Ertu trúuð/trúaður?

Ertu trúuð/trúaður?

Það er ekki auðvelt að svara þessari spurningu fyrir mörg okkar og þegar fermingarbörnin fengu þessa spurningu í síðustu viku svaraði um helmingur þeirra játandi. En þegar ég fór að spyrja þau nánar út í hvaða merkingu þau legðu í það að vera trúuð þá svöruðu mörg þeirra að það þýddi að vera öfgafull í trú sinni, vera alltaf að biðja, lesa Biblíuna og að vera alltaf í kirkju.

Hér er hægt að horfa á prédikunina á youtube

Fermingarbörn um kirkjuna sína Í fyrstu fermingarsamverunum eftir áramót hafa fermingarbörnin verið að vinna með spurningar um kirkjuna sína, trú, Guð og náungakærleika. Þau hafa svarað spurningum, samið bænir og trúarjátningar og almenn kirkjubæn þessa sunnudags er samin upp úr þeirra eigin bænum.

Ein af spurningunum sem fermingarbörnin fengu var, hvað er það besta við kirkjuna þína?

Flest svörin voru að hún væri falleg, að glugginn væri fallegur, að fólkið væri það besta, að fólk væri svo jákvætt og “næs” í kirkjunni. Nokkrum fannst það besta vera að fjölskyldan kæmi saman, prestarnir væru góðir, að sófinn væri þægilegur og að í kirkjunni væri bannað að berjast.

Önnur spurning sem fermingarbörnin fengu var, hverju myndir þú vilja breyta í guðsþjónustunni?

Flest fermingarbörnin vildu enn meiri söng og tónlist, þau vildu syngja meira með. Nokkuð mörg fermingarbörn vildu ekki breyta neinu en nokkur vildu að það þyrfti aldrei að standa upp, sum vildu meira stuð og stemmingu. Einhver vildu að guðsþjónustan væri styttri og einn vildi fá að vera með fæturna uppi á bekknum fyrir framan þegar hann er ekki í skóm. Í tveimur fermingarhópum var sérstaklega talað um að þau vildu heyra einn sálm oftar en það er Baba yetu, afrískur sálmur um Faðirvorið.

Þegar þau fengu spurninguna um hvað þeim þætti skemmtilegast í kirkjunni var nokkuð ljóst að tónlistin var það sem flestum þótti skemmtilegast. Þeim fannst skemmtilegast að syngja og að hlusta á tónlistina og kórinn, mörgum fannst allt skemmtilegt og nokkur mörg svöruðu því að þeim fannst það besta vera friðurinn, kyrrðin og að geta slakað á. Nokkur fermingarbörn sögðu að þeim þætti prédikunin oft skemmtileg og altarisgangan og hvað fólkið væri jákvætt og “næs”. Nokkrum fannst líka skemmtilegast þegar guðsþjónustan er búin.

Við höfum talað mikið um það í vetur hver og hvað Guð er og skoðað það hvort til sé einhver ein rétt mynd af Guði eða hvort okkur sé leyfilegt að hugsa okkur Guð á okkar hátt.

Þegar fermingarbörnin fengu spurninguna um það hver eða hvað Guð væri fyrir þeim voru svörin fjölbreytt. Mjög mörg sögðu að Guð væri andi og vinur sem elskar þau og er allsstaðar. Frelsari heimsins og skapari himins og jarðar sögðu mörg. Máttur, sál, eitthvað gott, meistari og karl uppi á skýi voru einnig nefnd.

Þegar þau voru spurð að því hvað Jesús Kristur hefði kennt okkur voru svörin ákveðin. Flest töldu þau að hann hefði kennt okkur að trúa á okkur sjálf, elska náungann, fyrirgefa, vera góð og friðsöm og að trúa.

Eftir að hafa verið með þessum fermingarhópi í vetur verð ég að segja að ég er bjartsýn á framtíðina. Þetta eru klárir krakkar sem þora að tjá sig og ræða það sem skiptir máli. Mín reynsla er sú að þau vilja heyra um Guð, Jesú og trúna og ræða þessi mál. Ég held að það hafi komið þeim á óvart að við erum ekki hér til þess að segja þeim hvernig þau eiga að trúa þó við veitum þeim ákveðna fræðslu um grunnþætti trúarinnar og innsýn í líf og starf kirkjunnar.

Þessar spurningar sem við höfum verið að ræða við fermingarbörnin eru ekki vísindalegar kannanir og í þeim felst engin pólitík. Þær er fyrst og fremst settar fram til þess að við getum rætt þessi mál og lært hvað þeim finnst vera mikilvægt í kirkjunni og hverju þau vilja breyta.

Það er þó ljóst að þegar settar eru fram spurningar, svo ekki sé minnst á þegar verið er að gera skoðanakannanir, þá skiptir orðalag öllu máli.

Það er t.d. munur á því að spyrja hvað þér þykir best við kirkjuna þína eða hvort þér þyki eitthvað vera gott við hana. Og það er stór munur á að spyrja “hverju viltu breyta” eða “hvað finnst þér leiðinlegast”.

Ertu trúuð/trúaður? Fyrir nokkru lét Siðmennt, félag siðrænna húmanista, gera könnun á lífsskoðunum og trú fólks. 821 manneskja svaraði könnuninni. Þetta er áhugaverð könnun þar sem í ljós kemur m.a. að 70 % Íslendinga (af þessu úrtaki) telja sig kristna. Það er líka áhugavert hversu margar spurninganna fjalla um Þjóðkirkjuna og álit fólks á henni en ekkert er spurt um álit fólks á Siðmennt. Þetta er svolítið eins og að Þjóðkirkjan gerði könnun á lífsskoðunum og trú fólks eyddi hluta spurninganna í að kanna viðhorf við annars trúfélags en Þjóðkirkjunnar eða t.d. Siðmenntar sem er einmitt skráð lífsskoðunarfélag og fær því nú félagsgjöld sem ríkið sér um að innheimta fyrir þau, eins og trúfélögin. En ástæðan fyrir þessum spurningum er einmitt sú að þessi könnun snýst um pólitík.

Í þessari könnun kemur fram að 46,4 % telji sig trúuð, 23,7 % er ekki viss og tæplega 30 % telja sig ekki trúuð.

Telur þú þið trúaðan eða trúaða?

Það er ekki auðvelt að svara þessari spurningu fyrir mörg okkar og þegar fermingarbörnin fengu þessa spurningu í síðustu viku svaraði um helmingur þeirra játandi. En þegar ég fór að spyrja þau nánar út í hvaða merkingu þau legðu í það að vera trúuð þá svöruðu mörg þeirra að það þýddi að vera öfgafull í trú sinni, vera alltaf að biðja, lesa Biblíuna og svoleiðis.

Ég svara þessari spurningu játandi. Ég er trúuð. En það kemur nú kannski engum á óvart þar sem ég hef valið að vera prestur. Það væri kannski merkilegra ef ég myndi svara spurningunni neitandi.

Ég er trúuð, hef lesið Biblíuna, bið bænir og fer í kirkju. Samt er ég ekki viss um að mín trú sé endilega svo frábrugðin trú margra hér inni.

Ég trúi á eitthvað æðra og máttugra en manneskjuna, einhvern kraft sem er allt í kringum okkur og ég kalla Guð. Ég trúi ekki að Guð sé eins og skeggjaður, hvítur, miðaldra karl sem situr á skýi, heldur er Guð fyrir mér allt þetta góða sem er hérna allt í kringum okkur sem gefur okkur kærleika. Ég trúi því þó að Guð sé eitthvað persónulegt sem ég get haft samskipti við, talað við og beðið til. Og ég er sannfærð um að Guð elski þig og mig og sé á bakvið allt, líka miklakvell og þróun heimsins.

Ef Guðsmyndir okkar geta verið ólíkar hvað er það þá sem gerir okkur kristin?

Það sem kristið fólk á sameiginlegt er að það trúir því að Guð hafi að einhverju leyti gerst manneskja til þess að sýna okkur hvernig Guð er og hvernig Guð vill að við séum. Þessi manneskja er Jesús. Þetta þýðir þó ekki að Jesús hafi verið guðlegur á meðan hann var á jörðinni, því hann var algjörlega manneskja, eins og ég og þú.

Ég er nokkuð viss um að ef spurt hefði verið í könnun Siðmenntar hvort fólk tryði á Guð í stað þess að spyrja hvort fólk væri trúað þá hefðu mun fleiri svarað játandi. Ég veit að mörg fermingarbarnanna sem sögðu mér að þau væru ekki trúuð sögðu samt að þau tryðu á Guð.

Ég er svo glöð yfir því hvað fermingarbörn í dag eru opin með sína trú og eru óhrædd við að tjá efasemdir. Það er nefnilega þannig að við getum aldrei verið hundrað prósent viss og einmitt þess vegna köllum við þetta trú. Efinn er alltaf hluti af trúnni og efinn getur meira að segja hjálpað trúnni að vaxa og dýpkað hana. Ég veit líka að hluti fermingarbarnanna hér er ekki viss um hvort þau trúi á Guð. Það er allt í lagi. Til þess að fermast er nóg að vilja trúa, að vilja kynnast Guði og sjá hvað gerist.

Óréttlæti eða fullkomið réttlæti? Við heyrðum áðan afar óréttláta sögu, sem Jesús sagði, af manni sem var að ráða fólk í vinnu. Hann fór á togið og bauð þeim sem ekki voru í vinnu að koma og starfa á vínakrinum sínum. Hann samdi um launin við þau sem hann réð snemma um morguninn og þannig hélt það áfram allan daginn. Sumt fólkið kom snemma vann fram á kvöld en önnur komu seint og unnu því aðeins í einn eða tvo klukkutíma.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvor þau sem komu snemma hafi ekki orðið fúl þegar þau sáu að þau sem aðeins unnu stutta stund, fengu sömu laun.

Það er náttúrulega ekkert réttlæti í því að fólk sem stritar í sveita síns andlits í fleiri klukkutíma, í sólarhitanum fái ekki hærri laun en þau sem rétt líta við í stutta stund seinnipartinn, þegar hitinn er orðinn bærilegur.

Eða hvað?

Er þetta kannski hið fullkomna réttlæti? Að öll erum i við jafn mikils metin hjá Guði hvenær serm við komum, jafnvel þó við séum síðust?

Getur verið að Jesús sé einnig, með þessari sögu, að benda okkur á óréttlætið í heiminum? Að einmitt svona sé þetta hjá okkur?

Í flestum samfélögum er einhverskonar samkomulag um að fólk eigi að fá greitt eftir vinnuframlagi, menntun, reynslu o.fl. sem við höfum komið okkur saman um. En er það virkilega þannig hjá okkur að þau sem hafa menntað sig mest, eru með mestu reynsluna eða eru duglegust, fái bestu launin?

Nei, ég er nokkuð viss um að það sé ekki alltaf þannig og kannski getum við aldrei fundið upp hið fullkomna kerfi til þess að meta allt þetta eða farið eftir því.

Það kom fram fréttum í síðustu viku að um 1 % fólks í heiminum á meiri verðmæti en 99 % íbúa þessa heims. Það kom einnig fram að 62 manneskjur eiga jafn mikinn auð og helmingur mannskyns. Ætli þetta 1 % og þessar 62 manneskjur séu sé duglegasta, velmenntaðasta fólkið með mestu reynsluna?

Ég er ekki viss um það.

Kannski er er eitt af því sem felst í því að vera kristin, að við áttum okkur á óréttlæti í heiminum. Að við lítum aldrei undan þegar við sjáum óréttlæti og gerum alltaf okkar besta til þess að gera heiminn réttlátari og betri. Það er einmitt það sem Jesús gerði og vildi að við gerðum. Amen