stýrihópur var skipaður sem réð verkefnastjóra og á vef ráðuneytsins segir að þriggja ára ferli sé að baki stefnumótuninni. Um allt land er verið að vinna gott starf fyrir börn og unglinga og þar vinna margir af áhuga og hugsjón. Það plagg sem hér er til umfjöllunar er unnið í þeim anda, það sýnir metnað og þar er hagur barna- og ungmenna augljóslega í hávegum hafður.

Ég vil þó leyfa mér að gera athugasemdir við þessa vinnu því mér þykir mestu máli skipta að ekki sé einungis vandað til verksins, heldur einnig að haft sé gott og traust samstarf við alla sem vinna á þessum mikilvæga vettvangi.

  1. Á vef menntamálaráðuneytsins kemur fram að senda mátti inn athugasemdir og ábendingar til ráðuneytisins til og með 14. mars 2013. Því ber að fagna að mikilvæg stefnumótun eins og þessi sem fyrirhugað er að gildi til ársins 2018 sé sett í almenna kynningu á vef ráðuneytisins þó svo að nokkurri furðu sæti að hún eigi að gilda frá upphafi árs 2013, þ.e. áður en stefnumótunin er kynnt.
  2. Í inngangi að stefnumótuninni kemur fram að hún eigi sér þriggja ára aðdraganda og að á þeim tíma hafi verið haft samráð við félagasamtök og aðra hagsmunaaðila sem starfa að æskulýðsmálum.  Ekkert samráð hefur verið við okkur sem störfum í kirkjunni að æskulýðsmálum. Á umræddum tíma var undirritaður formaður ÆSKEY, Æskulýðsstarfs kirkjunnar í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og frá vorinu 2012 formaður nýstofnaðrar Æskulýðsnefndar þjóðkirkjunnar. Vert er að minna á að innan kirkjunnar er unnið fjölbreytt starf með börnum og unglingum um  allt land. Mót og viðburðir eru vel sótt, t.d. sækja um 500-600 unglingar Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar sem haldið er ár hvert. Einnig starfa innan kirkjunnar á annað hundrað leiðtogar og sjálfboðaliðar. Þá er unnið markvisst að leiðtogafræðslu og boðið upp á fjölbreytt námskeið fyrir leiðtoga og leiðtogaefni á öllum aldri.
  3. Í meira en áratug höfum við í kirkjunni unnið markvisst að því að efla ungmennalýðræðið innan kirkjunnar og teljum okkur hafa verið að gera góða hluti. Kirkjuþing unga fólksins er haldið árlega og starfar nú samkvæmt starfsreglum sem samþykktar voru árið 2009. Sérstaklega er mikilvægt að benda á að þess hefur verið gætt frá upphafi að landsbyggðin eigi þar sína fulltrúa til jafns við höfuðborgarsvæðið. Í stefnumótunarvinnu í æskulýðsstarfi er mikilvægt að unga fólkið komi þar að  – að rödd þeirra heyrist, bæði barna, unglinga, ungs fólks og þá af öllu landinu. Slíkt væri í samræmi við þá miklu vinnu sem ráðuneytið, skólar, félagasamtök og margir fleiri hafa lagt í við að auka og efla ungmennalýðræði á síðustu árum.

Hið ánægjulegasta við þessa stefnumótun er að þar kemur fram (bls. 5) að stofna eigi einn vettvang allra þeirra sem sinna æskulýðsstarfi. Þetta er mjög þarft að við sem vinnum að æskulýðsstarfi höfum vettvang til að hittast og miðla málum og að hið fjölbreytta skipulag kirkjulegs æskulýðsstarfs út um allt land falli að þeirri lausn, starfs sem á yfir 120 ára sögu.

Því set ég fram þá ósk fyrir hönd barna- og unglinga sem eru virk í kirkjulegu æskulýðsstarfi að þeirra hagur verði einnig hafður með í myndinni og að samstarf varðandi stefnumótun verði víðtækara í framtíðinni.