Hvers vegna vill kirkjan hafa forystu um gott málefni?

Hvers vegna vill kirkjan hafa forystu um gott málefni?

Það er því köllun kirkjunnar að láta gott af sér leiða á þeim vettvangi eins og öllum öðrum vettvangi þar sem hún sinnir líknarþjónustu. Við tökum að sjálfsögðu öll þátt í að gera þessa söfnun sem veglegasta.

Kristin trú hefur verið boðuð í þessu landi í yfir þúsund ár og við hlið boðunar hefur verið unnin líknarstarf allt frá öndverðu. Allt frá fyrstu stjórnarskrá okkar hefur verið þjóðkirkja í landinu sem stjórnvöldum ber að styðja og vernda. Nýlega kom fram í þjóðaratkvæðgreiðslu að meirihluti þjóðarinnar vill halda þeirri skipan áfram.

Í þjóðkirkjufyrirkomulaginu tekur kirkjan að sér miklar skyldur. Kirkjunni ber að starfa alls staðar á landinu og þjóna öllum alveg burt séð frá trúfélagsaðild.

Kirkjan er hins vegar sjálfstæð að því leyti til að hún gerði samkomulag árið 1997 um að afhenda ríkinu kirkjujarðir gegn því að leigan yrði greidd í prestslaunum.

Þá voru í gildi lög um að ríkið innheimi félagsgjöld fyrir söfnuðina og endurgreiddi hverri sókn síðan tilbaka.

Því eru ekki um nein bein fjárframlög ríkisins til kirkjunnar eins og margsinnis hefur verið haldið fram af stjórnmálamönnum.

Hlutverk kirkjunnar er margþætt. Hún sinnir helgihaldi, annast fræðslustarf og er með mjög fjölbreytt hópastarf. Hún sinnir sálgæslu, áfallahjálp og hefur fjölda sjúkrahúspresta í þjónustu sinni, auk fangaprests, prests fyrir heyrnarlausa og fatlaða. Í mörgun söfnuðum og á stofnunum eru starfandi djáknar sem sinna sálgæslu, heimsóknum og helgihaldi.

Af hverju er kirkjan með allt þetta líknarstarf? Af hverju sinnir hún ekki eingöngu helgihaldi og sér um athafnir eins og skírnir, hjónavígslur og útfarir?

Það er vegna þess að Jesús sagði: Elska skalt þú náungann eins og sjálfan þig og hann sagði líka: Allt það sem þið hafið gert einum minna minnstu bræðra og systra það hafið þið gert mér.

Þetta er köllun kirkjunnar að koma til móts við þau sem minnst mega sín, þau sem eru veik og þjáð.

Þess vegna var Hjálparstarf kirkjunnar komið á fót fyrir mörgum árum og allir hafa litið á sem sjálfsagðan þátt í starfi kristinnar kirkju.

Það er þess vegna sem kirkjan vill standa að söfnun fyrir þeim sem þurfa á þjónustu Landspítalans að halda. Landsspítalinn þjónar öllu landinu eins og kirkjan þjónar öllu landinu. Við vitum aldrei hvenær við þurfum á þjónustu hans að halda, en eins og nú er komið þá þarfnast spítalinn tækja til að geta uppfyllt þetta hlutverk sitt á sómasamlegan hátt.

Það er því köllun kirkjunnar að láta gott af sér leiða á þeim vettvangi eins og öllum öðrum vettvangi þar sem hún sinnir líknarþjónustu. Við tökum að sjálfsögðu öll þátt í að gera þessa söfnun sem veglegasta og látum ekki neikvæð orð stjórnmálamanna draga úr okkur kjarkinn við þetta verkefni frekar en önnur þau verkefni sem kirkjan hefur unnið að þó hljótt hafi farið.