Hver er ég í augum Guðs?

Hver er ég í augum Guðs?

Sú saga er sögð um heimspeking að hann hafi setið á bekk í garði, mjög svo hugsi, horfinn inn í hugarheima, svo að lögregla sem gekk þar hjá leist ekkert á manninn, þekkti hann ekki. Þegar lögreglan kom að honum aftur nokkru síðar í sama ásigkomulagi, gekk hún til hans og spurði: “Hver ertu?” Heimspekingurinn leit á hann, vakinn af sínum djúpu hugleiðingum sagði hann: “Ef ég vissi það nú”!

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.

Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.

Þá munu þeir svara: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs. Matt 25.31-46

Að spegla sig í augum Guðs

Sú saga er sögð um heimspeking að hann hafi setið á bekk í garði, mjög svo hugsi, horfinn inn í hugarheima, svo að lögregla sem gekk þar hjá leist ekkert á manninn, þekkti hann ekki. Þegar lögreglan kom að honum aftur nokkru síðar í sama ásigkomulagi, gekk hún til hans og spurði: “Hver ertu?” Heimspekingurinn leit á hann, vakinn af sínum djúpu hugleiðingum sagði hann: “Ef ég vissi það nú”! Það fylgir ekki sögunni hvort heimspekingurinn hafi verið færður á lögreglustöðina eða ekki. Í Vestrænu samfélagi er líklega leyfilegt að hugsa.

Við skulum taka upp þennan þráð, spurninguna um það hver er ég. En setja hana í trúarlegt samhengi. Trúin gefur spurningunni nýja eða aðra vídd. Einn af kirkjufeðrunum hugleiddi spurninguna í bók sem hann kallaði “Játning” og kemst þar að því að hann þekkti í rauninni ekki sjálfan sig fyrr en hann kynntist Guði, þá sá hann sig í nýju ljósi, lærði að þekkja sjálfan sig.

Spurningin sem ég vil að þú farir með úr kirkjunni í dag er þessi: Hver er ég í augum Guðs? Textarnir sem við lásum gefa tilefni til þess að spyrja sig að því. Skiptir það mig einhverju að sjá spegilmynd mína í augum Guðs. Við hverja guðsþjónustu okkar kristinna manna er farið með blessunarorðin sem segja: “Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig... upplyfti sínu augliti yfir þig...” Svo það hefur all nokkuð að segja fyrir okkur að hugleiða spurninguna hver er ég í augum Guðs. Nýt ég náðar hans, lítur hann til mín með kærleika og elsku?

Þessi nýja vídd trúarinnar er svo skemmtileg, að geta séð sig utan frá eða ofan frá, frá sjónarhóli Guðs. Algjört grundvallaratriði varðandi guðlegan húmor, sem er þessi, að taka sig ekki allt of hátíðlega, geta séð skoplegu hliðarnar við sjálfan sig, þetta, að geta brosað með Guði að sjálfum sér. Þannig náum við meiri trúarþroska, held ég. En þá þurfum við að spyrja okkur: Hver er ég í augum Guðs?

Guð í sköpuninni

Kannski finnst þér þetta framandi orðalag að tala um augu Guðs eða jafnvel óþægilegt að hafa augu Guðs vakandi yfir þér signt og heilagt. Ég fyrir mitt leyti sveiflast þarna á milli. En ef við reynum að útskýra myndmálið.

Guð birtist okkur í náttúrunni, í sköpunarverkinu. Þar getum við séð Guð og þar reynum við nálægð Guðs. Og það gerist stundum að við undrumst handaverk Guðs, sjáum regluna í öllu og viskuna sem úrverk sköpunarinnar gengur eftir. Guð er mikill og viska hans meiri en svo að ég geti komið henni fyrir í huga mínum.

Börnin mín eiga Tölvubiblíuna og þar er ný útgáfa af sköpunarsögunni sem mér finnst sniðug. Johannes Möllehave grípur þar til myndmálsins um augu Guðs til að gefa til kynna visku Guðs sem var í upphafi og er að baki allri sköpun hans. Það birtast tvö augu á skjánum og í bókinni. Vísan er svona:

Í upphafi var Guðs augna-par það eina sem í heimi var. Guð horfði í kring og sá og sá hvar svaramyrkrið lá og lá.

Öll veröldin er Guðs valdi í. ”Verði ljós!” hann sagði því. Sem keilan gula sem þú sérð sért þú með vasaljós á ferð.

Barnsleg og skemmtileg hugmynd og útskýring á frekar erfiðri hugarþraut. En er það ekki oft að þessi reynsla okkar af Guði í verkum hans, gefa okkur hugboð um að við erum í stórkostlegu sambandi við Guð sjálfan, við erum verk hans, við erum gerð til samfélags við hann, hann gefur okkur dag og nótt, hvern hjartslátt, hvert andartak. Svo algjörleg erum við háð Guði. Og það er gott, oftast, en stundum ógnvekjandi.

Guð í mannlegu samfélagi

Ástæðan fyrir því er að það er eitthvað öfugsnúið við mannlega tilveru. Og Guð hefur eitthvað með það að gera, ekki að tilvera okkar sé öfugsnúin, heldur birtist Guð okkur í mannlegum samskiptum. Sigurbjörn Einarsson, biskup, íhugar það í bókinni Sárið og perlan, sem fjallar um píslarsöguna. Þar segir hann orð sem ég hef staðnæmst við í umhugsun minni: “Þegar þú horfir í augu við aðra manneskju þá horfist þú í augu við Guð”.

Þá strax upplifum þetta misræmi sem við rekumst svo oft á í samskiptum við annað fólk. Samviskubit eða sekt yfir einhverju sem við höfum sagt eða gert, eða þá afskiptaleysi og sinnuleysi. Hvað er þetta? Samviskan. Guð birtist okkur í samviskunni, í mörgum andlitum, en alltaf sá sami, í augum meðbróður þíns og systur. En við megum ekki gleyma jákvæðu hliðinni. Guð faðmar mig í stráknum mínum sem kemur til mín og leggur hendur sínar utan um hálsinn á mér og horfir í augun mín sínum fallegu himinbláu augum og segir “mamma”. Guð er kærleikur og við elskum Guð með því að elska meðbróður okkar og systur sem hann sendir í veg okkar. Þar lifum við Guð ekkert síður en í náttúrunni.

Guðfræði Matteusar er þessi að Jesús er nálægur í meðbróður okkar og systir sem er þurfandi. Það er í kærleiksþjónustu að við erum að þjóna Guði. Það þarf nokkuð áræði að sjá sig þannig í augum Guðs, að prófa sig, hvernig er ég í mannlegum samskiptum. Er ég fúll á móti? Eða er ég almennilegur?

Það er merkilegt hvað við getum verið dómhörð við aðra. Hafið þið ekki tekið eftir því að oft segir maður eitthvað um einhvern og svo koma orðin í bakið á manni, vegna þess að maður er ekki hótinu skárri sjálfur. Dómur í mannlegu samfélagi er oft svo miskunnarlaus, við höldum að við séum svo réttlát og jafnvel með guðlegu umboði, en Guð dæmir ekki svo hart. Ef við sjáum Guð í augum náunga okkar þá lærist okkur að vera mild eins og hann, vegna þess að við höfum sjálf notið miskunnar Guðs. Á síðasta sunnudegi kirkjuársins hugleiðum við dóminn á efsta degi. Sú hugsun verður okkur ekki erfið ef við lærum þessa aðferð sem Matteus kennir okkur á að sjá Guð í meðbróður okkar og systur.

Guð í persónu

En get ég horfst í augu við Guð sjálfan? Hvar finn ég hann? Sumir leita inn á við, inn í sjálfan sig. Við erum gerð af visku Guðs og margt merkilegt að skoða í sálinni, en Guð finnum við ekki þar. Einhver segir að Guð sé í naglanum, annar í dúkunni eða hinu og þessu, en Guð er ekki heldur í sköpuninni, vegna þess að Guð er skaparinn en ekki skepnan. Við getum áttað okkur á Guði í samvisku okkar og skynsemi að einhverju leyti en þar þekkjum við ekki Guð eins og hann er vegna þess að það er eitthvað öfugsnúið við mannlega tilveru. Þess vegna kom Guð til okkar sem persónu, sem talaði til okkar, hlustaði á okkur, horfðist í augu við vini sína. Þannig þekkjum við Guð eins og hann er í Jesú Kristi. Það er fagnaðarerindið sem kirkjan boðar. Þegar við lesum saman frásagnirnar um hann, þegar við biðjum saman í hans nafni, þá er hann hér, lítur til okkar með mildi, kærleika og ást.

Að vera öðrum Kristur allt til enda

Á síðasta sunnudegi kirkjuársins íhugar kirkjan endalokin, síðustu tíma og dóminn á efsta degi. Ég verða að gera þá játningu að ég á erfitt með að fara með þennan boðskap í ræðustólinn. Það er eitthvað hugboð að nútíminn hugsar ekki þannig. Kannski er það bara vitleysa í mér en játning okkar Vesturlandabúa finnst mér vera eitthvað á þessa leið: Tilveran er ekki endanleg, menningin og mannlífið stendur föstum fótum frá eilífð til eilífðar. Við erum réttlát og frjáls og eigum það besta skilið.

Í dag eru það ekki fyrst og fremst prédikarar sem boða síðustu tíma heldur minna vísindamenn á fallvaltleika náttúrunnar. Það er ljóst að lífsstíll okkar er lífríkinu hættulegur. Í sjónavarpsþætt fyrir nokkru var bent á að Gólfstraumurinn gæti breytt stefnu sinni ef lofhjúpurinn hitnar af völdum gróðurhúsaáhrifa. Þá gæti komið aftur ísöld á Íslandi. Mér brá þegar talað var um 200 ár í því sambandi. Ég verð svo sem allur en hvað með afkomendur mína og þjóð.

Það er umhugsunarvert að sjá hugmyndirnar sem kvikmyndirnar birta. Endalok einstaklinga og samfélaga er lýst þar fjálglegar en miðaldamálara gerðu í málverkum af helvíti. Þessar voðamyndir endurspeglast af djúpum ótta og angist sem við þjáumst af varðandi framtíðina. En hvernig vinnum við úr þessu út frá trúnni. Boðskapur guðspjallsins er ljós, huggun okkar og hlutverk er að halda í vonina, tileinka okkur þá trú sem Kristur boðaði og kenndi með fordæmi sínu, að gefa öðrum von, vera öðrum til hjálpar og stuðnings.

Guð lítur til okkar með kærleika og elsku

Guðfræði Matteusar er þessi: Jesús er nálægur. Það þýðir að við verðum að áræða að horfast í augu við okkur sjálf eða horfast í augu við Guð og sjá okkur speglast í augum hans, taka afleiðingunum af því að Guð lítur til okkar - með kærleika og elsku, lifa þannig undir blessunarorðunum. Þá áræðum við að horfast í augu við raunveruleikan, viðhalda voninni þar sem hún er að bresta. Að horfast í augu við endanleika sjálfs sín og heimsins, án þess að æðrast, heldur láta það verða hvatningu til að lifa með samferðafólki sínu í trú og kærleika.

Til að hnykkja á þessu vil ég lesa bæn Móður Teresu sem byggir á óðinum um kærleikann eftir Pál. Orð Jesú urðu trúverðug í dæmi hennar, hún lifði þennan boðskap, að hvert mannsbarn er Guðs barn, sem Guð vill vitja, lítur til með kærleika og elsku:

Drottinn, kenn mér að tala, / ekki sem hljómandi málmur eða hvellandi bjalla, / heldur í kærleika.

Gef mér skilning / og trú sem fært getur fjöll úr stað / - í kærleika.

Sýn mér þann kærleika, / sem er langlyndur og góðviljaður, / öfundar ekki, / reiðist ekki, / er ekki langrækinn, / sem samgleðst sannleikanum, / reiðubúinn að fyrirgefa, / trúa, vona og umbera allt.

Að lokum, / þegar allt hið ófullkomna líður undir lok / og ég mun þekkja / eins og ég er sjálf gjörþekkt af þér, / gef þá að ég hafi í trúfesti / lifað sem logi, / veikt endurskin / en sem þó bar birtu af / fullkomnum kærleika þínum. (Móðir Teresa, eftir 1. Kor. 13)