Ég mun fylgja þér í gegnum allt

Ég mun fylgja þér í gegnum allt

Sársauki, niðurlæging og dauði einkenndi þessa viku í lífi Jesú. Kirkjuklukkur hljóðna. Sálmar eru sungnir í moll og guðsþjónustur kirkjunnar einkennast af íhugun og bæn.

Bænavikan, Dymbilvikan, Kyrravikan. Vikan frá Pálmasunnudegi fram á Páskadag hefur mörg nöfn. Þetta er vikan sem var allt annað en kyrr fyrir Jesú Krist. Þessa viku fyrir meira en tvö þúsund árum síðan afklæddist Jesú allri mannlegri reisn á ofbeldisfullan hátt. Sársauki, niðurlæging og dauði einkenndi þessa viku í lífi Jesú. Kirkjuklukkur hljóðna. Sálmar eru sungnir í moll og guðsþjónustur kirkjunnar einkennast af íhugun og bæn.

Mitt í öllu þessu fyllast kirkjur landsins af unglingum sem hafa valið að fylgja Jesú Kristi. Og þar er Grafarvogskirkja engin undantekning. Fermingarnar hefjast á Pálmasunnudag og þann dag minnumst við þess er Jesús reið inn í Jesúsalem við mikil fagnaðarlæti til þess að síðar að mæta sínum hryllilegu örlögum.

Við getum spurt okkur hvers vegna við veljum að ferma unglingana á þessum tíma. Fermingin sem er stór gleðihátíð er haldin á sama tíma og við minnumst pínu og dauða Krists. Ástæðan er meðal annars sú að fermingin, sem er staðfesting skírnarinnar, er ekkert sem eingöngu á heima á sunnudögum lífsins. Á fermingardeginum lýsir unglingurinn yfir vilja sínum til þess að fylgja Jesú, í gegnum súrt og sætt. Gleði og sorg. Eða er þessu kannski líka öfugt farið? Ef til vill er það Jesús Kristur sem lofar, á fermingardaginn, að halda áfram að fylgja unglingnum i gegnum lífið. Jesús sem sjálfur upplifði og gekk í gegnum það versta sem nokkur manneskja getur upplifað og veit því mæta vel hvernig það er að vera manneskja í ófullkomnum heimi. Kannski er það hann sem segir á fermingardaginn: „Ég mun fylgja þér í gegnum allt“.

Á Páskadag breyttist allt. Þá höldum við hátíð. Og þess vegna höldum við hvern sunnudag heilagan. Á Páskadag gaf Guð okkur endanlega lífið. Gröfin var tóm því Jesús Kristur sem lést á grimmilegan hátt á föstudaginn langa, var upprisinn. Lífið hefur sigrað dauðann. Þetta þýðir ekki bara að Jesús Kristur lifir enn í dag. Þetta þýðir að við munum lifa áfram eftir að við endum þetta líf hér á jörðinni.

Við höldum upp á þetta, lífið sjálft, meðal annars með því að ferma unglingana. Guð lífsins og kærleikans tekur þá við öllum þeim unglingum sem í kirkjum landsins velja að fylgja Honum. Guð segir þá við femingarbarnið: „Ég mun fylgja þér í gegnum allt“!

Það er mín von að þau sem nú fermast í kirkjunni okkar endi ekki sinn feril sem kristnar manneskjur með því að fermast, heldur sé fermingardagurinn aðeins upphaf eða áframhald á þeim ferli. Það er einnig mín von að þau sem nú fermast ljúki fermingarundirbúningi sínum í þeirri vissu að þau séu elskuð fyrir það eitt að þau eru hluti af Guðs góðu sköpun. Að þeim finnist þau ekki þurfa að sanna tilverurétt sinn með því að ganga í réttu fötunum eða með því að sýna yfirburði sína yfir öðrum á einhvern hátt. Ég vona að hvert fermingarbarn finni að Guð, sem veit hvernig það er að vera unglingur, elski þau hvernig sem þau eru og að þeirra nánustu láti þau ávalt finna að þau séu dýrmæt. Það er í mínum huga mikilvægara en að kunna trúarjátninguna eða biblíuvers utan að. Þó það sé ágætt líka.

Guð gefi ykkur gleðilega Páskahátíð!